12.02.1973
Efri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

153. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um allverulegar breytingar á gildandi reglum um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Aðalbreytingarnar, sem felast í þessu frv., eru þær, að magnsgjaldsákvæðum er breytt, og yfirleitt er þeim breytt til samræmis við útflutningsverð, þ.e.a.s. að í þeim tilvikum, sem útflutningsverðið hefur hækkað allverulega, er nú lagt til að hækka magngjaldið, þannig að segja má, að greitt sé af þeim afurðum nokkuð svipað hlutfallslegt gjald og verið hefur, þó að magngjaldsforminu sé haldið. Þó er einnig um að ræða í frv. lækkun á magngjaldi, en það er af þeim vörutegundum, þar sem verðið hefur fremur lækkað eða hækkað sáralítið, en framleiðslukostnaður hefur hins vegar hækkað allverulega. Þar er um vissa erfiðleika að ræða í framleiðslunni, og þá er gert ráð fyrir nokkurri lækkun á magngjaldinu.

Að öðru leyti er svo lagt til að hækka allverulega útflutningsgjaldið, aðallega af fiskimjöli og þá einkum af loðnumjöli og svo öðru fiskimjöli með sérstöku tilliti til þess, að útflutningsverð á þessum vörum hefur farið mjög hækkandi. Í eldri lögum var t.d. útflutningsgjald af loðnumjöli aðeins 4%, sem var nokkru lægra en af almennu fiskimjöli, og það var með tilliti til þess, að þá hafði verið óhagstætt söluverð á loðnumjöli. Nú hefur hins vegar loðnumjölið hækkað gífurlega mikið í verði, og þá hefur þótt full ástæða til þess að hækka gjaldið af þessari vöru fyllilega til samræmis við það, sem er á öðrum vörum. Einnig er gjaldið af öðru fiskimjöli hækkað nokkuð, en þar hefur einnig verið um verulega hækkun að ræða á útflutningsverði. Sama er að segja um útflutningsgjald af frystri loðnu, þar er um hækkun að ræða af sömu ástæðu.

Megintilgangurinn með því að breyta þessum útflutningsgjöldum er að afla vátryggingasjóði fiskiskipa aukinna tekna, en hann hefur verið rekinn með talsverðum halla nú um skeið. Áætlað er, að þær breytingar, sem hér er lagt til að gera á útflutningsgjöldunum, gætu fært sjóðnum 177 millj. kr. auknar tekjur frá því, sem verið hefur, á ársgrundvelli, og má þá telja, að árstekjur sjóðsins ættu að verða nokkuð nærri því að standast á móti útgjöldum ársins. En sjóðurinn dregur hins vegar á eftir sér nokkurn skuldahala, eins og kunnugt er.

Þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að gera samkvæmt þessu frv. á útflutningsgjöldunum, eru allar gerðar í fullu samráði við þá aðila, sem hér eiga mestan hlut að máli, þ.e.a.s. við samtök sjómanna og útgerðarmanna og fiskframleiðenda. Það hafa ekki verið gerðar hér aðrar breytingar en þær, sem þessir aðilar hafa getað fallizt á. Eins og vitað er, er hér um gjald á brúttóframleiðslu að ræða, og það fellur því jöfnum höndum á sjómenn og útgerðarmenn að standa undir þessari gjaldagreiðslu. Fulltrúar sjómanna hafa fallizt á þessar breytingar vegna þess, að þær eru innan þeirra marka, að þeir telja, að hér sé ekki breytt frá hinum raunverulega grundvelli, sem gilt hefur nú um skeið, þar sem aðeins sé um hækkanir að ræða á einstökum tegundum til samræmis við breytt útflutningsverð, en það hefur sem sagt verið staðið þannig að málunum í alllangan tíma.

Þá hefur þótt rétt að skjóta inn í þetta frv. ákvæði til bráðabirgða sem tilheyrir í sjálfu sér þessari löggjöf ekki nema að litlu leyti, en í síðari málsgr. þess er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að borga kostnað af framkvæmd laga um skipulagningu á loðnulöndun af þeim tekjum, sem hér er um að ræða. Þetta ákvæði er sett inn eftir sérstakri beiðni frá Verðlagsráði sjávarútvegsins, sem hafði komið sér saman um að hafa þennan hátt á, og ég tel rétt að verða við þessari heiðni þess, enda eru það þessir aðilar, sem raunverulega verða að ráða mestu um ráðstöfun á því fé, sem hér er um að ræða.

Ég veit, að þetta mál er öllum hv. dm. vel kunnugt. Menn vita um þessi gjöld og fyrirkomulag, sem verið hefur á þeim, því að frv. um sama efni hafa verið flutt þing eftir þing, svo að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar á þessu stigi, en legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. til meðferðar. En ég óska eftir því, að n. hraði afgreiðslu málsins svo sem tök eru á, því að nokkuð er þegar liðið á framleiðsluárið, og það er óþægilegt fyrir þá, sem hafa með innheimtu á þessum gjöldum að gera, að innheimta gjöldin, ef ekki liggja fyrir skýr lagaákvæði um gjöldin strax í upphafi framleiðslutímabilsins. Ég vænti þess, að n. taki tillit til þess og hraði afgreiðslu málsins svo sem mögulegt er.