14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

Launa og kaupgjaldsmál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að lengja þessar umr. mikið, því að nú er orðin mikil deila um keisarans skegg hér. Ég vil bara vekja athygli á því, að túlkun á máli getur haft mikið að segja. Og það kom greinilega fram hjá hv. 5. þm. Reykv., þegar hann sagði, að um hliðstæðu hefði verið að ræða, þegar lögin um framlengingu á frestum vegna samninga við opinbera starfsmenn voru hér afgreidd 1970 eins og nú. Þótt í forsendu fyrir þeirri lagasetningu segi, með leyfi hæstv. forseta, eins og ég vitnaði hér til áðan:

„Þar sem samkomulag hefur þegar orðið um nokkur höfuðatriði í væntanlegum kjarasamningi, standa vonir til að samningar takist, en tími mun ekki vinnast til að ljúka samningaviðræðunum fyrir 1. nóv. n. k.“

Og svo segir hv. 5. þm. Reykv., að hér sé um nákvæmlega hliðstæðu að ræða. Það var ekki um neinar hliðstæður að ræða, því að það hafði ekkert gengið í þessum samningum og óskin ekki fram borin fyrr en á síðustu stundu, eins og hér hefur verið lýst. Ég vil líka undirstrika það vegna þeirrar túlkunar, sem hv. þm. hafa viljað hafa hér, bæði 5. og 7. þm. Reykv. um, að ákvörðun ríkisstj. um að neita viðræðum, það var réttilega undirstrikað hér áðan, m. a. af hæstv. viðskrh., að fram kom í svari ríkisstj., að ekki væri að hennar mati ástæða til að endurskoða kjarasamningana. Þetta er það, sem kom fram í fyrsta svari ríkisstj., og ég hef talið, að hún hafi getað haft sínar skoðanir á því, eins og hinir aðilarnir, að óska eftir endurskoðuninni. Hv. þm. geta svo túlkað þetta eftir sínum vilja og t. d. vil ég vitna til þess í sambandi við þessar umr. um það, að við höfum ekki viljað tala við opinbera starfsmenn, að formaður BSRB sagði frá því í setningarræðu sinni á aukafundinum, að hann hefði átt við mig nokkrar umr. um þetta mál. Við höfðum rætt þetta mál, en það, sem var mergur málsins, var, að það náði ekki saman. BSRB vildi ekki ganga að því, sem ríkisstj. bauð, að leiðrétta kjarasamninga ríkisstarfsmanna í samræmi við samninga ASÍ. Það vildi ríkisstj. gera og hefur boðið, með því að greiða þeim lægst launuðu eins og samið var um og með því að breyta aldurshækkunum þannig, að þeir, sem ekki hafa notið þeirra, gátu náð sambærilegum kjörum í gegnum þá breytingu. Hins vegar var það aldrei ætlun ríkisstj. að fara að sprengja kjarasamninga þá, sem var verið að gera, eins og átti sér stað einmitt á þessum tíma og áður en krafan um endurskoðunina á þessum kjarasamningum var komin fram, áður en t. d. verzlunarmenn voru búnir að ganga frá sínum kjaramálum, sem þeir létu fara í dóm, svo að ég hygg, að þeir hafi á vissan hátt miðað einmitt við ríkisstarfsmennina í þeirri afgreiðslu. Þess vegna er hér um það að ræða, það er fyrst og fremst túlkun á þessu, og það þýðir ekkert fyrir hv. 7. þm. Reykv. að segja: semja, semja. Menn verða að vita, um hvað þeir ætla að semja, og það verða að vera forsendur fyrir þeim samningum. Og það er það, sem hefur brostið. Eins og kom hér fram hjá hæstv. forsrh., þá hafa okkar svör verið miðuð við fyrstu 4%, og ekki hefur verið forsenda fyrir því að semja um það gegnum launastiga opinberra starfsmanna. Það hefur komið fram hjá mér, m. a. í blaðaviðtali, að kjarasamningarnir, sem voru gerðir í fyrra, fóru verulega fram úr því, sem reiknað var með. Og meðalprósentan í þeim kjarasamningum var verulega hærri en reiknað var með, þegar samningarnir voru gerðir, og það sýndi sig, að þegar var farið að gera þennan samanburð, þá var þannig komið, að þeir í lægstu launaflokkunum m. a. höfðu hliðstæður, þegar aldurshækkunum var sleppt. Þess vegna skorti forsendur fyrir því samkomulagi, sem hv. þm. eru hér að ræða um. Hitt er svo annað mál, að ríkisstj. hefur boðið, og hennar boð stendur, að leiðrétta laun þeirra lægst launuðu, svo að þau verði sambærileg við það, sem um var samið í samningunum í des. Og þessi orðaleikur, sem hér er hafður í frammi, breytir í engu niðurstöðu málsins nema þá á þann veg að reyna að koma í veg fyrir, að samkomulag geti orðið.