15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

Launa og kaupgjaldsmál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason lýsti því yfir, að íslenzk verkalýðshreyfing hefði aldrei orðið að þola aðra eins áþján eins og í tíð hæstv. fráfarandi ríkisstj. Hann ætti þá að kynna sér, hvernig málum yfirleitt hefur skilað fram, kaupum og kjörum í landinu til hagsbóta öllum, einnig vinnandi fólki. Ég hef ekki tíma til annars en örstuttrar aths., og það gefst vonandi tækifæri til þess síðar að eiga orðastað við Lúðvík Jósepsson um þessi mál í heild sinni. Ég hef ekki tíma til þess að elta ólar við allt það, sem hann setti hér fram. Ég er ýmsu vanur úr þeirri átt og kippi mér ekkert upp við það. En ég tók það fram í upphafi máls míns, að ég harmaði, að hv. 8. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, væri ekki staddur hér, en þó var ekkert í mínum ummælum með þeim hætti, að ég væri að nota tækifærið, þar sem hann var fjarverandi, til þess að fara með annað en það, sem hann hafði áður birt opinberlega, á opinberum vettvangi. Í viðtali, sem Þjóðviljinn á við Eðvarð Sigurðsson 26. sept. 1971, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í viðtali við Eðvarð Sigurðsson inntum við fyrst eftir því, hvort kröfur verkalýðsfélaganna væru ekki sniðnar eftir stjórnarsáttmálanum. Jú, það er rétt, segir Eðvarð, að við teljum þessar kröfur ekki fara út fyrir ramma stjórnarsáttmálans.“ Og síðar segir hann. Þjóðviljinn spyr: „Ef gengið yrði að öllum kröfum ykkar, Eðvarð, hver telur þú þá, að hækkunin yrði í prósentum? Um 37% hækkun, en hærra er vart hugsanlegt að reikna þetta.“ Kröfurnar eru settar fram og þær eru innan ramma stjórnarsáttmálans, eftir því sem hann metur þær, og við skulum vænta, að það sé rétt mat. Þá eru þær 37%.

Hæstv. forsrh. sér enga ástæðu til þess sérstaklega að leggja eyrun neitt við þessu. Hæstv. sjútvrh. fullyrti, að þetta væri alrangt, að vinnutímastyttingin, hin boðaða vinnutímastytting þýddi fyrir iðnað 14.2% og sjávarútveg eða fiskvinnsluna 14.8%. Þessu hefur verið haldið fram nú um alllanga hríð, að svo væri þetta, og ég hef hvergi séð á hinn bóginn, að þetta væri hrakið. Til þess ber auðvitað brýna nauðsyn fyrir verkalýðshreyfinguna að sýna fram á með ljósum rökum, að þetta sé ekki rétt, og ætti hæstv. sjútvrh. að lána verkalýðshreyfingunni þau rök. Rétt er það, verkalýðshreyfingin á rétt á því að fá sína hlutdeild úr bættum þjóðarhag. En þá vil ég spyrja, úr því að þessi ríkisstj. og hennar verk hafa orðið til þess eftir meiningu hæstv. sjútvrh. að greiða fyrir samningum, hvaða kauphækkanir eru það og kjarabætur, sem íslenzkir atvinnuvegir þola í dag?