29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

50. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég átti þess kost við 1. umr. þessa máls að koma flestu því á framfæri, sem ég taldi þá nauðsynlegt. Þrátt fyrir þau orð, sem ég lét þar falla, tel ég þörf á að fara nú nokkru frekari orðum um málið.

Við 1. umr. málsins var það viðurkennt af hæstv. trmrh., svo sem flestir, sem vilja, vita og gátu séð, að aðeins ein breyt. felst í þessu frv. frá þeim lögum, sem samþ. voru í tíð fyrrv. ríkisstj., hinn 6. apríl s. l. Af þeim ástæðum einum er óþarft að endurtaka fylgi mitt og flokksbræðra minna við þetta frv. sem slíkt, enda vorum við þá flm. að því sem aðilar að þáv. ríkisstj. Sú breyting ein felst í þessu frv., að gildistöku þeirra laga var flýtt um 5 mánuði eða frá 1. jan. 1972 fram til 1. ágúst 1971. Þetta eitt er innihald frv. Það skal fúslega viðurkennt, að þetta er til mikilla bóta fyrir alla þá, sem tryggingabóta njóta. Þá kemur að margendurtekinni spurningu málsvara núv. stjórnarflokka við 1. umr. málsins í fyrra, en þó sérstaklega var hún borin fram fyrir tvennar síðustu almennar kosningar í landinu, bæjarstjórnarkosningar 1970 og svo við alþingiskosningar s. l. vor: Hvers vegna hækkið þið ekki þær smánarbætur trygginganna, sem nú eru í gildi? — Og eftir fylgdu svo hjartnæmar aths. og samanburður við aðrar þjóðir, sér í lagi Norðurlandaþjóðirnar, á þeim smánarbótum, sem taldar voru felast í því frv. frá fyrrv. ríkisstj., sem þeir nú eru sjálfir að staðfesta, frv., sem hún lagði fram í byrjun þessa árs og lagt var hér fram á hv. Alþ. 18. marz s. l., og svo sem fyrr er sagt samþ. einróma sem lög frá Alþ. 6. apríl eða rúmlega þrem vikum síðar. Frv. þetta var niðurstaða vandlegrar athugunar n., sem skipuð var úrvalsfólki og vann verk sitt með mikilli prýði. Bótaupphæðir frv. og gildistökuákvæði voru hins vegar ákvörðun þáv. ríkisstj. og við það miðaðar, að hægt væri að standa við þær í raun og sannleika og þá fyrst og fremst af hálfu ríkisins og bæjarfélaga, en hækkanir laganna voru ætlaðar um 500 millj. kr., þegar þau kæmu að fullu til framkvæmda á liðnu ári.

Þegar umrædd endurskoðunarnefnd skilaði áliti 5. marz 1971 og ríkisstj. tók ákvarðanir um flutning frv., varð að sjálfsögðu að áætla tekjur ríkisins á þessu ári. Svo sem auðsætt má vera var ekki um aðra viðmiðun að ræða varðandi fjárhagsgetu ríkissjóðs en árið 1970, þ. e. árið á undan og það, sem þá var liðið af þessu ári, er var aðeins um 2½ mánuður. Eðlilega höfðu velflest bæjar- og sveitarfélög, svo sem fyrr er komið fram í umræðunum, þá nýverið gert sínar fjárhagsáætlanir fyrir allt árið 1971, án þess að gera ráð fyrir hækkunum á framlögum sínum til Tryggingastofnunarinnar. Þá var og í gildi verðstöðvun, þannig að ekki var unnt að leyfa atvinnurekendum að velta sínum hluta út í verðlagið. Þannig var taflstaðan, þegar ákveðinn var af fyrrv. ríkisstj. flutningur frv. um endurbætur tryggingalaga. Með hliðsjón af þessum staðreyndum var gildistaka laganna ákveðin 1. jan. 1972.

En setjum nú svo, að þáv. stjórn hefði ákveðið gildistöku laganna t. d. 1. maí eða 1. júní. Þá hefðu núv. stjórnarliðar sagt, að það væri kosningahræðsla, atkvæðaveiðar og svikizt væri þá fyrst og fremst aftan að bæjar- og sveitarfélögunum og reyndar öllum þeim öðrum gjaldendum, sem greiða eiga til trygginganna, almenningi og atvinnurekendum. En þingkosningar fóru fram 13. júní s. l. eða u. þ. b. 1½ mánuði frá fyrri dagsetningu og ½ mánuði eftir þá síðari, sem ég nefndi, og þessum yfirlýsingum hefði samkv. reynslu fylgt sú yfirlýsing, að svíkja ætti þetta allt saman, öll þessi loforð, eftir kosningar, ef þáv. stjórnarflokkar fengju meiri hl. Af hálfu ríkisins hefði ekki verið á einn eða annan hátt séð fyrir framlagi ríkisins með neinu öryggi, og því um hreinar ágizkanir í þeim efnum að ræða, eins og á stóð. Þannig hefði að mínu viti, samkv. minni reynslu af hv. fyrrv. stjórnarandstæðingum, sem skipa núv. stjórnarlið hér á þingi, þotið í þeirra skjá, og þá væri í þessu efni, eins og ég sagði, einungis dæmt samkv. fenginni reynslu.

Ekkert af þessum hugrenningum hafði þó áhrif á ákvarðanir fyrrv. ríkisstj. Hægur stígandi var hins vegar í velgengnisátt í efnahagsmálum þjóðarinnar, m. a. vegna ráðstafana, er gerðar höfðu verið af hálfu fyrrv. ríkisstj., og rökstyðja hefði mátt með reynslu undangenginna mánaða, að við öll ákvæði laganna mætti standa að fullu án allra vafa. Það skal hins vegar játað, að í marzmánuði í fyrravetur sá hvorki þáv. ríkisstj. né aðrir, þótt útlit væri fyrir bata, að tekjur ríkisins, afurðaverð okkar á erlendum mörkuðum og fiskafli tæki slíkt stökk fram á við, sem var hins vegar orðin staðreynd 14. júlí s. l., þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

Við umr. um margnefnt frv. þáv. ríkisstj. á s. l. vetri, sem hér er flutt með þeirri undantekningu einni, sem ég hef gert grein fyrir, fluttu þáv. stjórnarandstæðingar, núv. stjórnarliðar, allmargar hækkunartill., er þeir töldu þá algert lágmark, að samþykktar væru. Voru þessar brtt. þeirra þá um 40 talsins og þýddu nokkur hundruð millj. kr., svo að ekki sé meira sagt, í útgjöldum fyrir þá aðila, sem til trygginganna greiða, án þess að með nokkrum hætti væri séð fyrir því að skapa tekjur á móti. Nú skyldi maður ætla, þegar þessir sömu aðilar hafa tekið við völdum, ekki hvað sízt þegar allt gengur — guði sé lof — í haginn fyrir þjóðina alla til lands og sjávar, að þessar till. sæju dagsins ljós í frv. ríkisstj., m. ö. o. að smánarbæturnar, sem þeir nefndu svo í fyrravetur, yrðu nú gerðar mannsæmandi. Þá bregður hins vegar svo við, að þær fyrirfinnast ekki. Ekki er breytt einu einasta atriði öðru en því, að í stað orðanna 1. jan. 1972 kemur 1. ágúst 1971. Allt annað og þ. á m. bótaupphæðin er óbreytt frá lögum fyrri ríkisstj. Þarna eru efndir allra loforðanna, eftir að vera búnir að eyða svo úr öllum sjóðum þess opinbera á rúmlega fjögurra mánaða ferli sínum, að fjmrh. kemur nú jafnvel klökkur fyrir Alþ. með beiðni um að fá nýtt 200 millj. kr. spariskírteinalán og það strax fyrir áramót. Þegar svo stjórnarliðar eru nú inntir eftir efndum á stóru orðunum fyrir kosningar s. l. vor, eru svörin þessi, og þau komu fram í framsöguræðu hér áðan: Tryggingalöggjöfin er í n. til endurskoðunar, og loforðin um hækkun er að finna prentuð í málefnasamningi ríkisstj. — Þetta réttir stjórnarliðið nú að öllum þeim, er rétt eiga á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins, eftir þá eindæma árgæzku, sem gengið hefur yfir landið, en því miður er valt að treysta, að verði til frambúðar samkv. reynslu undanfarinna ára og áratuga.

Ef fara ætti að dæmi núv. stjórnarþm. frá s. l. vetri, er þeir voru í stjórnarandstöðu, og afla sér skyndifylgis, þá ættu núv. stjórnarandstæðingar, sem þá skipuðu stjórnarlið, að flytja yfirboðstill. þeirra eða endurprenta þeirra eigin till. frá s. l. vetri og rökstyðja þær með því, að ríkið hafi nú tekið á sig allar greiðslur til trygginganna og þá hljóti að vera hægt að stórauka bætur frá því, sem var í fyrravetur ákveðið með hliðsjón af þáverandi aðatæðum, og auka þar með allar bætur laganna. Ég held, að engum þm. í stjórnarandstöðunni nú komi þó slíkt til hugar þrátt fyrir kosningafeng núv. ríkisstjórnarliðs, m. a. út á slík vinnubrögð á s. l. vetri. Mat stjórnarandstæðinga nú á stöðu ríkissjóðs er það ábyrgt, að þegar búið er að ausa út til þarfra og óþarfra hluta öllum ófyrirséðum ágóða ríkisins af út- og innflutningi þessa árs og þá beðið um aukin lán til að standa undir kostnaði hveitibrauðsdaga ríkisstj., þá verður vart á bætandi nýjum gjöldum á allan almenning og þ. á m. sjálft fólkið, sem bótanna á að njóta og sannarlega hefur þörf fyrir mun hærri bætur en það fær nú, þótt ekki væri fyrir annað en ört vaxandi verðbólgu. Ríkisstj. bregzt því skyldu sinni nú að standa við gefin loforð frá s. l. vetri. Ef hún stæði við þau loforð, væri hún aðeins að rétta því fólki, er bótanna nýtur, réttlátan hlut í þessa árs auknum tekjum ríkisins.

Eftir hveitibrauðsdaga hvers hjónabands kemur alvara lífsins. Það pólitíska hjónaband. sem hér var myndað með tilkomu núv. ríkisstj., þarf sjálfsagt einnig að mæta sinni alvöru. Hveitibrauðsdögunum er lokið, en hvort hjónabandið endist allt til dauðans, verður reynslan að skera úr um.