25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

238. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem komið er til þessarar hv. d. frá Ed., hefur verið athugað í sjútvn. d. og leggur n. einróma til, að það verði samþ. Frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. í sambandi við gerð nýrra kjarasamninga milli sjómanna og útgerðarmanna, en í sambandi við þá samninga komu báðir aðilar sér saman um að óska eftir því, að ákvæðum 4. gr. l. nr. 79/1968, sem fjalla um greiðslur af afla í Stofnfjársjóð fiskiskipa, þegar afli er seldur erlendis, verði breytt á þann veg, að greidd verði 16% í stað 22% af heildarsöluverðmæti aflans. Þetta frv. er flutt í samræmi við þessar óskir samninganefnda útvegsmanna og sjómanna. Fyrir sjútvn. hefur legið frv., sem snertir þetta sama efni, en gengur lengra, og hefur n. ekki afgreitt það. Telur hún ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um það, eftir að þetta samkomulag hefur tekizt milli útgerðarmanna og sjómanna. Einnig hafa flm. þess frv. tekið efni þess upp sem brtt. við þetta frv. á þskj. 641. Sjútvn. hefur ekki fjallað um þær brtt., þar sem þær komu fram eftir að hún fjallaði um málið og skilaði nál. En að sjálfsögðu liggja þær brtt. fyrir hér ásamt frv. til umr. og afgreiðslu.

Ég endurtek það, herra forseti, að sjútvn. mælir öll með frv., að það nál fram að ganga, en ég geri ráð fyrir, að úr því að þessar brtt. komu fram eftir að n. fjallaði um frv., þá vilji einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að fylgja þeim.