24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

31. mál, rekstur hraðfrystihúsanna

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hraðfrystiiðnaðurinn er efalaust ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og skiptir því afkomu sjómanna og útgerðarmanna og raunar alls þjóðarbúsins mjög miklu, að hann sé sem bezt rekinn. Við þetta bætist svo, að langmest af því fjármagni, sem hraðfrystihúsin hafa með höndum, er frá opinberum sjóðum og bönkum. Þjóðin hefur því fyllstu ástæðu og fyllsta rétt til að fylgjast með því, að hraðfrystihúsin séu sem bezt rekin. Augljóst virðist, að rekstur hraðfrystihúsanna er mjög mismunandi góður. Sum frystihús, sem virðast hafa sæmilega aðstöðu, hafa lélega afkomu, en önnur, sem virðast hafa óhægri skilyrði, bera sig betur. Miklu skiptir, að reynt sé að bæta rekstur þeirra húsa, sem hafa dregizt aftur úr í þessum efnum; og er mikils vert, að opinberir fjárfestingarsjóðir og hankar séu þar vel á verði og í raun og veru ríkisvaldið allt. Fsp. þessi er borin fram til að fá það upplýst, hvort gerð hafi verið athugun og samanburður á rekstri hraðfrystihúsanna með það fyrir augum, að hagnýtt væri reynsla þeirra frystihúsa, sem hafa beztan og hagkvæmastan rekstur.