07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, sem féllu á þá leið, að í dag eru allir Íslendingar Vestmanneyingar, og þess vegna er sú ógæfa, sem borið hefur að höndum í Vestmannaeyjum, mál þjóðarinnar allrar. Alþ. hefur sýnt þann skilning með því, að sú n., sem kjörin var til að gera neyðarráðstafanir varðandi þennan háska, sem borið hefur að höndum, hefur náð samstöðu um lausn þessara mála. Og ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir ánægju minni með þá samstöðu.

Vissulega skal því ekki leynt, að ég hefði viljað víkja sumum hlutum til í till. n., en það skiptir ekki máli á þessari stundu, heldur hitt, að hér ríkir full samstaða á Alþ. Ég vil þó leyfa mér að koma með brtt. varðandi þetta frv. Það varðar ekki álögur, neina breytingu efnislega um þær, heldur aðeins hitt, að mér þætti ekki óeðlilegt til þess að marka það, að Viðlagasjóðurinn sé eingöngu myndaður vegna Vestmannaeyja, að þegar við þennan sjóð verður skilizt, þá hverfi fé úr honum í Bjargráðasjóð. Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að leggja fram hér brtt., sem hljóðar þannig:

„Á eftir 9. gr. komi ný grein, 10. gr., er orðist SVO:

Þegar hlutverki Viðlagasjóðs er lokið, skal fé hans leggjast í Bjargráðasjóð.“

Með þessu vil ég aðeins segja það, að land okkar er land elds og ísa og við eigum að búa þannig um hnútana, að við séum ávallt viðbúnir þeim vanda og þjóðarháska, sem upp kann að koma, og þetta mætti vera okkur hvatning til þess að leggja árlega fé í slíkan sjóð, þannig að við værum betur undir búnir en nú varð raunin á.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja þessa brtt. fram og óska eftir afbrigðum nm hana.