31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú hverjum og einum frjálst að hafa sína skoðun, og það er líka hverjum og einum frjálst að láta sjást hér í þingtíðindum, að það hafi þó verið einn lögfræðingur, sem var tilbúinn til þess að kveða upp þann dóm, að um lögbrot hafi verið að tefla af hálfu ríkisstj., um það atriði, sem ég ræddi um, að taka upp eða taka ekki upp samningaviðræður á fyrsta stigi. En um hitt, hvort um verulegar kauphækkanir hefði verið að ræða á hinum almenna vinnumarkaði, á auðvitað ríkisstj. mat á fyrsta stigi. Það er ekki endanlegt, það liggur undir úrskurði Kjaradóms og það þarf ekki að vera rétt, en til bráðabirgða hefur hún þetta úrskurðarvald alveg eins og hinn aðilinn hefur þetta líka, ef málin horfðu öðruvísi við og það væri um kauplækkanir að ræða, þá snerist dæmið við. Þá gæti ríkisstj. krafizt endurskoðunar, en opinberir starfsmenn gætu þá neitað endurskoðun, og það stæði á meðan úrskurður væri ekki felldur. En um það, hvort um lögbrot er að ræða eða ekki, þá vil ég bara benda þessum hv. þm. og lögfræðingi á það, að úr því er auðvelt að fá skorið, úr því hefði alltaf mátt fá skorið. Það er einmitt gert ráð fyrir því í þessum lögum, að það sé með einföldum hætti hægt að fá skorið úr því, hvort framið er brot á þessum lögum. Og um það segir í 25. gr.:

„Félagsdómur dæmir í málum, sem rísa milli samningsaðilja út af brotum á lögum þessum og ágreiningi um skilning á kjarasamningi og gildi hans.“

Sem sagt, ef þeir hefðu viljað halda því til streitu, að hér hefði verið framið lögbrot, brot á þessum lögum, þá var greið og auðveld leið að vísa þeim ágreiningi til félagsdóms. Og þá meðferð átti að hafa eftir lögum, og hún hefði sennilega verið betri heldur en öll þau stóryrði, sem um þetta hafa verið höfð, og þá hefði fengizt hlutlaus niðurstaða dómstóls um það, hvort hér hefði verið lögbrot framið eða ekki. Og væntanlega mundi hv. síðasti ræðumaður sætta sig við úrskurð þess dómstóls.