15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

Launa og kaupgjaldsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja, að auðvitað kom í ljós, eins og við var að búast, að hv. 4. þm. Austf. gat ekki haft eftir Eðvarð Sigurðssyni þau ummæli, sem hann hafði hér í sinni fyrri ræðu. Þegar hann reynir að láta líta svo út sem Eðvarð Sigurðsson hafi sagt, að hér væri um 37% kauphækkun að ræða, þá sagði hann það ekki, heldur hitt, að þegar allt er lagt saman hjá þeim, sem eiga að fá mestar hækkanir á öllu þessu tímabili, þá verður ekki hægt að komast hærra en upp í 37%, en hv. 4. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, veit auðvitað alveg eins og Eðvarð Sigurðsson og við allir hinir hér, að þær kauphækkanir, sem þarna voru settar fram, þýddu mjög mismunandi fyrir hina einstöku aðila, fyrir þá, sem voru með allra lægstu kauptaxtana, þeir áttu að fá sérstakar aukahækkanir, en aðrir áttu að fá minna, og sumir gátu ekki fengið neitt út úr vinnutímastyttingunni. En það er eflaust rétt, að þegar það er lagt saman, sem sett er fram í kröfuformi fyrir þá, sem áttu að fá allra mest, þá var hægt að reikna þetta upp í 37%, en vitanlega er það alger fölsun á þessu að halda því fram, að hér hafi verið um 37% kauphækkun að ræða almennt séð. Svona vitanlega halda ekki á málum í þessum tilfellum aðrir en þeir, sem eru algerir talsmenn atvinnurekenda. Þeir hafa stundum leyft sér að gera þetta. Auðvitað munar þennan hv. þm. ekki heldur um að gera það, sem varla er kannske von á.