21.10.1971
Sameinað þing: 5. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

1. mál, fjárlög 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e„ Magnúsar Jónssonar, vil ég segja þetta. Það er misskilningur hjá þessum hv. þm., ef hann heldur það, að ég líti öðru vísi á ríkisfjármálin og efnahagsmálin nú heldur en ég hef áður gert. Ég hef haldið því fram í sambandi við umr. um fjárlög hér á hv. Alþ. undanfarin ár og ég held því fram enn þá, að það sé verðbólgan, sem setur svip sinn á afgreiðslu fjárlaga, og hún setur svip sinn á þetta fjárlagafrv. Ég tók það fram í minni framsöguræðu, en þeir hv. þm. Magnús Jónsson og Jón Árm. Héðinsson munu hafa samið sínar ræður áður og ekki reiknað með, að ég mundi tala svo nú. Og ég skal taka eitt gott dæmi, sem tekur af öll tvímæli um það, hvernig verðbólgustefna fyrrv. ríkisstj. hefur ráðið ríkjum í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins, og það er það, þegar hv. þm. Magnús Jónsson talaði um góðærið og góða búið, sem núv. ríkisstj. hefði tekið við.

Það er rétt. Það er einstakt góðæri í landinu, einstakt góðæri. En það er sönnun fyrir verðbólgustefnunni, að þegar slíkt góðæri er, svo að gera má ráð fyrir með sæmilegu öryggi, að tekjur ríkissjóðs hækki í þriðja milljarð á milli ára, þá er ekki rúm fyrir eðlilegar framkvæmdir á fjárlagafrv., vegna þess að verðbólgan gleypir þetta í gegnum niðurgreiðslur, í gegnum launahækkanir og gegnum aukinn rekstrarkostnað, sem allur er tengdur verðbólgustefnu fyrrv. ríkisstj. Og það er ekki hægt að fá betra sönnunargagn heldur en það, sem hv. þm. Magnús Jónsson hélt fram um stefnu fyrrv. ríkisstj., þegar slíkt góðæri, sem nú er, getur ekki einu sinni haldið í við hana.

Hv. þm. Magnús Jónsson talaði um tillögur okkar í stjórnarandstöðunni á fyrri þingum í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Ég hef athugað það, sem ég reyndar mundi, hversu fyrirferðarmiklir við höfum verið í tillögugerð í sambandi við fjárlagaafgreiðslu undanfarin ár. Á þinginu í fyrra fluttum við við 2. umr. tillögur um hækkun útgjalda upp á 101 millj., og þá voru fjárlög samt á 12. milljarð. Og við 3. umr. frv. fluttum við aðeins eina tillögu, minni hl. í fjvn., og það var tillaga um að hækka námsaðstoðina við dreifbýlisunglingana úr 12 í 25 millj. kr. Við sömdum svo við þáv. menntmrh. um að þoka þessu upp í 15. millj. kr., en höfum nú þegar sett það í 25 millj. strax og við höfðum áhrif til og erum að vinna að því að athuga málið betur, og það er gert hjá hæstv. menntmrh. nú og verður athugað, svo að við gerum okkur grein fyrir því á þessu þingi, hvað raunverulega þarf til að jafna þessa aðstöðu.

Hv. 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, talaði um það, að þetta fjárlagafrv. væri nú þannig, að það væri mikið los í því og þyrfti mörgu að breyta, ef vel ætti að fara. Skyldi það nú hafa komið fyrir áður hér á hv. Alþ.? Síðasta fjárlagafrv. hækkaði um tæpan milljarð í meðförum Alþ. En það er ekki nóg með það. Ef við lítum á þingsögu síðustu ára, þá hefur það verið svo, að þegar búið hefur verið að afgreiða fjárlagafrv., þá hefur verið tekið upp annað fjárlagafrv., og ég hef hér fyrir mér registur yfir það frá árunum 1965–1966. Þá var gefið út annað fjárlagafrv. árið 1966 vegna efnahagsmála, um 80 millj., á þinginu 1966–1967 upp á 230 millj., á þinginu 1967–1968 upp á einar 300–400 millj. og svo kom gengisfall um haustið. Á þinginu 1968–1969 eftir gengisfallið, sem kom árið 1968, komu eiginlega viðbótarfjárlög í hverjum einasta mánuði. Svo kom gengisfall um haustið og árið 1969 mun vera eina árið, sem engin viðbótarfjárlög hafa komið. Árið 1970 komu svo verðstöðvunarlögin með nýjum fjárlögum, því að þá voru teknir upp nýir skattar og nýjar ákvarðanir teknar í sambandi við fjárlögin. Og á árinu vegna fjárlaga 1971 gerist það svo, að þau eru afgreidd með þeim hætti, að það vantaði upp undir 900 millj. kr. á útgjaldaliði fjárlaga til þess að þeir væru í samræmi við raunveruleikann. Og svo talar hv. þm. um, að það sé los í þessu fjárlagafrv., það þurfi sennilega að breyta því eitthvað hér á hv. Alþ., því að það sé ekki séð fyrir öllu, þegar fjárlagafrv. er rétt lagt fram og þeir, sem að því unnu, höfðu tæpa tvo mánuði til þess að vinna málið. Þarf nú nokkurn að undra, þó að ekki sæi í botn. Auk þess er nú fjárlagafrv. með þeim hætti, að það er ætlazt til þess, að Alþ. hafi þar einhver áhrif.

Þá talaði hv. þm. um, að það hefðu nú verið ferðalög og risna mikil hjá núv. ríkisstj. Það var nú annað uppi hjá þeim, sem áður voru. Ekki ferðuðust þeir, ekki einu sinni menntmrh. En ég man eftir því, að árið 1968 var hér til meðferðar frv. um sparnað á útgjöldum ríkisins og eitt í sparnaðartillögunum var að lækka kostnað við risnu og ferðalög. Þetta var lækkað um 1–2 millj. En reyndin varð svo sú, að þegar ríkisreikningurinn kom, þá var risnan og ferðalögin hærri en upphaflega tillagan, þannig að það var meira, sem fór, heldur en sparnaðurinn, því að það var bætt nokkru við það, sem gert var ráð fyrir, þegar fjárlagafrv. var upphaflega á ferðinni.

Út yfir tók þó í ræðu hv. þm., þegar hann fór að tala um hækkun á launalið starfsfólksins í stjórnarráðinu. Engum átti þó að vera kunnugra en hæstv. fyrrv. fjmrh., að inn á launalið starfsfólksins í stjórnarráðinu, sem annarra ríkisstarfsmanna, vantaði árið 1968 það, sem samið var um í kjarasamningnum. Og þarf nokkurn að undra, þó að það sé hækkun frá árinu 1971, þegar ekki er tillit tekið til þeirrar hækkunar, sem varð með kjarasamningnum árið 1971 og árið 1972? Ég varð nú undrandi, þegar ég heyrði hv. þm. tala um slíkt, því að þar víssi hann nú betur en kom fram í þessari setningu.

Þá taldi hv. þm. Magnús Jónsson, að ég hefði gefið mörg fyrirheit um sparnað í ríkisrekstrinum. Ég tel mér hins vegar trú um það, að ég sé miklu aðgætnari en hann í fyrirheitum um sparnað í ríkisrekstrinum, því að þegar hann var í stjórnarandstöðu 1958 og ekki búinn að kynnast því að verða ráðh., þá sagði hann við þáv. fjmrh., Eystein Jónsson, að auðvitað mætti spara í ríkisrekstrinum, það þarf ekkert nema réttsýni og kjark til þess að koma sparnaði við. Ég held því hins vegar ekki fram, að það þurfi bara réttsýni og kjark. Það þarf miklu meira til. Það þarf skipuleg vinnubrögð og skipulega athugun á ríkiskerfinu, ef á að koma þessu í framkvæmd.

Þá var hv. þm. að tala um verklegar framkvæmdir, að ekki væri nóg ætlað til þeirra og það þyrfti nú meira til vegamála en orðin tóm, og rétt er nú það. Kunnugt er mér um það, að meira þarf en nokkur orð til þess að ná peningum, a.m.k. úr hans höndum úr ríkissjóði til vegamála, því að þegar við vorum í brasinu um að hækka skattana til vegagerðarinnar í fyrra, þá gekk ég í það með Ingólfi Jónssyni og Eysteinn Jónsson líka að reyna að knýja þáv. fjmrh. til að leggja meira fé í vegina, og okkur tókst nú eftir allt baslið að hafa út úr honum 5 millj. Það var söluskatturinn, sem hann hafði af hækkuninni á bensíninu vegna breytingar á skattinum, sem við vorum að gera, svo að mér er það ljóst, að það þarf meira en orðin tóm til þess að fylgja þessu eftir, og það verða engir vegir lagðir, nema fjármunir komi til. Þeir hafa nú ekki, fyrrv. stjórnarherrar, verið svo stórtækir í tillögum um verklegar framkvæmdir, þó að þeir hresstu upp á sálina í fyrra, því að kosningar voru fram undan. Ég hef gert athugun á því, hvað tillögur þeirra um framlög til verklegra framkvæmda hafa hækkað á milli ára frá fjárl. til frv., og 1969 var það 13% frá fjárl. 1968, 1970 var það 10%, 1971 var það 22% og þá komust þeir lengst, enda kosningar fram undan, og nú verður það 20%, svo að við erum í fyrstu lotunni að ná þangað, sem þeir voru í þeirri síðustu.

Þá var það, sem hv. þm. sagði um veðdeildina. Mér er það ljóst, að þessar 2.5 millj., sem voru á núv. fjárl. til veðdeildarinnar, eru ekki í frv. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í dag, að það mál verður tekið til sérstakrar athugunar, og ég treysti því nú, að það verði a.m.k. hægt að hressa upp á þessar 2.5 millj., sem þeir komu inn á fjárlög á sínu síðasta valdaári, — að svo langt verði nú hægt að ná. En fjármálum veðdeildar landbúnaðarins verður ekki bjargað með því, það þarf miklu meira tii. og það er stórmál, sem þarf að vinna að að leysa og verður reynt að vinna að, svo að einhver skikkanleg lausn fáist þar á.

Hv. þm. var hissa á því, að ég teldi, að það væri nokkurt mál. sem fjvn. Alþ. mundi vinna að. Ég hef alltaf lítið á störf hennar þannig og tel mig hafa kynnzt því, að hún hefur veruleg áhrif og á að hafa það og mun á þessu þingi sem öðrum vinna gott verk að því að ganga frá þeim fjárlögum, sem Alþ. mun síðar samþykkja.

Hann nefndi það, hv. þm. Magnús Jónsson, að þá vantaði teknamegin það, sem við ætti að éta. Ég gerði hins vegar grein fyrir því og það er gerð grein fyrir því í fjárlagafrv., að tekjustofnar ríkisins eru í sérstakri athugun og tekjuáætlun nú er alveg byggð á þeim sköttum og þar með þeirri vísitölu, skattvísitölu, sem er nú í gildi samkvæmt lögum, og eftir því er farið. En hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessum þáttum verði breytt, áður en fjárlagafrv. verður afgreitt.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, sagði, þá var það nú margt á svipuðum nótum og hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann sagði, að ég hefði sagt, að fjárlagafrv. væri spegill af þeirri efnahagsstefnu, sem ríkti, og ég endurtek það og þess vegna er það einmitt verðbólgan, sem enn þá er ráðandi aflið, og núv. ríkisstj. hefur því miður ekki tekizt að ráða niðurlögum hennar, enda væri það undarlegt, ef það hefði getzt á jafnstuttum tíma og þessi ríkisstj. hefur setið.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og legg til, að fjárlagafrv. verði visað til hv. fjvn. og umr. verði frestað. — Góða nótt.