17.05.1972
Neðri deild: 83. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

237. mál, lögreglumenn

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Á þskj. 825 flyt ég brtt. við þetta frv. ásamt hv. 9. landsk. þm. og hv. 4. þm. Vesturl. Ég þarf að fara nokkrum orðum um þessar brtt., þótt óþarfi sé að hafa um þær langt mál.

Hv. alþm. fengu í hendur í gær bréf frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem vakin er athygli á þeim atriðum, sem brtt. okkar snerta. Hv. heilbr.- og félmn. Ed. hafði fengið þessar ábendingar sambandsstjórnarinnar, en tók ekki tillit til þeirra, og þess vegna er þess nú freistað í hv. Nd. að koma leiðréttingum að. Frsm. n., hv. þm. Stefán Valgeirsson, las hér upp kafla úr þessu bréfi, þar sem fram kemur, að það hafi verið krafa og tilmæli sveitarstjórnarsamtakanna árum saman, að ríkið annaðist eitt allan löggæzlukostnað í landinu. Það er tekið fram í þessu bréfi, það er tekið fram í samþykkt, sem fulltrúaráð sambandsins gerði, að þess sé vænzt, að fullt samráð verði haft við stjórn sambandsins og viðkomandi sveitarfélög um yfirtöku þessa verkefnis varðandi sameiginlegar eignir. Þetta samráð var ekki haft og er reyndar ekki fyrsta dæmið um það hér á þingi í vetur, hversu lítið samráð hefur verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga, þegar breytt hefur verið í veigamiklum atriðum löggjöf, sem sveitarfélögin snertir.

Brtt. okkar eru við 13. og 14. gr. frv. Brtt. við 1. mgr. 13. gr. er þess efnis, að sett er ákveðin regla um það. hvernig endurgreiðslur skuli eiga sér stað. Þar segir svo:

„Þó skulu sveitar- eða sýslufélögin annast greiðslu kostnaðar, svo sem verið hefur, gegn mánaðarlegri endurgreiðslu úr ríkissjóði allt til 31. des. 1972, að kostnaðargreiðslur færast til ríkissjóðs og umboðsmanna hans.“

Með þessu er kveðið á um það, hversu lengi þetta millibilsástand skuli vara, en í frv. eins og það er er ekkert um það sagt, hvorki um það, hvernig endurgreiðslurnar skuli eiga sér stað, né hvenær þessu ástandi skuli ljúka. En það sjá náttúrlega allir, að það er í fyllsta máta óeðlilegt, að sveitarfélögin séu að greiða reikninga fyrir ríkissjóð og fá það svo endurgreitt eftir dúk og disk og eftir einhverjum reglum, sem enginn veit, hvernig verða. Með þessari brtt. er kveðið fast á um þetta, hvernig þessu yrði hagað.

Brtt. okkar ganga að sumu leyti lengra, en að öðru leyti skemmra heldur en stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga óskaði eftir. Við gerum ekki till. um breytingu á því, að lögreglumönnum sé heimilt að vera áfram starfsmenn sveitarfélaga, þar til kjarasamningar renna út. Því hafði sambandsstjórnin reyndar óskað eftir. En við höfum ekki tekið upp þá till.

Varðandi 14. gr. gerum við tvær brtt. við 1. og 2. mgr. Við gerum brtt. við 1. mgr. þess efnis, að ríkið endurgreiði sveitarfélögum þeirra hlut í þeim tækjum, sem ríkið þarna yfirtekur. Ég get ekki séð, að það sé nein sanngirni í því, að ríkið yfirtaki eignir, sem sveitarfélögin eiga að hálfu, án þess að nokkur endurgreiðsla komi til. Ég sé ekki betur en þarna sé um hreina eignaupptöku að ræða, sem ekki á að bæta, og dreg satt að segja í efa, að svona ákvæði standist fyrir stjórnarskránni. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafði ekki gert till. um, að greitt yrði fyrir tæki og búnað, sem ríkið þannig yfirtæki, og ég held, að það megi segja, að sambandsstjórnin hafi sýnt talsverða sanngirni í því og kannske óþarflega mikla.

Við gerum einnig brtt. varðandi húsnæði, sem ríkið yfirtekur, þess efnis, að það verði greitt fyrir það húsnæði, sem ríkið mun hafa afnot af. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið taki við því húsnæði, sem ríkið eða sveitar- eða sýslufélög hafa stofnað til sameiginlega, það taki við þessu húsnæði án greiðslu fyrir viðtöku þess, en sveitar- eða sýslufélög haldi eignarhluta sínum í því. Þetta sýnist okkur ekki vera eðlilegt ákvæði og leggjum til, að sérstaklega verði samið um greiðslu á eignarhluta sveitar- eða sýslufélaga, og náist ekki samkomulag, þá skuli þrír dómkvaddir menn ákveða greiðslur. Okkur sýnist þetta vera mikið réttlætismál. Þetta var rætt á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var í jan. s. I. Þá fengum við — ja, ég má segja sent inn á fundinn — plagg frá ráðuneytisstjóranum í dómsmrn., þar sem hann greindi frá þeim hugmyndum, sem þá voru uppi í dómsmrn. varðandi þetta mál og óskaði eftir því, að þær hugmyndir yrðu kynntar á fulltrúaráðsfundinum. Þær hugmyndir voru nákvæmlega eins og koma fram hér í 13. og 14. gr. frv. Fulltrúaráðið lýsti eindreginni andstöðu við þessar hugmyndir og taldi nauðsynlegt og eðlilegt, að ríkið greiddi fyrir þær eignir, sem það þannig af eðlilegum ástæðum yrði að fá full umráð yfir, þegar löggæzlan væri að fullu og öllu komin í hendur ríkisins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en legg mikla áherzlu á það, að þessar brtt. verði samþykktar hér í hv. Nd.