31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

Launa og kaupgjaldsmál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum forseta um það að lengja ekki þessar umr. að óþörfu. Nú um alllanga hríð hefur þjóðin mátt horfa á ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, sem svo kallar sig, í hörkuáflogum við einn virðulegasta hópinn, starfsmenn ríkis og bæja. Það verður að segjast eins og er, að mér finnst þessi framkoma ríkisstj. með nokkrum ólíkindum og nánast að segja endemisleg. Það er vægt að orði komizt og með góðum vilja sagt, að það sé klaufaskapur eða fljótfærni. En þar á ég við neitun ríkisstj. á viðræðum við BSRB. Alveg óþarfa fljótfærni. Og ég ætla að benda á, að það er alveg haldlaust, sem hæstv. forsrh. heldur fram, að þeir, með því að fallast á viðræður, væru þar með að fallast á einhvern sérstakan rétt til handa opinberum starfsmönnum um kauphækkun. Ég vil benda á, að hann sjálfur viðurkennir og lýsir yfir því, að í ýmsum atriðum hafi þeim staðið til boða lagfæringar. Það var a. m. k. umræðugrundvöllur, þó að ekki væri annað. Ríkisstj. gat tekið það fram, þegar hún hóf viðræðurnar, og sett fram það, sem hún telur nú, að standi til boða þessum samtökum til lagfæringar, þannig að þá þegar skapaðist viðræðugrundvöllur. En hún hefur, ríkisstj., með framkomu sinni alveg greinilega stefnt þessu máli öllu í hin mestu vandræði, að ekki sé meira sagt. Ég tek enga afstöðu til þess, hvort hér er um lagabrot að tefla eða ekki. En í meira lagi er það þó hæpið fyrir hæstv. ríkisstj. að halda því fram, að þær kauphækkanir, sem urðu á almenna vinnumarkaðinum hinn 4. des. s. l., hafi ekki verið verulegar. Ég efast um, enda þótt þeir, sem í forustu í verkalýðssamtökum standa að jafnaði, verði kallaðir vanþakklátir menn, þá efast ég um, að í þeirra hópi finnist nokkur maður, sem í alvöru mundi vilja halda því fram, að þar hafi ekki um verulegar kauphækkanir verið að tefla. En það leggur hver sitt mat á það. Ég tek enga efnislega afstöðu til krafna opinberra starfsmanna, en ég vil láta þess getið og taka það sérstaklega fram, að ég álít, að ríkisstj. á hverjum tíma eigi vitanlega að leggja sitt af mörkum til þess, að um óeðlilegar víxlhækkanir milli stétta verði ekki að tefla. Við höfum oft séð, að þetta hefur orðið mjög til þess að auka spennuna að óþörfu; víxlhækkanir kaupgjalds og kjara almennt, og því á að reyna að afstýra, að þær verði óeðlilegar. Þetta tel ég hiklaust vera verkefni ríkisstj. á hverjum tíma að hafa þar áhrif á.

Forsrh. lét þess getið, að hann felldi sig ekki við það, að stéttir, eins og í þessu tilfelli BSRB, tækju til sín eða fengju án fyrirhafnar ávöxt, sem aðrar stéttir hefðu aflað eftir harða og stranga og kostnaðarsama baráttu. Ég vil benda hæstv. forsrh. á, og þetta veit hann auðvitað miklu betur en ég, að auðvitað fellir hann sig við það, þar sem þetta er í lögum. Það er í lögum, að opinberir starfsmenn skuli fá leiðréttingu sinna kjara í beinni viðmiðun við það, sem á sér stað á hinum frjálsa vinnumarkaði, þannig að hann verður að fella sig við þetta, þar til hann hefur þá komið fram lögum, sem kveða á um annað.

En hann nefndi eina ástæðu, sem ég er ekki fjarri því að álíta, að e. t. v. hefði verið fullboðleg, ef hún er ein út af fyrir sig nægjanleg. Ástæðan er sú, að fram er tekið, að tekið skuli tillit til afkomu þjóðarbúsins, og þá hefði verið nær að halda sig við það. Ég er ekkert fjarri því, að svo sé komið undir hans stjórn, hæstv. forsrh., að afkoma þjóðarbúsins leyfi þetta ekki. Það mætti vel segja mér það, að svo væri komið. En það er þá a. m. k. ekki vegna þess, að mati stjórnarinnar, að verulegar kauphækkanir í þjóðfélaginu hafi orsakað þær þrengingar, sem kunna að vera í þjóðarbúinu.