07.03.1972
Neðri deild: 47. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Við höfum nú fengið áþreifanlega sönnun fyrir því, hve þm. hafa misjafnlega mikinn húmor. En til þess að ergja nú ekki hæstv. viðskrh., þá ætla ég að tala hérna um alvarleg mál. Annars verð ég að segja það, að mér fannst hann vera býsna skemmtilegur á einum stað í ræðunni, en vel að merkja, hann var þá að lesa upp till. hv. 7. þm. Reykv. En svo sagði hann að vísu einn brandara, þennan með þorskinn og ýsuna, sem við höfum náttúrlega aldrei heyrt áður.

Það voru hér sérstaklega tvö atriði í þessu frv., sem hér er til umr., sem ég vildi fara um nokkrum orðum, en áður en ég kem að því, þá langar mig að koma að nokkrum atriðum, sem hér hafa komið fram í máli manna í dag.

Það þykir orðið góð latína hjá stjórnarsinnum að byrja á tilvitnun í hinn margnefnda málefnasamning stjórnarflokkanna. Ég neita því ekki, að það er nú stundum býsna gott fyrir okkur líka, stjórnarandstæðinga, að lesa upp úr málefnasamningnum. Þetta gerði hv. 5. þm. Austf., frsm. meiri hl. fjhn., í dag. Hann hóf ræðu sína með því að vísa í málefnasamninginn og nefndi þar sérstaklega það, sem gert hefði verið í að endurskoða verkefnaskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég hafði nú grun um það, að þessi þm. væri ágætur húmoristi, og fékk náttúrlega staðfestingu á því þarna. Hvernig geta menn komið hér upp í ræðustól og lagt áherzlu á það, að þetta hafi verið eitt af atriðunum, sem hafi verið gert með þessum frv., að endurskoða verkefnaskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga? Þetta hefur ekki verið gert. Auðvitað er það viss einföldun á kerfinu, að sveitarsjóðir greiða nú ekki lengur viss útgjöld, sem ríkið tekur núna á sig. En þarna er bara um að ræða málaflokka, sem sveitarfélögin hafa ekkert ráðið yfir til þessa. Hv. þm. nefndi hér ýmsar tölur, sem sýna breytingarnar, sem orðið hafa á frv., frá því að það var fyrst lagt fram. Fjóra liði nefndi hann, sem verka til lækkunar frá því, sem var samkv. frv. Einn liður hækkaði, það voru eignarskattarnir. Þeir hækkuðu um 41 millj. kr. Það er allt í lagi að hækka þá. — Ég kem að því hérna nokkuð á eftir með fasteignaskattana, að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh. — Hv. þm. upplýsti, að samtals næmu lækkanir samkv. brtt. 146 millj. kr. miðað við innheimt gjöld, en 215 millj. kr. miðað við álögð. Nú fer að verða dálítið erfitt að átta sig á því, hverju maður á að trúa. Í Þjóðviljanum í dag er stór fyrirsögn á forsíðu um, að skattalækkunin nemi 450 millj. kr. Það var lesið hér upp úr grein eftir hæstv. viðskrh., þar sem hann nefndi rúmar 300 millj. kr. Mér sýnist nú, ef þetta er lagt saman, þá komi út 450 millj. kr., ef notaðir eru þarna báðir heilarnir, þessi sjálfvirki, sem nefndur var hér í dag, og reikniheili Háskólans, og þá má kannske finna botn í þessar 450 millj. kr. Enn er verið að tala um skattbyrðina. Og ég verð að segja það, að það er ekki hægt annað en dást að þeim stjórnarliðum, sem enn þá koma hér upp í ræðustól og skrifa í blöð sín um það, að skattar hækki bara alls ekki neitt og það sé ekki um aukna skattbyrði að ræða. En hvað er hér á seyði? Það er enn þá verið að miða við rangan grundvöll. Enn þá er haldið áfram á þeirri braut, það er búið að taka hækkanirnar inn í sjálfan samanburðargrundvöllinn. Enn þá er sleppt hækkun fasteignaskatta og eignarskatta úr dæminu, og auðvitað sýnir þetta ekki miklar hækkanir, þegar svona er farið að. Það er margbúið að benda á þetta, hvernig ríkisstj. fær það út, að hér sé ekki um neina aukningu skattbyrðar að ræða. Og enn er miðað við skattvísitölu 106.5.

Þetta kom fram, þegar hv. 5. þm. Austf. var að tala um jafnvægispunktana. Ég átti svolítið erfitt með að skilja það að vísu. En ég held, að hann hafi þó tekið það skýrt fram, að það væri reiknað með útsvari án álags og sleppt öllum fasteignasköttum.

Þegar hæstv. fjmrh. ræddi hér einnig um skattbyrðina, gat hann þess, að á s.l. ári, eða samkv. eldra kerfi, hefði skattprósentan getað farið upp í 57% fyrir utan nefskattana. Þetta má rétt vera, að skattprósenta gat farið upp í liðlega 57% miðað við eina toppálagningu, þegar ekki var tekið tillit til nokkurra frádráttarliða og þ. á m. ekki tekið tillit til greidds útsvars. En raunin varð hins vegar sú, þegar litið er á meðaltal yfir landið, að skattprósenta fór rétt yfir 50%. Í Reykjavík fór hún rétt yfir 49%, þar sem veittur var 6% afsláttur frá útsvarsstiga. Núna fer skattprósentan upp í 54% og þó öllu líklegra, að hún fari upp í 55%, vegna þess að fjölmörg sveitarfélög og sérstaklega þau fjölmennustu hljóta að verða að leggja á með álagi og fara upp í 11%. Þá kom fjmrh. að því, að það væri deilt á það, hversu lengi hefði dregizt að afgreiða þessi frv. hér í þinginu. Hann nefndi eitt dæmi, sem væri orsök fyrir þessum drætti, og það var, að það hefði orðið samkomulag á milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um að hreyfa ekkert við þessum málum, meðan á fundum Norðurlandaráðs stæði. Það fór ein vika í þetta. En ég held, að raunverulegu ástæðurnar séu allt aðrar. Þær eru fyrst og fremst þær, að það hefur verið ósamkomulag innan stjórnarflokkanna um það, hvernig með þessi frv. ætti að fara. Það ósamkomulag hlaut að koma upp, þegar hinir einstöku þm. fóru að átta sig á því, hvað í þessum frv. felst. Og það er fyrst og fremst þetta, sem hefur tafið málið, og raunar ekkert annað.

Við fengum hér gagnlegar upplýsingar um það frá hæstv. fjmrh., hverjir hefðu unnið þetta verk, hverjir hefðu samið frv. Raunar var það í sjálfu sér vitað, en við sjáum hins vegar núna, að þessir menn, sem sömdu frv., hafa verið hafðir fyrir rangri sök, þegar því hefur verið haldið fram, að þeir hefðu ekki sérþekkingu á skattamálum. Það liggur nú fyrir, að það er ekki þeirra sök, að frv. er illa samið, heldur er það sök ríkisstj. Það var beinlínis tekið fram, að það væri stjórnin, sem bæri ábyrgð á því. Það var vissulega vitað fyrir, en ég held, að það sé nokkurn veginn vitað líka, að einstakir þm. stjórnarflokkanna og ráðh. sjálfir hafa verið að krukka í verk þeirra, sem hafa sérþekkingu á skattamálum.

Við fengum hér mjög fróðlega skýrslu um, hvenær skattalagabreytingar hafa átt sér stað á s.l. 40 árum. Ég held nú að vísu, að sú upptalning hafi alls ekki verið tæmandi, heldur hafi verið reynt að tína út úr skattbreytingar, sem höfðu í för með sér að einhverju leyti þyngingu skatta, en það hefur líka verið bent á það í þessum umr., að Hæstiréttur hefur dæmt slíkar skattalagabreytingar óheimilar. Hæstv. fjmrh. taldi sig illa vera í takt við fyrirrennara sína, ef hann færi að breyta skattalögum á öðrum tíma en þeir hefðu gert. Ég hef nú grun um það, að við eigum eftir að sjá fleira á þessu ári. A.m.k. er alltaf öðru hverju verið að búa okkur undir það, að ef ekki náist endar saman, þá verði lagðir á nýir skattar, og þá verður væntanlega eitthvað lengra komið fram á árið.

Ég held, að ég fari ekki mörgum orðum um fasteignaskattana. Við fáum tækifæri til þess að ræða þá hér í hv. Nd., þegar tekjustofnafrv. kemur til umr. eftir helgi. En hæstv. fjmrh. sýndi hér ágæta mynd af mér, sem birtist í Sveitarstjórnarmálum á s.l. ári, þar sem ég var í nefnd, sem gerði skýrslu fyrir Samband ísl. sveitarfélaga um fasteignaskatta. Ég held, að það finnist ekki í þeirri skýrslu nein till. um það, hve háir fasteignaskattar ættu að vera. Hins vegar er lögð áherzla á það í þeirri skýrslu, að fasteignaskattar eigi að vera gjaldstofn sveitarfélaga, en ekki ríkisins. Og það er það, sem ég hef alla tíð lagt áherzlu á, að fasteignir séu gjaldstofn fyrir sveitarfélögin og það eigi ekki að vera að margskatta fasteignir, eins og hefur verið gert og hér á að halda áfram í auknum mæli samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hins vegar minnist ég þess, að þegar þessi skýrsla var lögð fyrir landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga 1970, þá var verið að reyna að ná samkomulagi í nefndinni um ályktun, sem landsþingið gerði varðandi fasteignaskatta, og þá voru einstakir menn býsna tregir í taumi, og það voru einmitt framsóknarmenn. Þ. á m. er einn, sem hér situr á þingi. Þá mátti ekki heyra minnzt á hækkun fasteignaskatta, en núna verða víst engin vandræði fyrir þessa sömu menn að rétta upp höndina, þegar sú gr. kemur hér til atkv.

Hv. 4. landsk. þm. lýsti hér till. varðandi sérsköttun hjóna. Ég vil segja það, að mér finnst þessi till. ganga nokkuð í rétta átt, en ég skildi hins vegar ekki alveg málflutning hv. þm. Ég skil ekki t.d., hvers vegna ekki megi skattleggja hjón sitt í hvoru lagi, þó að konan afli ekki tekna utan heimilis. Konan er framfærandi til jafns við manninn, og þess vegna sýnist mér ósköp eðlilegt að skipta tekjum þeirra, hvort sem hún vinnur fyrir atvinnutekjum utan heimilis eða ekki. Þessi skoðun mín flokkast nú kannske undir kynferðislega þráhyggju, eins og hv. þm. komst að orði, og þetta er nú svo tvíræð setning eða tvíræð orð, að ég þori varla að ræða það frekar hér. (Gripið fram í: Blessaður gerðu það.) Nei, ég ætla að sleppa því.

En það voru tvö atriði hér í frv., sem ég ætla að minnast sérstaklega á. Annað varðar 7. gr. frv. og brtt. við hana. Það er um persónufrádrætti og sérstaka frádrætti fyrir einstæð foreldri. Mig langar til þess að nefna hér nokkrar tölur, sem sýna, hvað þetta hefur í för með sér. Samkv. brtt., sem lagðar hafa verið fram, fá nú hjón með eitt barn á framfæri, sem sköttuð eru saman, tekjuskatt á nettótekjur yfir 250 þús. kr., en einstæð móðir með eitt barn á framfæri á að hafa í nettótekjur plús meðlag samtals 256 500 kr., áður en kemur til álagningar tekjuskatts. Þarna er um að ræða sem sagt 6 500 kr. hærri fjárhæð en kvæntur maður, áður en til álagningar tekjuskatts kemur á hann. Hjón með tvö börn mega hafa 280 þús. kr., en einstæð móðir með tvö börn 308 þús. kr. Það mætti nefna nokkur fleiri dæmi, hera saman, hvernig fer varðandi einstæða móður og einstæðan föður. Vegna mismunar á skattfrjálsu meðlagi á móti hálfum persónufrádrætti fyrir hvert barn, þ.e. 15 þús. kr. og aukafrádrætti 6 500 kr. fyrir hvert barn, þá vex mismunur þessi um 21 500 kr. fyrir hverja aukningu barnafjölda hjá hjónum á móti aukningu barnafjölda hjá einstæðri móður. Þessi sama útkoma kemur hins vegar ekki fram hjá einstæðum föður. Hann fær ekkert skattfrjálst meðlag, en þess í stað fullan persónufrádrátt fyrir hvert barn. Nú er ég ekki að mæla gegn því, að vel sé gert við einstæða móður. En mig langar til þess að fá skýringu á því, hvort þetta hefur verið meiningin með þessum brtt. Það hefur áður hent í sambandi við þetta mál allt saman, að útkoman hefur ekki fengizt fyrr en löngu síðar, og þessu kann að vera svo farið hérna. Ef heldur áfram á þessari braut, þá veit ég ekki, hvernig á að bregðast við. Það verður kannske farið að skipta rauðsokkahreyfingunni í deildir, karladeild og kvennadeild. Einhver verður að berjast fyrir réttindum karlmannanna.

Þá langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þær gr. frv., sem fjalla um ríkisskattanefnd og embætti ríkisskattstjóra. Þessar gr. fela í sér veigamiklar breytingar á skipan embættis ríkisskattstjóra sem slíks, svo og á skipan ríkisskattanefndar og skattsektanefndar, en formennska í þessum nefndum hefur fylgt embætti ríkisskattstjóra. Þessar breytingar samkv. frv. sýnast mér vera víða mjög óljósar og ekki nægjanlega útfærðar, og þær beinlínis leiða til óeðlilegs ástands, a.m.k. um tíma, þ.e. frá gildistöku þessara lagabreytinga samkv. frv. og til septemberloka, því að á þessum tíma á ríkisskattstjóri að vera formaður þessara nefnda, en jafnframt á hann að koma fram gagnvart nefndunum sem nokkurs konar sóknaraðili fyrir hönd fjmrh. og sveitarfélaga. Ég get ómögulega séð, að þessi skipan geti staðizt, þótt um stuttan tíma sé að ræða. Ríkisskattanefndinni sjálfri er í rauninni ekkert breytt að skipan til. Að vísu hafa verið gerðar allt aðrar kröfur til hæfni þeirra, sem setu eiga í ríkisskattanefnd, og má segja, að þar séu nokkuð strangar kröfur gerðar, ekki í sjálfu sér til þekkingar þeirra, heldur er hér í lokaákvæði 12. gr. sagt: „Í nefndina má ekki skipa menn, sem gegna ábyrgðar- eða trúnaðarstöðum við stjórn samtaka atvinnurekenda, stéttarfélaga eða á sviði fjármála og skattheimtu hjá ríki og sveitarfélögum.“ Það getur orðið býsna erfitt fyrir Hæstarétt að finna þessa menn. Ríkisskattanefnd er í raun sem sagt ekki breytt að skipan til nema formennskunni. Hún fylgir ekki embætti ríkisskattstjóra, heldur virðist um að ræða nýtt embætti, en það er formannsembættið í ríkisskattanefnd. Hér er þess vegna ekki um að ræða breytingu í dómstól, en það er óbeint gefið í skyn í niðurlagsorðum aths. við 12. gr. frv.

Verkefni ríkisskattanefndar eru mjög takmörkuð frá því, sem verið hefur. Nefndin verður samkv. frv. eingöngu úrskurðaraðili á kærum, og á ekki að hafa önnur verkefni með höndum. Verkefni ríkisskattanefndar hafa verið víðtækari en sagt er í aths. við frv., þ.e. um 12. gr. Nefndin hefur í vaxandi mæli gefið út ýmsar túlkanir og verklagsreglur til stuðnings og eftirbreytni fyrir álagningarkerfið, og þetta hefur haft fyrirbyggjandi áhrif á ranga framkvæmd og samræmt framkvæmd þessara mála. Ég held, að segja megi, að það sé áríðandi fyrir álagningarkerfið að geta borið vafaatriði undir ríkisskattanefnd og fengið túlkun hennar.

Aths. við frv., að því er varðar breytingar á skipan ríkisskattstjóra sem slíks, eru tiltölulega fáar og heldur óljósar. Það eru ekki ljós ákvæði síðari málsl. 3. mgr. 14. gr. frv. Þessi ákvæði leggja þá skyldu á ríkisskattstjóra að senda ríkisskattanefnd rökstuðning í kærumálum frá gjaldendum, að því er virðist, með því að gera ríkisskattstjóra að sóknaraðila fyrir hönd fjmrh. hjá ríkisskattanefnd og fyrir hönd allra annarra gjaldkrefjenda, þá sýnist orðið mjög vafasamt um sjálfstæði þessa embættismanns gagnvart fjmrh. og öðrum gjaldkrefjendum. Ég held, að hér sé farið inn á mjög varhugaverða braut og hætt við, að almenningur treysti ekki þeim manni, sem gegnir þessu embætti hverju sinni, sem hlutlausum embættismanni. Þá sýnist mér vera nauðsyn á að afnema ákvæði síðasta málsl. 1. mgr. 15. gr., þar sem segir, að ríkisskattstjóri skuli hafa á hendi framkvæmd tvísköttunarsamninga við önnur ríki. Þetta er dálítið vafasamt orðalag líka. Það er auðvitað ekki um að ræða tvísköttunarsamninga, heldur samninga til að komast hjá tvísköttun. Og í öðru lagi verður að teljast óeðlilegt að binda þannig hendur fjmrh., en þessi ákvæði í samningum eru ætíð á þann veg, að framkvæmd þeirra sé í höndum fjmrh.

Varðandi 17. gr., — þar er um skattsektanefndina að ræða — ef þörf er á tilnefningu Hæstaréttar á nm. í ríkisskattanefnd, þá sýnist ekki síður þörf á að Hæstiréttur tilnefni menn í þessa nefnd. Með allri virðingu fyrir lögfræðingum sýnist óeðlilegt, að tveir lögfræðingar skipi nefndina auk formanns ríkisskattanefndar. Þau mál, sem nefndin kemur til með að fjalla um, krefjast yfirleitt verulegrar þekkingar á sviði bókhalds og reikningsskila, og þess vegna er nauðsynlegt að tryggja, að í nefndinni eigi sæti a.m.k. einn maður með slíka þekkingu. Má benda á það, að Hæstiréttur hefur í seinni tíð vísað tveimur opinberum málum frá af svipuðum toga og nefndin kemur til með að fjalla um á þeim forsendum, að ekki höfðu verið kvaddir til sérfróðir dómendur í héraði.

Ég ætla að láta þetta nægja um þessi atriði, en þetta, sem ég hef nefnt, er dæmi um þá hroðvirkni og þann flumbruhátt, sem lýsir sér í þessu frv. öllu. Það rennir enn stoðum undir þá staðhæfingu okkar, að undirbúningur hefur ekki verið nægur, og það hafa ekki verið nægilega hæfir menn, sem um þetta mál hafa fjallað. Og hérna á ég að sjálfsögðu ekki við nm., heldur við ráðh„ samkv. þeim upplýsingum, sem hér hafa verið gefnar.