21.02.1973
Neðri deild: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

178. mál, dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta er ákaflega einfalt mál, sem hér liggur fyrir. Nýlega voru hér afgreidd lög frá Alþ. um bráðabirgðabreyting á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum o. fl. Þar voru settir ákveðnir frestir, þannig að ýmsum réttaráhrifum, sem að óbreyttu áttu að koma til framkvæmda á fyrstu dögunum eftir upphaf jarðeldanna á Heimaey, var frestað til 23. febr. Nú hefur sýnt sig, að það hefur ekki tekizt að koma högum manna í það horf, sem þörf er á, og þykir þess vegna nauðsynlegt, eins og nú stendur, að fresta þessum réttaráhrifum um einn mánuð enn. Þetta frv. er sem sagt aðeins um framlengingu á þeim frestum, sem eru í l. um dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum, um einn mánuð til viðbótar.

Þetta frv. er flutt samkv. ósk stjórnar Viðlagasjóðs. Frv. hefur gengið í gegnum Ed. og verið afgr. þar shlj. við þrjár umr., og þannig stendur á, að þetta mál þarf að afgreiða nú. Málið er svo einfalt, að ég sé ekki nokkra ástæðu til þess fyrir mitt leyti, að það fari til n., — það fór ekki í n. í Ed. Ég vil þess vegna leggja til, að málinu sé vísað til 2. umr., og fara fram á við hæstv. forseta, að hann afgreiddi frv. við 2. og 3. umr. Í beinu framhaldi af þessari umr.