13.03.1972
Neðri deild: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Það er nú í fyrsta lagi það, sem ég vil leiðrétta hjá hæstv. félmrh., að því hafi verið haldið fram hér, að þetta frv. væri skattpíningarfrv. af fyrstu gráðu, en samt ófullnægjandi fyrir sveitarfélögin. Ég hef ekki haldið því fram og ég held enginn, að þetta frv. væri eitthvert skattpíningarfrv. En þegar við höfum verið að bera saman breytinguna á skattbyrðinni frá því, sem var 1971, og til þess, sem verður nú 1972, þá höfum við rætt um bæði frv., bæði tekjustofnafrv. og frv. um tekju- og eignarskatt, og það er þá, sem þetta kemur í ljós, en ekki sérstaklega, að útsvör séu að hækka eftir þessu frv., og þá jafnframt að þetta sé ófullnægjandi fyrir sveitarfélögin. Hvernig sé svo hægt að koma þessu saman? Það held ég, að hafi nú verið nokkuð rökstutt. Það, hvernig sé hægt að segja, að þetta frv. sé ófullnægjandi fyrir sveitarfélögin, þegar sýnt hefur verið fram á, að tekjuöflun þeirra verði nánast sú sama og hún var 1971. Það er vegna þess, eins og ég held að hafi verið tekið fram, að það hefur verið breytt um kerfi, það hefur verið kollvarpað því kerfi, sem hefur þróazt gegnum árin, og það hefur ekki verið athugað, hvernig þetta nýja kerfi kemur út fyrir hin einstöku sveitarfélög.

Ég var að opna hér bréf, sem mér barst rétt áðan, og ég býst við, að hafi verið sent öðrum alþm. Það er frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum. Við höfum áður fengið bréf frá honum, þar sem hann sýnir fram á, hvernig bæjarsjóður Vestmannaeyja fer út úr þessum breytingum. Nú hefur hann kannað, hvaða áhrif breytingarnar, sem gerðar hafa verið frá upphaflegu frv., hafa á bæjarsjóð, og hann segir hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Í áætluninni kemur fram, að tekjumöguleikar bæjarsjóðs minnka um liðlega 10 millj. kr. þrátt fyrir áhrif umræddra brtt., og er þá reiknað með að nýta tekjumöguleika laganna til hins ýtrasta gagnstætt því, sem gert hefur verið undanfarin ár.“

Og svo er því enn haldið fram hér í hv. þd., að það séu nánast engin sveitarfélög, sem fari illa út úr þessum breytingum. (Gripið fram í: Eru nefskattar reiknaðir?) Já, að sjálfsögðu. Það er hér ítarlega rakið, hver áhrifin verða. Breytingin t.d. við það, að nú er heimilt að innheimta aðstöðugjöld 65% frá í fyrra, hækkar tekjur bæjarsjóðs um 4 millj. 250 þús., en lækkun t.d. útsvara vegna persónufrádráttarins og þeirra breytinga, sem þar verða, er 15 millj. 280 þús., en hækkun útsvara í 10% af öllum tekjum eru rúmar 11 millj. Mismunurinn verður þarna 4.8 millj., en þrátt fyrir það er heildartap bæjarsjóðs á breytingum tekjustofnalaganna 10 millj. 349 þús. Svo segja menn, að ekkert sveitarfélag eigi að fara illa út úr þessum breytingum.

Varðandi skattbyrðina, þá held ég, að sé nú bezt, úr því sem komið er, að fara að ráðum hæstv. ráðh. og bíða þar þangað til í vor. Ég sé, að það er alveg tilgangslaust að ræða lengur um það, hvernig á að finna þennan mismun. A.m.k. er málið útrætt af minni hálfu.

Það er vafalaust rétt hjá hæstv. ráðh., að það sé stuðningur fyrir stjórnina, að við stjórnarandstæðingar séum að mála hér skrattann á vegginn. Sennilega eru þetta bara klókindi hjá stjórninni að haga sínum málflutningi eins og þeir gera og reyna að koma okkur til, þannig að fólki finnist þetta ekki svo voðalegt, þegar þetta kemur í vor. Kannske eru þetta klókindi hjá stjórninni.

Hæstv. ráðh. sagði, að till. sjálfstæðismanna, sem lagðar voru fram í Ed., væru áreiðanlega ekki til þess að bæta frv. í heild. Þessu leyfi ég mér nú að mótmæla, en ég ætla ekki að tefja tímann með því að ræða þær till. hér. Við fáum tækifæri, sjálfstæðismenn, til þess að flytja brtt. hér í hv. Nd. og þá sjáum við, hvernig verður tekið í þær.

Varðandi sambandið við sveitarstjórnarsamtökin, þá stendur það óhaggað, sem ég sagði, að það var ekkert samband haft við Samband ísl. sveitarfélaga. Því var ekki gefinn kostur á að eiga aðild að samningu frv. Hins vegar er það alveg rétt, að það var einn maður úr fulltrúaráði sambandsins í nefndinni, en það er bara allt annað mál, — ágætur maður vissulega. Hæstv. ráðh. sagðist vera sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að aðstaða sveitarfélaganna verði mjög misjöfn, og þannig hlyti hún að verða, eins og hún hafi alltaf verið. Ég held, að ég sé búinn að koma að þessum þætti, að aðstaðan verði ákaflega misjöfn og fjöldi sveitarfélaga verður fyrir verulegri tekjuskerðingu, og ég hef nefnt hér dæmið um Vestmannaeyjar. Það má nefna mörg fleiri dæmi, en hæstv. ráðh. sagði, að þetta hefði mátt til sanns vegar færa miðað við upphaflegt frv., en núna væri úr þessu bætt, þessu hefði verið kippt í lag. Þetta hefur alls ekki verið sannað fyrir mér, og ég óska eindregið eftir því, að það verði lagðir fram útreikningar, sem sýna það, hverjar verði útsvarstekjur hinna einstöku sveitarfélaga eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv.

Mér þykir vænt um að heyra þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að það verði litið á það, áreiðanlega litið á það að endurskoða verkefnaskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga, sem ég lagði nokkra áherzlu á í ræðu minni í dag, og fyrir það vil ég þakka. En ég legg hins vegar áherzlu á það, að þetta hefði átt að gera fyrr, áður en tekjustofnalögunum er gerbreytt, eins og hér er gert.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði, sem mér sýnist ástæða til að nefna, en vek aðeins athygli á því, að fáu eða engu af því, sem ég spurðist fyrir um í dag, hefur verið svarað.