18.05.1972
Neðri deild: 88. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti hv. 2. landsk. þm. tillögu, sem hann flytur ásamt þremur öðrum hv. þdm. Á fundinum var ekki hægt að fá afbrigði um þessa tillögu og varð að ráði, að 1. flm. dró tillöguna til baka eða lét sem hann hefði aðeins lýst henni og gert ráð fyrir því, að hún yrði flutt aftur við 3. umr., og hefur tillögunni verið útbýtt hér nú. Þegar ég las þessa tillögu, sýndist mér, að eitthvað vantaði á hana, og ég hugðist því á sama fundi flytja brtt. við þá brtt., en að sjálfsögðu varð ekkert úr mínum tillöguflutningi, þar sem tillaga fjórmenninganna lá aldrei fyrir, og þess vegna flyt ég þessa tillögu hér við 3. umr. ásamt tveimur öðrum hv. þdm.

Tillaga hv. 2. landsk. þm. er á þskj. 913 og fjallar um það, að 1. gr. frv. orðist eins og þar segir: Að skipan húsnæðismálastjórnar skuli vera með þeim hætti, að átta menn eigi þar sæti, þar af sjö kosnir hlutbundinni kosningu af Sþ. og einn skipaður af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Tillaga hv. þm. er um það, að sú skipan á stjórn Húsnæðismálastofnunar haldist, sem er í dag og hefur verið frá því að lögin voru samþykkt á Alþ. 4. maí 1970, þ. e. sjö menn kosnir af Sþ. ásamt fulltrúa, sem skipaður er af félmrh. samkv. tilnefningu Landsbanka Íslands. Það, sem mér fannst vanta á tillögu þeirra fjórmenninganna,var, að 5. gr. frv., eins og hún nú er orðin og samkv. brtt. frá hv. heilbr.- og félmn. var gert ráð fyrir að yrði, það sem eftir væri af 5. gr., sem nú er 6. gr., frv., félli niður. Í frv. er gert ráð fyrir því að breyta skipan húsnæðismálastjórnar og þar af leiðandi er í 5. gr. gert ráð fyrir, að sú breyting hefði leitt til þess, að kosning yrði að fara fram, þar sem gert er ráð fyrir í frv., að fækkað verði í húsnæðismálastjórn úr átta í sex. Þegar þeir hv. alþm. fjórir fluttu tillögu um, að stjórnin skuli vera átta menn, eins og hún er nú, sýndist mér, að vantaði tillögu um niðurfellingu á 6. gr., eins og hún er í dag. Ég vildi mega beina fsp. til hv. 1. flm., hvort ég skil ekki rétt, að hugsun þeirra sé, að þar verði í engu breytt skipun húsnæðismálastjórnar, hún verði áfram skipuð átta mönnum eins og hún hefur verið s. l. tvö ár, og þeir aðilar, sem skipa húsnæðismálastjórnina í dag, endi sitt kjörtímabil 1974, og því mundi hann taka undir brtt. mína og nánast staðfesta, að hér hafi verið um misgáning að ræða af þeirra hálfu. En þar sem 1. flm. talaði fyrir sinni tillögu í gær, en ekki núna, þá veit ég, að hann svarar því úr sæti sínu til þess að tefja ekki umr., hvort ég skil ekki rétt þeirra hugsanagang. (Gripið fram í: Nei, það er enginn misskilningur.) Nú, það er enginn misskilningur. Það er þá hugsun flm., að áfram verði sjö manna stjórn eða átta manna stjórn, sjö kosnir af Sþ., og umboð þeirra manna, sem nú gegna störfum í húsnæðismálastjórn, verði fellt niður. (Gripið fram í: Alveg rétt.) Og kosin ný sjö manna stjórn. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) — (Forseti: Ég áminni þm. Ekkert samtal hér í salnum.) Þessar spurningar voru aðeins bornar fram til að tefja ekki málið eða lengja umr. óþarflega.

Hér við 1. umr. þessa máls ræddi hæstv. félmrh. um skipan Húsnæðismálastofnunarinnar og gerði grein fyrir því, að hann teldi, að í stjórninni ættu allt of margir menn sæti, og ég vildi því aðeins, af því að ég sé, að einn af hans ágætustu stuðningsmönnum er 2. flm. þessarar tillögu, spyrja, hvort ráðh. hefur skipt um skoðun og fallizt á, að þessi tillaga yrði fram borin, ef það mætti verða til samkomulags við einhverja aðila innan þings. Þá er komið í ljós, að hér er verið að flytja tillögu um, að stjórn Húsnæðismálastofnunar sé skipuð jafnmörgum mönnum og verið hefur s. l. tvö ár, en aðeins gert ráð fyrir því, að umboð núverandi stjórnarmanna verði fellt niður og nýir menn kosnir í staðinn. Ef þetta er virkilega hugsunin og meining flm. og hæstv. ráðh., vil ég fullyrða, að hér eru tekin upp ný vinnubrögð, algerlega ný vinnubrögð, og ég efast um, að sé þingsagan skoðuð, þekkist þetta fyrirbrigði þar. Ég veit, að það þekkist með stjórnarskiptum, að breytt sé í stjórnum ýmissa opinberra stofnana, og þá er ævinlega farin sú leið, sem hæstv. ráðh. ætlar nú að fara og hefur áður farið, að breyta tölu þeirra manna, sem í viðkomandi stjórn sitja, og slíkt kallar að sjálfsögðu á uppkosningu, því að annaðhvort fækkar mönnum eða þeim fjölgar. Þess vegna hefur ráðh., — og ég lét það í ljós við 1. umr. málsins, — þess vegna flytur ráðh. tillögu sína í 1. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að fækka í húsnæðismálastjórn úr átta í sex. Það er alltaf dálítið viðkunnanlegra að leggja til breytingu, sem kallar svo á afleiðingar, og í þessu tilfelli voru þær uppkosning á stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Það, að stjórnarskipti í landinu kalli á breytingar í stjórnum hinna opinberu stofnana, held ég, að sé afar sjaldgæft, ef þau fyrirbrigði eru til undir öðrum kringumstæðum en þeim, sem ég gat um hér áðan. En ég mun nú víkja að því síðar, hvaða tilfelli það eru, sem mönnum að sjálfsögðu eru efst í huga, þegar hæstv. félmrh. kemur hér með frv. um breytingu á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins og leggur til fækkun á stjórnarmeðlimum.

Í ræðu hæstv. heilbr.- og félmrh. hér við 1. umr. fjallaði hann nokkuð um pólitísk afskipti af peningamálum, af úthlutun lána og þá alveg sérstaklega pólitísk afskipti í sambandi við húsnæðismálalánin. Eins og hans var von og vísa, vöktu þau orð, sem hann viðhafði, töluverða athygli og hafa orðið landfleyg á nokkrum dögum og vissulega hafa ýmsir tekið undir það, sem ráðh. sagði, í þeirri trú, að það, sem hann segði, meinti hann. En hér kemur allt annað í ljós, þegar þetta mál er skoðað ofan í kjölinn, og við erum nú komnir hér í þessari hv. d. til 3. umr. og sjáum, hvern endi þetta mál virðist raunverulega eiga að hafa af hálfu ráðh. og þeirra aðila, sem hann hefur fengið til liðs við sig. Í þessari ræðu sinni, sem ég gat um áðan, vék ráðh. að starfsháttum Húsnæðismálastofnunarinnar, húsnæðismálastjórnarinnar, og gaf í skyn, að þar færu fram ákveðnar athafnir. Áður en þær umsóknir væru afgreiddar, sem sú stofnun tekur á móti og lögum samkvæmt á að afgreiða, þá færi fram það sem hann nefndi pólitískt þukl. Hann gaf í skyn, að þannig störfuðu þeir menn, sem gegna stjórnarstörfum hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins og kjörnir eru af Alþ. eða tilnefndir af Landsbanka Íslands. Ég geri þó ráð fyrir og ég held, að ég fari með það rétt, til þess að um engan misskilning sé að ræða, að ráðh. hafi þar eingöngu átt við þá aðila, sem kjörnir eru af Alþ., en ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi átt við, að embættiskosni maðurinn væri með slíkt þukl, sem hann nefndi svo. Húsnæðismálastjórn brá skjótt við, og það er einkennilegt, að þeir allir saman, menn sinn frá hverjum stjórnmálaflokki, gera samþykktir varðandi þessi ummæli ráðherrans og lýsa yfir furðu sinni á þeim orðum, sem ráðh. hér viðhafði, og mótmæla harðlega þeim áburði, sem ráðh. var með í þessari umræddu ræðu. Í ræðu sinni sagði ráðh., með leyfi forseta:

„Það er t. d. yfir Húsnæðismálastofnuninni níu manna stjórn“, — á að sjálfsögðu að vera átta — „og vafalaust er það gert til þess, að flokkarnir fái allir aðstöðu til þess að hafa fulltrúa í stjórninni til þess að fara höndum um allar umsóknir um húsnæðismál hvaðanæva að af landinu og þukla þessar umsóknir, auðvitað frá flokkspólitískum sjónarmiðum.“

Og svo heldur ráðh. áfram: „Ég álít, að þetta eigi ekkert erindi inn í húsnæðismálalöggjöfina, og við þurfum sem fyrst að ná samstöðu um að komast hjá þessu formi í þessum þýðingarmikla málaflokki almennings.“

Hann varpaði fram þeirri hugmynd, að þessum málum yrði komið fyrir þannig, að það væru bankarnir, sem fjölluðu um lánaumsóknirnar og ynnu úr þeim, veðdeild Landsbankans eða sérstök veðdeild, sem bankarnir stæðu að. Hins vegar hafði ráðh. engar hugmyndir né tillögur uppi í þessum efnum, og ég fæ ekki skilið, hvað liggur svo mikið á í sambandi við breytingu á stjórn Húsnæðismálastofnunar, þar sem ráðh. lét í veðri vaka, að hann hefði mjög góðar hugmyndir, sem miðuðu að því að fjarlægja, eins og hann orðaði það sjálfur, þetta pólitíska þukl. Ég fæ ekki skilið, hver ástæðan er fyrir því, að stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar er nú breytt á síðustu dögum þingsins. Ég fæ ekki skilið, hvers vegna ráðh. notar ekki tímann í sumar og fram á haust til þess að koma með þessar hugmyndir, sem hann lét hér í veðri vaka varðandi breytta stjórn á Húsnæðismálastofnuninni, til þess að útrýma öllu þessu pólitíska þukli úr stofnuninni. Ég held, að þeir aðilar, sem setið hafa í stjórn þessarar stofnunar, hafi ekkert það aðhafzt, að ráðh. hafi ástæðu til þess að víkja þeim sérstaklega í burtu, víkja þeim sérstaklega frá, og því hefði frá þessu sjónarmiði verið eðlilegt, ef allt var hér eins og talað var, að ráðh. hefði notað sumarið til þess að gera nýjar tillögur og leggja þær fyrir þingið í haust, tillögur, eins og hann orðaði það, sem hefðu það í för með sér, að allt pólitískt þukl væri fjarlægt úr húsnæðismálastjórninni.

Við meðferð málsins var gerð breyting á 4. gr. frv., en ráðh. hafði einnig lagt til breytingar á stjórn verkamannabústaða í sveitarfélögum. Hann hefur hins vegar fallizt á það, að þessi grein falli niður, og ég geri þá ráð fyrir því, að hann hugsi sér að nota tímann til þess að koma fram e. t. v. með aðrar hugmyndir í sambandi við stjórn þessara mála, ef hann ekki með tíð og tíma og, eins og hann orðaði það sjálfur, að fenginni reynslu á þessari stjórn sannfærist um, að það fyrirkomulag, sem er í lögunum í dag varðandi verkamannabústaðina, sé það, sem æskilegast er. Ég held þess vegna, að það hefði verið skynsamlegast af ráðh. að fallast á það líka, að 1. gr. frv. félli niður og sumarið væri notað, eins og ég gat um hér áðan. En því er ekki að heilsa, og þess vegna er sú tillaga, sem ég minntist á hér áðan, fram komin, því að eins og ráðh. leggur frv. fyrir, mundi dæmið koma þannig út, að þeir flokkar, sem sæti eiga á Alþ., næðu ekki allir fulltrúa í stjórn þessarar stofnunar, en með þeirri brtt., sem hér er flutt, er þessu kippt í lag, ef samþykkt verður. Í tillögu ráðh. kemur fram, hver hans hugsun er í sambandi við þessi mál og þar leggur hann til, eins og ég sagði áðan, að verði fækkað í stjórninni.

Það hefur verið flutt önnur brtt. við frv. af hv. 3. landsk. þm. þess efnis, að það verði enn fækkað í húsnæðismálastjórninni, og hann bendir á nýja hugmynd í sambandi við það, með hvaða hætti stjórn þessarar stofnunar skuli vera. Við getum deilt um það, hvort sú hugmynd er að okkar skapi eða ekki, en það er engu að síður hugmynd um breytt form, en ekki aðeins tillaga um að fækka í stjórninni, svo að hægt sé að kjósa upp.

Þegar litið er á tillögu ráðh. um fækkun í húsnæðismálastjórninni og ræða hans hér við 1. umr. skoðuð, er ekki óeðlilegt, að menn renni huganum aftur í tímann, því að svo vill til, að þessi hæstv. ráðh. hefur áður gegnt því embætti, sem hann gegnir í dag, og þar með verið yfirmaður Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Og út frá þeim orðum. út frá þeim hugmyndum og út frá því, sem ráðh. vildi láta menn skilja af ræðu sinni hér við 1. umr., þ. e. burt með allt pólitískt þukl, þá er ekki óeðlilegt, að gerður sé samanburður á því, hvernig stjórn þessara mála var á árunum 1951–1958, þegar hæstv. ráðh. sat í þessum sama ráðherrastól og gegndi embætti sem æðsti maður Húsnæðismálastofnunar. Eitt af fyrstu verkum ráðh. þá var að breyta stjórn Húsnæðismálastofnunar, og það var engin smábreyting. Þessari breytingu lá svo mikið á, að ekki mátti einu sinni bíða samkomudags Alþ. Það varð að gera breytinguna með brbl., og nú skyldu menn halda, að breytingin hefði verið eitthvað í svipaða átt og á sömu nótum og ráðh. talaði hér við 1. umr., að skipan þeirrar vondu stjórnar, sem setið hafði að völdum áður en vinstri stjórnin sú tók við völdum, yrði að breyta, öllu, sem þá hafði verið gert, skyldi breytt og allt pólitískt þukl yrði úr sögunni. Nei, það varð dálítið öðruvísi. Áður en ráðh. tók við embætti sínu, voru fimm aðilar í húsnæðismálastjórninni, og þeir voru kosnir af Alþ., en þetta fannst ráðh. ekki sem allra bezt og hann breytti lögunum í þá átt, að í húsnæðismálastjórn skyldu vera sjö menn. Þá var talið eðlilegra að fjölga úr fimm í sjö, en núna er talið eðlilegra að fækka úr sjö í fimm. Auðvitað breytast hlutirnir og þess vegna geta tillögur manna líka breytzt. (Félmrh.: Tímarnir breytast og mennirnir með.) Tímarnir breytast og mennirnir með, alveg rétt, ráðherra, og þessir sjö menn, sem skyldu skipa stjórnina. áttu að vera valdir sérstaklega af ráðh. Það var ekki hugsað, að þessir aðilar væru úr bankanum, né hafði ráðh. þá skoðun, að rétt væri nú að breyta frá því sem stjórnin áður hafði það og þessir aðilar skyldu verða tilnefndir af bankanum og veðdeild Landsbankans eða veðdeild bankanna fengi málið til meðferðar. Nei, það voru sex menn sérstaklega útvaldir af ráðh., sem áttu að sitja í stjórn Húsnæðismálastofnunar, og til viðbótar einn maður eftir tilnefningu Landsbanka Íslands, þ. e. samtals sjö. Þarna er að finna fyrstu viðbrögð hæstv. ráðh. í sambandi við Húsnæðismálastofnunina og þær hugmyndir, sem hann hafði í sambandi við þá stofnun. Það var fjölgað úr fimm mönnum í sjö og þeir skyldu nú ekki aldeilis vera kosnir af löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Það skyldi vera ráðh. einn, sem útnefndi þessa menn.

En þetta ástand varði ekki lengi og sjálfsagt hefur ráðh. áttað sig á því, að þarna var gengið einu feti of langt, ef ekki fleirum, og hann breytti aftur stjórn Húsnæðismálastofnunar og það á sama ári, sjálfsagt eftir einhverjar ábendingar, kannske þrýsting aðila, sem bentu honum á, hvernig hér var farið að. Þá hafði líka vinstri stjórnin fundið upp nýtt patent til þess að fyrirbyggja það, að hægt væri að skipa opinberar stjórnir eftir hlutföllum á Alþingi Íslendinga. Það var með þeim hætti, að af fimm mönnum skyldi Alþ. ekki kjósa nema fjóra og ráðh. tilnefna einn. Hefði Alþ. kosið fimm, þá kom það í hlut þess lista, sem Sjálfstfl. lagði fram við kosningu, að fá tvo menn, en með því fyrirkomulagi, sem þarna var fundið, hlaut sá listi aðeins einn mann. Vinstri stjórnin hafði þess vegna möguleika á því að ná fjórum mönnum af fimm með þessu nýja patenti, sem þá var upp fundið.

Ég minni á þetta aðeins til þess að sýna fram á, að hæstv. ráðh. hefur komið hér áður við sögu, og það, sem hann hefur í þessu máli nú verið að gera, er ekkert annað en að endurtaka það, sem hann gerði á tímum vinstri stjórnarinnar 1956–1958, þ. e. að koma inn í þessa stofnun sérstökum þuklurum, eins og hann orðaði það sjálfur, til þess að geta komið fram þeim málum, sem hann telur að komið verði fram í gegnum þessa þuklara, og svo ætlar hann sjálfur að verða, og verður sjálfsagt, yfirþuklari stofnunarinnar. Þetta er nú mergurinn málsins. Og það skiptir engu máli, hvort það eiga að vera fimm eða sjö í stjórninni, þ. e. sex eða átta með fulltrúa Landsbankans, það skiptir engu máli, hvaða hugmyndir ráðh. hefur sjálfur um skipan stjórnarinnar, um fjölda manna í stjórninni. Aðalatriði málsins er að fá uppkosningu til þess að geta komið sínum þuklara, eins og hann hefur orðað það, inn í þessa virðulegu stjórn. Og ég sé, að einn af flm. tillögunnar kinkar kolli.

Ráðh. vék að því í upphafi ræðu sinnar, að þessar stofnanir ættu ekki að vera með einhverju pólitísku marki brenndar og það ætti að koma þessari stofnun þannig fyrir, að starfsmenn banka færu með það vald, sem lögin gerðu ráð fyrir að þessi stofnun hefði, og pólitískt þukl yrði þurrkað út. En eru þessar starfsaðferðir ráðh. til þess fallnar, að það, sem hann talar um, að hann vilji gera, muni verða? Mér sýnist, að farið sé algerlega öfugt að. Í húsnæðismálastjórnina eru kosnir af Alþ. sjö menn í dag. Þeir eru þuklarar fjögurra pólitískra flokka, eftir því sem ráðh. sagði, og hans hugsun er að bæta þuklara eins flokksins við í viðbót. Einhvern tíma hafði maður nú heyrt um það, að þessi flokkur og ýmsir af hans ágætu forustumönnum væru nú hreint ekki á þeim buxunum í íslenzku stjórnmálalífi að hafa einhver pólitísk áhrif á gang mála eða pólitísk afskipti, að þeir ætluðu sér að vera nú með í þeirri spillingu, sem hefði verið á undanförnum áratugum, þann tíma, sem þeirra flokkur hefði ekki verið til. Nei, þökk fyrir, drengir mínir. Það stóð nú alls ekki til, að þeir ætluðu sér að fara að taka þátt í öllu svínaríinu. Þetta var áður en komið var hér inn í sali Alþingis. (Gripið fram í: Þeir hafa ekki aðeins verið að þukla, heldur bara káfa.) Vel má vera, að þuklið eigi að byggjast á því, að það sé veitt aðhald, ég skal ekkert um það segja. Það vita þeir, sem að því ætla að standa, með hvaða hætti þeir hugsa sér það.

Hér á Alþ. hefur það verið töluvert rætt á síðustu árum, með hvaða hætti stofnanir og stjórnir þeirra skuli kosnar og hvernig kjörtímabil þessara stjórna skuli vera. Og það hefur einmitt verið uppi sú stefna að gera þessar stofnanir sem sjálfstæðastar. Engu að síður er það Alþ., sem kýs, en horfið hefur verið að því ráði meir og meir að ákvarða starfstíma stjórnanna sérstaklega ákveðinn árafjölda, en ekki hafa það, sem oft áður hafði verið og er undir vissum kringumstæðum. að nýkjörið þing kjósi í viðkomandi stjórnir til þess að stofnanirnar hafi stjórn, sem sé samkv. skipan Alþingis. Eitt bezta dæmið um þetta er sú tillaga, sem kom fram um skipan útvarpsráðs. Þar er fjögurra ára starfstími, sem útvarpsráð hefur, og ég held, a. m. k. veit ég ekki annað, að samkomulag sé um, að fjögurra ára tímabilið gildi eða muni gilda, án tillits til þess, hvernig Alþ. er skipað hverju sinni. Með þeim hugmyndum, sem koma fram í þessu frv., gengur ráðh. þvert á það, sem Alþ. einmitt hefur verið að móta. Hann gengur þvert á það, sem Alþ. hefur verið að móta, að gera stjórnartímabil þessara stofnana sem allra sjálfstæðast og láta það liggja ljóst fyrir, að héðan frá Alþ. séu kosnir menn til þess að stjórna stofnununum, en ekki sem einhverjir sérstakir fulltrúar stjórnmálaflokkanna.

Ég vildi vekja athygli sérstaklega á þessu hér og vekja athygli á því, sem mig grunaði, þegar ég sá þessa tillögu þeirra fjórmenninganna, hvað hér er á seyði. Og hæstv. ráðh. staðfesti hér áðan, að getgáta mín var rétt, það skipti ekki orðið lengur máli fyrir hann, hvort stjórnin var skipuð fimm mönnum kosnum af Alþingi eða sjö. Aðalatriði málsins og mergurinn málsins var og er sá, að hann er ekki reiðubúinn að leggja fram tillögu um, að annað fyrirkomulag verði á stjórnun þessarar stofnunar, hann talar um það, hann lætur í það skina. Mergurinn málsins er sá, að hann vill fá inn í stjórnina sérstakan þuklara, pólitískan þuklara frá sínum flokki og gegna svo, eins og ég sagði áðan, yfirþuklarastarfinu. Skiptir engu máli, hvort stjórnarmenn eru fimm eða sjö kosnir af Alþ., það er aukaatriði, hitt er aðalatriði, að hann og hans félagar fari ekki varhluta af því pólitíska þukli, sem hann, ráðherrann, heldur að þarna fari fram. Síðan ætlar hann, eins og ég sagði áðan, að gæta þess vel að hann verði yfirþuklari þeirra allra. Ég vonast nú samt sem áður til þess, að þegar ráðh. og hans flokksbræður og hans samstarfsmenn í ríkisstj. skoða þetta mál ofan í kjölinn, sjái þeir, að skynsamlegast í þessu máli sé að samþykkja þá brtt. við brtt., sem ég flyt hér ásamt tveimur öðrum hv. þm. Þá lítur dæmið þannig út, að það, sem skiptir máli í þessu frv., nær fram að ganga, þ. e. 2. gr. og 3. gr. með áorðnum breytingum. Þá gengur fram efni málsins, en formsatriði og allur vilji til þess að ná þuklurum verður að sitja á hakanum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða frv. frekar að þessu sinni, því að ég veit, að hér eru fleiri, sem vilja komast að, og mér skildist á forsetanum, að atkvgr. yrði þó aldrei fyrr en kl. 10 í fyrramálið, þannig að það er a. m. k. nokkuð góður tími enn, ef menn teldu ástæðu til þess að undirstrika og láta betur koma í ljós það, sem hér er raunverulega á ferðinni.