16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég sé það á nál. um þetta mál, að allir hafa orðið sammála og engin aths. gerð við frv. Ég hef oft veitt því eftirtekt, að það, sem óviturlegt er, fer í loftstökkum, þegar það, sem viturlegt er, fer hægaganginn. En vitleysan rekur sig á vegg, sem heitir raunveruleiki, því að það er ekki hægt að framkvæma vitleysu nema takmarkað.

Ég er ráðinn í að greiða atkv. á móti þessu frv., og þess vegna vildi ég gera með nokkrum orðum grein fyrir afstöðu minni. Ég var svo lánsamur, að ég var að rýja, þegar þessi stjórnarsáttmáli var samþykktur, svo að ég var ekki við. Ég mun hins vegar styðja þessa ríkisstj. af heilum hug til allra góðra hluta, en ég tel mig ekki bundinn af þeim vitleysum, sem eru í stjórnarsamningnum.

Þegar talað hefur verið um kaup og kjör, þá hefur því verið lýst yfir af leiðtogum hinna vinnandi stétta, og í rauninni lít ég svo á, að allar stéttir í landinu vinni, að helgur væri samningsrétturinn, til að gera verkföll og rétturinn til að semja um eigin laun. Að vissu leyti get ég gengið inn á þetta, en það er með allar deilur, að þær þurfa að eiga sín takmörk.

Fyrrv. stjórn féllst á það við opinbera starfsmenn, að þeir fengju samningsrétt. Kjaradómur fjallar um deiluatriði, en ríkið hættir að ákveða laun einhliða. Síðan þetta var gert, hafa opinberir starfsmenn alltaf verið að rífast, alltaf að deila um kaup og kjör. Þegar búið er að semja við þá í heild, þá fara þeir að rífast innbyrðis. Þessi deilugirni er í okkur mönnunum. Þeir fyrir austan tjaldið hafa séð við þessu, ríkið ákveður þar kaup og kjör, og ef menn fara að gera verkföll, þá er séð fyrir því á einhvern annan hátt og tekið fyrir slíkt ónæði við stjórnarvöldin.

Það eru tvær leiðir til, og deila má um, hvor sé betri. Það er, að ríkisvaldið ákveði kaup og kjör allra manna í landinu, ekkert frekar verkamanna en annarra, eða að það sé samið um kjörin. Skoðun mín er, að annaðhvort sé að hafa samningana frjálsa eða kjörin séu ákveðin af óhlutdrægum aðila. Vitanlega mætti hafa einhvern dómstól í þessum málum, sem hefði öll gögn í höndum og væri algjörlega óhlutdrægur eða ætti að vera það a.m.k., hliðstætt og hæstiréttur. Þarna eru tvær leiðir, og það má deila um hvor sé réttari. En ég held, að lakasta leiðin sé sú, að löggjafinn sé að grípa inn í á vissum sviðum, en að öðru leyti sé þetta óbundið.

Ég sé ekki tilgang með þessu frv. Það er þegar búið að semja um 37 klst. vinnutíma á viku, og þegar þetta frv. var lagt fram, þá var hinn raunverulegi vinnutími fyrir neðan 40 stundir á viku. En þeir, sem hafa staðið að þessu, hafa gert heldur litið að því að reikna út vinnuskýrslur og hafa þess vegna ekki verið nógu vei inni í þessu með vinnutímann. Það hlýtur að vera þannig.

Hér er verið að ákveða með lögum kjör fólksins, því að það er meira en að vinnutíminn sé ákveðinn, heldur er líka ákveðið, að heildarkaup skuli óbreytt þrátt fyrir styttri vinnutíma, og þar er gripið inn í launakjör. Annars verða menn að gera sér ljóst, þegar þeir eru að knýja þetta frv. fram, að ef hægt er að fækka vinnustundum með lögum og ákveða, að kaupið lækki ekki, sem þýðir kauphækkun, þá er alveg eins hægt fyrir löggjafann að fjölga vinnustundunum, án þess að kaupið hækki. Þarna er verið að fara inn á nýjar leiðir. Það er verið að gefa fordæmi. Ég er ofurlítið hissa á þeim, sem hafa álitið, að samningsrétturinn sé helgur, að óska eftir þessu.

Ég hef talað við ýmsa um þetta mál, og ég verð ekki var við áhuga hjá fólkinu fyrir því. Það er ósköp mannlegt og eðlilegt, að fólkið vilji hafa hærra kaup. Ég skil það vel, en ég held, að það væri betra fyrir fólkið að fá 10% hærra kaup og óbreyttan vinnutíma. Það var annað með togaralögin. Þar var um vinnuþrælkun að ræða, sem var hættuleg fyrir heilsu sjómanna. Með þeim lögum var lágmarkshvíldartími ákveðinn, en nú er aðeins dagvinnutími ákveðinn. Hér er einnig ákveðið, að kaffitíma megi eigi draga frá. Það skal teljast vinnutími. Það er þá alveg eins hægt að ákveða með lögum, að kaffitíma megi ekki telja með vinnutíma. Þarna er líka farið inn á hættulega leið fyrir þá menn, sem aðhyllast frjálsa samninga.

Ég skal viðurkenna, að í 2. gr. gætir skilnings á atvinnulífinu. Það má hagræða þessu dálítið, og satt að segja bjóst ég við þessu frv. enn þá vitlausara en það er.

Annars fer að verða skoplegt með þetta orlof. Það á að vera mánuður. Ýmis verk er eigi hægt að vinna nema vissa tíma ársins, og við getum tekið dæmi á landsbyggðinni, þar sem mikið er að gera við vélar og verkfæri um sumartímann, en aftur sama og ekkert yfir vetrartímann. Svo er fólk í fríum, þegar helzt þarf að vinna. Þetta er ákaflega óhentugt fyrir atvinnulífið. Það er vel, að menn fái frí, en það er óhagkvæmt, að menn taki það frí, þegar verst stendur á.

Svo er hér í 7. gr. dásamleg setning: „Víkja má frá lögum þessum með samningum, sem staðfestir eru af hlutaðeigandi heildarsamtökum.“ M.ö.o.: þarna á að vera opin leið til að semja, og þá sé ég ekki, hvað unnið er við að binda þetta í lögum, ef það má víkja frá því með frjálsum samningum. Það væri bezt að láta þetta vera eins og það hefur verið.

Fólk vill fá hærra kaup. En það telur ekkert eftir sér að vinna 40 stundir á viku, og ég hygg, að í framkvæmd skaði þetta fólk, sem vinnur t.d. við iðnað, því að ég er ekki víss um, að eftirvinna verði unnin. Við vinnslu sjávarafurða eru menn neyddir til að taka eftirvinnu og næturvinnu, þannig að ég hygg, að vinnutími fólksins verði óbreyttur þar. Ég skal játa, að ég hef oft verið hissa á vinnuveitendum, hvað þeir hafa verið tregir að bjóða beinat kauphækkanir. Ég held, að þeir hafi skaðað sjálfa sig á þessu. Þessar samninganefndir hafa setið þegjandi viku eftir viku, og vinnuveitendur hafa verið tregir til að bjóða nokkurn hlut. Ég hef aldrei séð eftir þessum beinu kauphækkunum, fólkið þarf þeirra með í flestum tilfellum. Ég held, að þeir hafi skaðað sig á þessu. Af þessu hefur leitt ýmsar hliðarráðstafanir, sem hafa orðið atvinnuvegunum enn óhagkvæmari en ef þeir greiddu dálítið hærra kaup. Árið 1964 er farið inn á launaskattinn. Hann var ákveðinn fyrst 1%, sem átti að ganga í byggingarsjóð, hjálpa fólki að byggja yfir sig. Annars hélt ég, að atvinnuvegunum á þeim tíma og næstu árin á eftir hefði ekki veitt af sínu, þótt þeir færu ekki að leggja fé í íbúðarhúsabyggingar, og ekki varð það til að treysta gengið að leggja þennan viðbótarskatt á, en þetta er einn af mörgum sköttum. Hann er nú kominn í 21/2%, og ætli hann eigi ekki eftir að hækka. Við síðustu samninga var farið inn á lífeyrissjóðina, og nú er lífeyrissjóður fyrir alla meðlimi í Alþýðusambandinu. Bændur þurftu endilega að fara að apa þetta eftir, héldu, að þetta væri svo mikið hagræði fyrir þá. Ég á eftir að taka það mál betur í gegn, ég hef ekki komið því í verk ennþá, en ég get fullyrt, að þetta er vitlausasta tryggingalöggjöf, sem til er í heiminum. Það er verið að hækka nú ýmsar tryggingabætur, og ég ætla að greiða atkvæði með þeim, því að það er skynsamlegt og sanngjarnt, en þegar kerfið er allt orðið tvöfalt og þrefalt, þá fer mér að ofbjóða. Ég hygg, að nú séu vinnulaun í landinu yfir 30 milljarða. Það eru nær allir komnir í þetta tryggingakerfi. Ég gæti hugsað, að í þessa lífeyrissjóði hjá öllum landsmönnum fari um 3 milljarðar á ári. Svo bætist allt hitt tryggingakerfið við. Nú er tryggingakerfinu hjá okkur svo dásamlega fyrir komið, að embættismenn, sem eru búnir að starfa fulla embættistíð, geta haft allt að 70% í eftirlaun gegnum hina verðtryggðu lífeyrissjóði, sem ríkið stendur að. Svo kemur ellilífeyririnn, en þá eru menn komnir á full laun. Eigi er öll sagan sögð með þessu, því að ýmsir hafa fleiri lífeyrissjóði, þannig að þeir verða fyrst vel launaðir og geta farið að græða, þegar þeir eru komnir yfir 67 ára aldur. Þetta tryggingakerfi er orðið svo fáránlegt, að það þekkist hvergi hliðstæða. Þetta er afleiðing þess að vera að gera þessa hliðarsamninga í staðinn fyrir að hækka kaupið, því þess þarf fólkið með. Ef við værum lausir við vinnutímastyttingu og lífeyrissjóðavitleysuna, væri hægt að borga launþegum 20% hærra kaup án þess að íþyngja atvinnuvegunum, og ætli það væri ekki hagkvæmara fyrir þá, því að þeir fá aldrei aftur fé sitt úr lífeyrissjóðunum?

Ég er búinn að fá tvær virðulegar stofnanir hér í bænum til að reikna þessar upphæðir út, sem bændur þurfa að borga. Ef það eru reiknaðir vextir og vaxtavextir, eru þetta um 20 millj. með 10% vöxtum og vaxtavöxtum, sem bóndinn á að leggja á borð með sér eftir 67 ára aldur.

Ég hygg, að þessi löggjöf verði frekar til að skaða launþega en að bæta kjör þeirra. Það er miklu hagkvæmara fyrir þá að fá 10% hærra kaup og vinna sama vinnutíma og þeir gerðu. Það má vera, að það sé of seint að breyta þeim samningum, ég skal ekki segja það, en það kemur ár á eftir þessu ári og dagur á eftir þessum degi. Svo heldur þetta áfram.

Nú er komið frv. fram hét í þinginu að fara athuga, hvað vinnutíminn sé hjá sjómönnum. Ég held, að það verði erfitt að reka þetta þjóðfélag, ef gerðar væru hliðstæðar ráðstafanir með sjómennina, þeir mættu ekki vinna nema 37 stundir á viku, þótt vel gæfi á sjó. Það hagar þannig til í landi okkar, að veðráttan er breytileg og dagamismunur mikill. Þess vegna verðum við að vinna vissa tíma mikið, en höfum aftur léttara aðra tíma. Ég hef aldrei álitið nema eðlilegt og sjáifsagt, að sjómennirnir tækju sér tveggja mánaða hvíld á ári, en það vilja þeir gera og eiga að gera, þegar erfiðast er að sækja sjóinn, en ekki þegar gæftirnar eru beztar, eins og t.d. í marz og apríl. Alveg eins er með bóndann. Þannig er það í landi okkar og þannig verður það. Þess vegna er vafasamt að vera að setja strangar reglur um, að það megi ekki vinna nema 37 stundir á viku, því að það sé einhver sérstök sæla fyrir menn að vinna lítið.

Það er búið að semja um 37 stunda og 5 mínútna vinnuviku, það gefur auga leið, að eigi þarf nema 4 daga til að vinna þessar 37 stundir, og þá hafa menn frí 3 daga vikunnar. Nú má vel vera, að sumir geti unnið fyrir sig heilbrigð og nauðsynleg störf, en það eru aðrir, sem ekki gera það, og þá eru þessir 3 dagar eyðslu- og leiðindadagar. Við vitum, að þegar sjómenn eru í landi iðjulausir, drekka þeir gjarnan vín og eyða launum sínum, en þegar gæftir eru góðar og mikið et að gera, þá liggur vel á sjómanninum, hann er heilbrigður á sái og líkama og aflar verðmæta, sem hann getur notað sér og fjölskyldu sinni til gagns. Það er ágætt að vinna ekki um of, en ég hygg þó, að hæfileg vinna sé ein af náðargjöfum forsjónarinnar, og ég óttast ekkert, þótt Íslendingar geri smávitleysur, og það er aukaatriði, en ef þjóðin hættir að vilja vinna, þá verð ég hræddur við það. Reynsla mín í lífinu er sú, að manni, sem nennir að vinna, má yfirleitt treysta, en manni, sem vinnur lítið eða ekkert er aldrei að treysta.

Ég held því, að það væri bezt fyrir alla, að þetta frv. fengi að daga uppi. Það hefur ekki gert gagn viðvíkjandi þessum samningum, sem gerðir hafa verið, frekar hið gagnstæða og ég held, að það væri því bezt að lofa því að daga uppí. Vafalaust finnst ríkisstj. það ekki samboðið virðingu sinni, og þetta verður samþ. Ég vona, að mér auðnist sá heiður að vera einn á móti þessu frv. Það hefur komið fyrir áður hér í þinginu, að ég hafi verið einn á móti því, sem hefur verið óviturlegt, og ég er ánægður með það. Ég vildi aðeins gera grein fyrir afstöðu minni. Ég var t.d. einn á móti þessari lífeyrissjóðavitleysu, og ég var einn á móti því hér í d., þegar átti að setja menn í tveggja ára fangelsi, ef þeir létu unglinga innan 18 ára gera handtak eftir kl. 5 að deginum eða sækja kýr á sunnudegi. Það átti að vera tveggja ára tugthús við því. Ég álit þetta óþarft frv. og óviturlegt og ætla þess vegna að greiða atkv. á móti því.