27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

119. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Svar gefið af starfsmönnum Ríkisútvarpsins við fsp. hv. 1. þm. Austf. er á þessa leið:

Fyrsta spurningin fjallar um það, hversu margir sveitabæir í Austurlandskjördæmi geti ekki enn náð útsendingu sjónvarps. Þar til er því að svara, að í Norður-Múlasýslu eru ónothæf móttökuskilyrði talin á 18 býlum, en móttökuskilyrði metin slæm á 17 býlum. Í Suður-Múlasýslu er ástandið þannig, að móttökuskilyrði teljast ónothæf á 24 býlum, en skilyrði eru talin slæm á 25 býlum. Í Austur-Skaftafellssýslu býr 31 bær við ónothæf skilyrði, en aðeins einn við slæm. Alls eru það þá 73 býli í Austurlandskjördæmi, sem búa við ónothæf móttökuskilyrði sjónvarps, en 43 býli búa við slæm skilyrði.

2. liður spurningarinnar fjallar um áætlunargerð um kostnað við að koma þessum bæjum í sjónvarpssamband. Þar er svarið þannig, að áætlanir og mælingar til undirbúnings því, að reistar verði sjónvarpsstöðvar á fjórum stöðum á þessu svæði, hafa verið gerðar, þ. e. a. s. í Fljótsdalshreppi í Norður-Múlasýslu, þar er um 8 bæi að ræða, í Geithellnahreppi í Suður-Múlasýslu, þar er um að ræða 16 bæi, í Bæjahreppi í Austur-Skaftafellssýslu 13 bæi og í Borgarhafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu 14 bæi. Samkv. áætlun Landssíma Íslands er kostnaður við sjónvarpsstöðvar fyrir þessa 4 hreppa samtals 10.3 millj. kr., þar af fyrir Fljótsdalshrepp 1.5 millj., fyrir Geithellnahrepp 2.5 millj., fyrir Bæjahrepp 4 millj. 650 þús. og Borgarhafnarhrepp 1 millj. 650 þús. Nokkuð er umliðið, síðan þessar áætlanir voru gerðar, og mun láta nærri, að kostnaður við sjónvarpsstöðvar fyrir hreppana 4 yrði á núgildandi verðlagi samtals nokkuð á 12, millj. kr.

Í þriðja lagi er spurt, hvort unnið sé áfram að framkvæmdum í þessu sambandi. Svar við því er, að á Djúpavogi er verið að byggja endurvarpsstöð, og verður hún væntanlega fullbúin á næsta sumri. Undirbúningi verður haldið áfram, að því er varðar þau 4 svæði, sem um er rætt í svari við 2. spurningu. Allt er þó í óvissu um, hversu hratt því muni miða. Það fer eftir fjárhag Ríkisútvarpsins til framkvæmda á þessu ári.