24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Ingvar Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. lét þess getið, að það væri ekki einhlítt að bera saman vinnutímastyttinguna á Norðurlöndum. Þar til þyrfti að koma m.a. samanburður launa, og gat hann um hinn mikla launamismun milli Íslendinga og Svía. Það er rétt. En hv. þm. láðist að geta verðlags í Svíþjóð samanborið við Ísland. Ég er nýkominn úr ferðalagi með atvinnurekendum og forsvarsmönnum launþegasamtakanna í járniðnaði til Svíþjóðar, og það vakti ekki furðu okkar sérstaklega atvinnurekendanna, heldur einnig forsvarsmanna launþegasamtakanna, hve dýrt er að lifa þar. Það segir einnig sína sögu, hve margir Íslendingar hafa skilað sér heim aftur eftir flóttann svokallaða frá þessu landi, sem hv. þm. minntist á, frá Svíþjóð.

Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir mildi hans í minn garð að dæma ekki svo hart óreyndan mann í kjaramálum. Rétt er það, að ég hef ekki mikla reynslu í kjarasamningum, því að yfirleitt hafa samtök vinnumarkaðarins hér í Reykjavík verið stefnumarkandi í þeim málum. En það gætti svolítils misskilnings hjá hæstv. félmrh. Ég var ekki með ummælum mínum að leggja dóm á samningsaðila vinnumarkaðarins, heldur leggja dóm á afskipti ríkisstj., sem leitt hafa til þess, að allar samningaumleitanir til þessa hafa ekki borið árangur.

Að lokum, þar sem hæstv. félmrh. gat þess, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hefði svarað fyrirspurn minni, þá held ég, að hann hafi þar með misskilið mig, vegna þess að fyrirspurn mín var til hæstv. ríkisstj., og hún var á þessa leið: Ég vildi aðeins spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir mismun virkrar dagvinnuviku hér og í nágrannalöndum okkar.