14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

Launa og kaupgjaldsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv., form. Alþfl., er einkar laginn við það að koma hér fram á Alþ. og fullyrða, að einn ráðh. segi þetta og annar hitt, þó heldur lítið verði úr skýringum hans, þegar hann stendur svo frammi fyrir því að eiga að reyna að finna þessum orðum sínum stað. Þetta er nú í annað skipti á skömmum tíma, sem þessi hv. þm. kemur fram með fullyrðingar af þessu tagi hér. Það er því full ástæða til þess að rifja upp, hvað hefur raunverulega gerzt í þessu máli, sem réttlæti þá fullyrðingu, að ríkisstj. hafi neitað að ræða við opinbera starfsmenn um launakjör þeirra og einn ráðh. hafi sagt þetta og annar hitt í þessum efnum. Hvað gerðist í málinu? Veit hv. þm. það? Það, sem gerðist, var það, að opinberir starfsmenn sendu ríkisstj. bréf, þar sem þeir kröfðust þess, að endurskoðun færi fram á launa- og kjarasamningi þeirra við ríkið á grundvelli tiltekinnar greinar í þeim lögum, sem fjalla um þessi mál, þar sem um hefði verið að ræða almennar og verulegar kauphækkanir. Þetta var krafa opinberra starfsmanna. Ríkisstj. svaraði þessari kröfu og sagði, að hún teldi ekki vera grundvöll til þessarar almennu endurskoðunar vegna þeirra kjarasamninga, sem til hafði verið vitnað í bréfi þeirra. Þetta var svar ríkisstj. Er þetta sama eins og hv. þm. segir hér, að ríkisstj. hafi neitað að ræða við þá? Á þetta benti ég m. a. á þeim almenna borgarafundi, sem opinberir starfsmenn héldu, og sagði, að ég hefði aldrei neitað að ræða við þá og væri tilbúinn að ræða við þá hvenær sem væri og ég vissi, að eins væri ástatt með aðra ráðh. En það er rétt, forsvarsmenn opinberra starfsmanna gripu strax til þess ráðs að túlka þetta svar ríkisstj. þannig, að ríkisstj. vildi ekki ræða við þá, sem vitanlega var rangt. Og þó að ég gæfi m. a. þessa yfirlýsingu á þessum almenna borgarafundi, þá hefur enginn af fulltrúum opinberra starfsmanna leitað eftir viðræðum við mig um málið. En þeir hafa hins vegar farið á mjög marga fundi og haldið áfram að gera sínar samþykktir á þá lund, sem þeir höfðu gert áður.

Það er ekkert um það að villast, að ríkisstj. hefur ekki neitað að ræða við opinbera starfsmenn og nú um alllangan tíma hafa beinlínis formlegar samningaviðræður átt sér stað fyrir milligöngu sáttasemjara. Og ríkisstj. býður enn upp á það að halda uppi samningaviðræðum við fulltrúa opinberra starfsmanna fyrir Kjaradómi, ef mögulegt reynist að ná samkomulagi um lausn á málinu. En viðræður um almenna endurskoðun, þar sem ríkisstj. hefur greinilega lýst yfir því, að hún telji, að hin almenna endurskoðun hafi ekki verið rökstudd, slíkar viðræður eiga vitanlega engan rétt á sér. En ríkisstj. hefur ekki neitað að ræða við opinbera starfsmenn um launadeilumálið.

Ég sagði á hinum almenna borgarafundi, sem opinberir starfsmenn héldu, að ég teldi allverulegan hluta af þessari deilu í rauninni óþarfan og tilefnislausan og af því vonaði ég, að menn reyndu að leggja sig fram um að ná sáttum í deilunni. Þetta sagði ég m. a. vegna þess, eins og kom fram á þeim fundi, að það hafði greinilega komið fram hjá opinberum starfsmönnum á þessum fundi og m. a. í sérstökum skjölum, sem þeir útbýttu á fundinum, að þeir væru að berjast við að fá ríkisstj. til þess að samþykkja launahækkanir til þeirra opinberra starfsmanna, sem ynnu við sambærileg störf og þeir ynnu við, sem samið var við í des. á vegum Alþýðusambands Íslands. Í einu af þeim skjölum, sem lágu fyrir þessum fundi, sagði m. a. orðrétt á þessa leið um þetta atriði:

„Enn er nú vegið í sama knérunn. Þegar flestir vinnuveitendur í landinu semja við launþega um 14–18% launahækkun á þessu og næsta ári og það að frumkvæði ríkisstj., þá neitar hún sambærilegum starfsmönnum sínum um launasamræmingu, enda þótt skýr lagaákvæði heimili slíka endurskoðun samninga þegar í stað.“

Á þessum fundi sagði ég, eins og ríkisstj. hafði sagt áður við fulltrúa opinberra starfsmanna, að það lægi fyrir, að ríkisstj. byði fram launahækkun til þeirra opinberra starfsmanna, sem ynnu að sambærilegum störfum við þá, sem samið var við á vegum Alþýðusambandsins í des., þannig að laun opinberra starfsmanna yrðu jafnhá og hinna, sem þá var samið við. Þetta hefur ríkisstj. boðið og margendurtekið. Og það gerði ég m. a. á þessum fundi. En þetta hefur ekki verið nægilegt, vegna þess að það er greinilega um einn ágreining að ræða á milli ríkisstj. annars vegar og forustumanna BSRB hins vegar. Hann er sá, að ríkisstj. telur ekki vera ástæðu til þess, að þær launabreytingar, sem samið var um í des. við ASÍ-félögin, eigi að ganga almennt yfir launastiga opinberra starfsmanna, en, þeir álíta, að svo eigi að vera. Þar er um ágreining að ræða. En í tilefni af því, sem hér hefur komið fram, vil ég leyfa mér að leggja spurningu fyrir hv. 7. þm. Reykv., form. Alþfl., og hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen. Vilja þeir fallast á þessa kröfu opinberra starfsmanna um það, að sú launahækkun, sem um var samið í samningunum við ASÍ-félögin í des., gangi almennt yfir launastiga opinberra starfsmanna? Vilja þeir fallast á það? Er það þeirra skoðun? Ég óska eftir alveg skýru svari og engum undanbrögðum. Það er býsna fróðlegt, að fá að vita, hver þeirra afstaða er í þessum efnum. En hitt er rétt að undirstrika enn einu sinni, að ekki hefur verið um það að ræða, að ríkisstj. færðist undan á neinn hátt að fallast á þær launahækkanir til opinberra starfsmanna, þannig að laun sambærilegra aðila hjá ríkinu væru jafnhá og um var samið í samningunum við Alþýðusamband Íslands.

Hitt er svo auðvitað alkunna, að þeir í stjórnarandstöðunni grípa hér til alls og einnig af þessu tagi, sem hér hefur verið til umr. (Gripið fram í.) Ja, ekki veit ég nú um það, en hv. þm. veit kannske eitthvað um það. En alveg augljóst er, að þeir grípa til allra hluta, til þess að reyna að afflytja ríkisstj. og þar draga þeir ekkert af sér. En það væri býsna fróðlegt að fá að vita, hver afstaða þeirra er til kjarna málsins.