13.02.1973
Sameinað þing: 44. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

117. mál, notkun svartolíu í togaraflota

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans. Hv. þm. gerðu þá skyssu hér í fyrra að skammta sjálfum sér einar litlar tvær mínútur í fsp.- tíma, og tíminn leyfir því nánast engar frekari aths. En ég vil leggja á það áherzlu, að tilraunum þessum verði haldið áfram og opinberir aðilar veiti stuðning sinn til þess. Ég álít, að í fyrsta lagi þurfi að ljúka þessari tilraun um borð í Narfa og einnig sé nauðsynlegt að gera sams konar tilraun í öðru skipi, sem væri með aðra gerð vélar. Jafnframt vil ég leggja á það áherzlu, að komið verði á fót sérstakri n. til að vinna að þessum málum, sérstaklega ef niðurstaða bendir í þá átt, að þetta sé hyggilegt frá fjárhagslegu sjónarmiði. Slík n. hefði vafalaust margvísleg verkefni að vinna að, bæði hvað snertir skipulagningu á dreifingu olíunnar, hvað snertir hugsanlegt námskeið fyrir vélstjóra til að sérmennta þá til að annast vélar, sem nota slíka olíu, til þess að hafa eftirlit með innfluttri olíu, m.a. sýrustigi hennar, og til þess að hafa almennt eftirlit með framkvæmd þessa máls. Ég tel sem sagt ótvírætt, að slík n. hefði fjöldamörg mikilvæg verkefni að vinna að og því sé mjög nauðsynlegt og eðlilegt, að henni sé komið á fót.