14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

Launa og kaupgjaldsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um aðeins eitt atriði. Ég tel það mikinn barnaskap af hálfu hæstv. ráðh. að beina spurningum um það til einstakra þm., hvernig þeir vildu leysa slíka launadeilu sem hér er um að ræða í einstökum atriðum. Ég vildi aðeins benda á, að ef því hefði verið beint í nóv. s. l. hér á Alþ. í fsp. til ríkisstj. eða einstakra ráðh., hvernig þeir vildu leysa þá miklu vinnudeilu, sem þá var uppi, þá hefðu svör þeirra auðvitað orðið þannig, að verið væri að semja um lausn deilunnar og þeir vildu að sjálfsögðu ekki blanda sér í það, hvernig sú lausn yrði, og sæju enga ástæðu til þess að lýsa yfir ákveðinni skoðun á því, hvernig heildarlausnin skyldi verða, meðan verið væri að semja. Og ég tel þessa afstöðu, sem ég er viss um, að hefði orðið svona, vera skynsamlega og þá einu, sem ríkisstj. hefði getað haft á því stigi málsins. Og svipað gildir auðvitað um einstaka þm. í þessari deilu, sem hér er á ferðinni. En hins vegar, fyrst eftir því er leitað, hika ég ekki við að segja, að ég tel meginkröfur opinberra starfsmanna vera réttmætar. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þeir ætlist til þess, að bókstaflega hvert einasta atriði kröfugerðar þeirra verði tekið til greina. Einmitt þess vegna voru viðræður nauðsynlegar, og enn legg ég áherzlu á, að samið verði við þá, og það er enn hægt.