15.03.1972
Neðri deild: 51. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

133. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Við fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og félmn. Nd. höfum gefið út nál. á þskj. 450. Við leggjum til, að frv. um tekjustofna sveitarfélaga verði vísað frá með rökstuddri dagskrá og vísum til nál. I. minni hl. heilbr.- og félmn. Ed.

Það verður ekki sagt, að hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. hafi haft mikið fyrir þessu frv. Fyrir utan hina sameiginlegu fundi, sem n. beggja deilda áttu, þar sem fulltrúar þessarar d. fóru af eðlilegum ástæðum með aukahlutverk, voru í gær haldnir tveir fundir í n., að vísu, að því er ég held, einum meira en ætlað var. Á fundinum í gærmorgun komu að eigin ósk fulltrúar Félags ísl. iðnrekenda, Verzlunarráðsins, Vinnuveitendasambandsins og LÍÚ. Á þessa fulltrúa var hlustað með sæmilegri kurteisi, en að sjálfsögðu ekkert tillit tekið til ábendinga þessara aðila um það, sem betur mætti fara í frv.

Á þessum sama fundi bentum við fulltrúar Sjálfstfl. á nokkur atriði í frv., sem hlytu að flokkast undir hrein mistök og ástæða væri því til að leiðrétta. Sumt af þeim áhendingum hefur verið tekið til greina, og n. flytur brtt. á þskj. 452 og n. stendur sameiginlega að þeim tillöguflutningi. Hefur frsm. meiri hl. gert hér grein fyrir þeim. Ég vil þakka fulltrúum stjórnarflokkanna fyrir að hafa brotið odd af oflæti sínu með því að ganga í þessum atriðum til móts við ábendingar okkar. Þeirra hlutur er að þessu leyti snöggt um betri en flokksbræðra þeirra í heilbr.- og félmn. Ed., sem hlustuðu ekki á neitt. En það eru mörg fleiri atriði í frv. þessu, sem auðvitað er þörf á að færa til betri vegar.

Verði till. okkar um frávísun felld, þá munum við við 3. umr. flytja brtt. til að reyna að koma frv. í betra horf. Eins og ég sagði áðan, þá styðjum við fulltrúar Sjálfstfl. í n. þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 452. Ég tek þó fram, að við erum í grundvallaratriðum á móti því, að ákvæðin um aðstöðugjaldið séu tekin inn í lögin, en við höfðum hins vegar sætt okkur við að hafa þau í ákvæði til bráðabirgða. Hins vegar hljótum við að standa með því, að mistök verði leiðrétt, eins og hér er gert, en eins og ég benti á við 1. umr. um þetta frv. á mánudaginn var, þá er í 36. gr. frv. ákvæði um að leggja megi á aðstöðugjald samkv. III. kafla laga nr. 51 frá 1964. En í 42. gr. eru þau lög numin úr gildi.

Ég ræddi hér á mánudaginn var um nokkrar gr. frv. og hef ekki miklu við það að bæta. Ég hef tjáð mig um 3. gr., sem fjallar um fasteignaskatt, og skal ekki endurtaka það. Ég ræddi þá sérstaklega um viðbótartillögu, sem komin var fram frá stjórninni um þennan 4% aukaskatt af hlunnindum, ef þau væru í eigu utansveitarmanna. Þessa gr. hefði nú kannske verið ástæða til að lagfæra, því að satt að segja geri ég mér ekki alveg ljóst, hvort á að greiða skattinn af hlunnindunum eða utansveitarmönnunum, sem eiga þau. Eftir orðanna hljóðan sýnist mér það vera af mönnunum, en ég veit bara ekki, hvernig á að meta þá til verðs. Þetta hefði náttúrlega verið ástæða til að laga.

Það hefði einnig verið ástæða til að lagfæra 5. gr., 1. mgr., sem fjallar um undanþágur frá fasteignaskatti. Um það fluttu fulltrúar Sjálfstfl. í Ed. brtt., sem var felld. Ég innti eftir því á nefndarfundi í gær, hver væri skilningur stjórnarflokkanna á því, hvaða eignir væru undanþegnar fasteignaskatti samkv. ákvæðum gr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrahús, kirkjur, skólar, íþróttahús, endurhæfingarstöðvar, barnaheimili, félagsheimili og samkomuhús, sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.“ Auk þess er svo áframhaldandi upptalning.

Það, sem ég vildi fá að vita, var það, hvort þetta „sem“ ætti eingöngu við samkomuhús eða það, sem á undan væri talið, margt af þeim eignum er að sjálfsögðu aldrei rekið í ágóðaskyni, en það mun vera skilningur stjórnarflokkanna, að þetta eigi eingöngu við samkomuhús, og er út af fyrir sig gott að vita það.

Um 23. gr. frv. ræddi ég einnig nokkuð hér um daginn, en vegna umr., sem hér urðu í fyrradag, fyrirspurnar frá hv. 5. þm. Norðurl. e. og svars hæstv. félmrh., þá langar mig að fara nokkrum orðum um það og greina frá þeim skilningi, sem ég hef á þessu, og ég verð þá leiðréttur, ef hann er rangur.

Í 23. gr. frv. er talað um, á hvaða tekjur skuli lagt, og þar er vísað til 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekju- og eignarskatt, sbr. þó 10. gr. skattalaga, sem fjallar um ákveðnar tekjur, sem ekki teljast með. Síðan er um ákveðnar heimildir til frádráttarfrá tekjum samkv. 11. gr. og sbr. 15. gr. skattalaganna. Enn fremur um frádrátt eigin húsaleigu frá tekjum og skyldusparnað, þ.e.a.s. upp eru þarna taldar allar heimildir til frávika frá hugtakinu tekjur samkv. 7. gr., sbr. þó 10. gr. Samkv. þessu sýnist mér verða að álíta í fyrsta lagi, að námsfrádrátt samkv. 16. gr. skattalaga skuli ekki veita til frádráttar tekjum til útsvars. Það, sem styður þá skoðun mína, er sérákvæði í 27. gr. tekjustofnafrv.

Í öðru lagi, að aukafrádráttur einstæðs foreldris samkv. 16. gr. skattalaga sé ekki frádráttarbær frá tekjum til útsvars, og það, sem rennir stoðum undir þá skoðun, er, að einstætt foreldri fær annan persónufrádrátt í útsvari en aðrir einhleypingar samkv. 26. gr. tekjustofnafrv.

Í þriðja lagi, að skipting persónufrádráttar barna milli foreldra, sbr. 16. gr. skattalaga, sé ekki heimil við útsvarsálagningu, heldur renni hann óskiptur til þess gjaldanda, sem hefur barnið á framfæri sínu.

Í fjórða lagi, að undanþága 16. gr. skattalaga um, að meðlagsgreiðslur teljist ekki til tekna hjá móttakanda þeirra, undanþiggur þær ekki tekjum til útsvars.

Hér verður því um aukinn tekjustofn til útsvars að ræða umfram tekjustofn til tekjuskatts. Þetta snertir nær eingöngu einstæðar mæður og hjón, þar sem eiginkonan er móðir barnsins, en eiginmaður ekki faðir þess. Meðlagsgreiðslur fyrir hvert barn, 30 þús. kr., reiknast til tekna til útsvars, en persónufrádrátturinn 1000 kr. frá útsvarsfjárhæðinni. Í tekjuskatti reiknast það ekki til tekna, en einstæð móðir eða hjónin fá hálfan persónufrádrátt, 15 þús. kr. frá tekjum fyrir hvert barn.

Það sem gefur mér sérstakt tilefni til að nefna þetta, er dæmi sem birtist í Þjóðviljanum þann 12. þ. m., á sunnudaginn var. Ég hafði nú víst heitið því hér við 1. umr., að ræða ekki meira þessi dæmi, mér þykir það svo tilgangslaust að ræða við stjórnarliða um það, hvernig eigi að reikna skattana, en í Þjóðviljanum er dæmi um einstæðar mæður. Þá er reiknað með fullum persónufrádrætti barnsins hjá móðurinni, en hins vegar einnig með því, að útsvar greiðist ekki af meðlagsgreiðslunum. Þessi dæmi eru nokkuð sérstæð og það er brugðið út af fyrri dæmum, sem birzt hafa, þannig að tekjur einstæðra mæðra eru tekjur að meðtöldum meðlögum. En síðan eru þessi meðlög dregin út úr tekjumyndinni við útreikning skatta og útsvars. Þetta gefur að sjáifsögðu miklu snyrtilegri mynd og er kannske skiljanlegt, að svona dæmi skuli vera birt í Þjóðviljanum.

200 þús. kr. tekjur einstæðrar móður og aðrar tekjutölur eru því ekki skattskyldar brúttótekjur, og þess vegna ekki sambærilegar við 200 þús. kr. tekjur annarra fjölskyldustærða, þar sem þar er í öllum tilfellum um að ræða skattskyldar brúttótekjur. Þessi dæmi um einstæðar mæður í þessu blaði eru því hrein markleysa.

Ég ætla ekki að orðlengja fremur um 4. mgr. 23. gr., þótt vissulega væri ástæða til að tala frekar um hana. Þetta er sá kafli í lögunum, sem mun verða þess valdandi, að réttur einstaklingsins er algjörlega fyrir borð borinn gagnvart skattyfirvöldum. Hann á bókstaflega enga leið, ef skattyfirvöldum dettur í hug að breyta framtali hans honum í óhag. Fulltrúar Sjálfstfl. höfðu lagt til í Ed., að þarna yrði bætt inn ákvæði hliðstæðu því, sem er í gildandi tekjustofnalögum, þess efnis, að gjaldanda yrði gefinn kostur á að gæta réttar síns, ef breyta ætti framtali hans honum í óhag. Þetta var að sjálfsögðu fellt eins og aðrar brtt. þar.

Þá hefði ég einnig óskað, að tekið hefði verið upp í brtt. heilbr.- og félmn. nú viðbót við 30, gr. m-lið, sem á að vera til tryggingar sveitarstjórnum, en það ákvæði fjallar um rétt útsvarsgjaldanda til endurgreiðslu á ofgreiddu útsvari beint frá sveitarsjóði, ef of miklu hefur verið haldið eftir af hans launum hjá kaupgreiðanda, sem verður gjaldþrota.

Við þessu hefði mátt sjá, ef bætt hefði verið aftan við gr., sem hljóðar svo: „Útsvarsgjaldandi. sem ofgreitt hefur útsvar til kaupgreiðanda samkv. þessari gr., á rétt á endurgreiðslu beint úr sveitarsjóði, hvort sem kaupgreiðandi hefur greitt sveitarsjóðnum útsvarið eða ekki.“ Þarna hefði þurft að bætast við: Enda hafi verið haldið eftir af kaupi hans í samræmi við kröfur sveitarstjórnar.

Það er augljóst, að það getur verið nokkur freisting fyrir mann, sem sér fyrir gjaldþrot sitt, að greiða laun með útsvars- eða skattakvittunum, og þess vegna hefði mátt tryggja þetta með því að bæta þessu ákvæði við, að þessi endurgreiðsla væri ekki heimil, nema haldið hefði verið eftir af kaupi launþegans samkv. kröfu sveitarstjórnar.

Vissulega mætti nefna mörg fleiri dæmi um hina augljósu annmarka, sem á frv. þessu eru, en ég læt þetta nægja að sinni til viðbótar því, sem komið hefur fram hér áður í umr.

Við leggjum til, eins og ég áður sagði, fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og félmn., að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Þar sem allur undirbúningur þessa frv. er ónógur og lögfesting þess hefði hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir einstök sveitarfélög og vissa hópa gjaldenda, telur d. nauðsynlegt, að ætlaður verði meiri tími til endurskoðunar laga um tekjustofna sveitarfélaga, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það hefur verið sýnt fram á það í umr., að undirbúningur frv. er ónógur. Afleiðingar þess eru hinar alvarlegustu fyrir einstök sveitarfélög og vissa hópa gjaldenda, og því þarf meiri tíma til endurskoðunarinnar. Við leggjum til, að skipuð verði nefnd, sem í eigi sæti fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Við ætlumst til, að þingnefndum verði gefinn kostur á að fylgjast með endurskoðuninni og að endurskoðun tekjustofnalaganna fari fram samtímis endurskoðun laga um tekjuskatt og eignarskatt og störf þessara nefnda, sem að endurskoðun vinna, verði samræmd.

Við endurskoðunina verði þessi meginatriði höfð í huga: Skattlagningunni verði þannig hagað, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar og auki áhuga hans á þátttöku í atvinnurekstrinum. Þetta mark næst m.a. með því, og bezt með því, að skattleggja fremur eyðslu en sparnað. Við viljum að dregið verði úr beinum tekjusköttum og lög um söluskatt verði tekin til heildarendurskoðunar og kannað um leið, hvort virðisaukaskattkerfið henti íslenzkum aðstæðum betur en núverandi söluskattskerfi.

Í samræmi við það, að dregið verði úr beinum tekjusköttum, verði að því stefnt, að sveitarfélögin ein fái umráð þeirra, en ríkissjóður byggi í framtíðinni tekjuöflun sína eingöngu á óbeinni skattlagningu. Við teljum rétt, að á tekjur einstaklinga og félaga verði lagt tekjuútsvar á grundvelli nettótekna. Verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð frá grunni og heimild sveitarfélaga til álagningar útsvara verði miðuð við fjárþörf þeirra vegna aukinna verkefna, sem þeim á að fela að leysa.

Stefnt verði að frekari lækkun aðstöðugjalda og afnámi þeirra helzt. Samfara því verði sveitarfélögunum séð fyrir réttlátari tekjustofnum vegna þjónustu þeirra við fyrirtæki. Við teljum, að fasteignaskatti eigi að stilla í hóf og það eigi að líta á hann sem þjónustuskatt til sveitarfélaga og hámark hans ákveðið í samræmi við það. Jafnframt verði sveitarfélögunum ekki gert að skyldu að leggja á fasteignaskatt, heldur verði hér um að ræða heimildarákvæði. Og að lokum vil ég nefna það, sem mjög hefur komið til umr. hér, og það er, að tekjum hjóna verði skipt til helminga og útsvar reiknað af hvorum helmingi um sig.