27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Flm. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem ég flyt ásamt Sverri Hermannssyni, Guðlaugi Gíslasyni og Halldóri Blöndal um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga og bætt skipulag þeirra flutninga, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til, að kosin verði 5 manna mþn. til þess að semja frv. um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga, sem hafi þann tilgang, að verð á allri vöru verði það sama á öllum stöðum, sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabifreiðar halda uppi áætlunarferðum til. Í öðru lagi á þessi sama n. að kynna sér skipulag vöruflutninga á sjó, á landi og í lofti og gera till. um bætt skipulag þeirra, og skal sérstaklega í því sambandi gera breytingu á tilhögun ferða frá helztu viðskiptaborgum Íslendinga erlendis til hinna ýmsu hafna víðs vegar um landið.

Það fer ekki á milli mála, hvað átt er við með þessari till., en það er í stuttu máli það að jafna verð á vöru til landsmanna allra, hvar sem þeir eru búsettir, og afnema það ranglæti, sem verið hefur og er, að þeir, sem úti um land búa, verða að kaupa nauðsynjavörur sínar mun hærra verði en fólk hér í þéttbýlinu, en þó með nokkrum undantekningum.

Áður en ég geri verðjöfnunarsjóðsmálið að umræðuefni, vil ég fara nokkrum orðum um ástand vöruflutninga almennt og þá fyrst og fremst um þann þátt flutninganna, sem er mikilvægastur fyrir okkur Íslendinga og þá ekki síður fyrir landsbyggðina, en það eru sjóflutningarnir. Um þá er það að segja, að skipaferðir Eimskipafélags Íslands, Sambands ísl. samvinnufélaga og Hafskips eru mjög stopular og fólk getur ekki við það unað, auk þess sem dregið hefur verið úr þjónustu þessara aðila við strjálbýlið. Þannig var sú regla í gildi fyrir nokkrum árum, að skipafélög, sem fluttu vörur til landsins, voru skylduð til þess af hendi verðlagsyfirvalda að flytja tilteknar þungavörur til hafna úti um land án aukagjalds fyrir umhleðslu þeirra í Reykjavík og flutning þeirra frá Reykjavík til hafna úti um land. Frá árinu 1968 ákváðu skipafélögin að skjóta sér undan þessari kvöð. En fyrir mjög ákveðin viðbrögð manna víðs vegar um landið fékkst þó sú lagfæring gerð, að Eimskipafélag Íslands og Hafskip h/f viðurkenndu fáeinar hafnir á landinu sem innflutningshafnir, Eimskipafélagið þó með þeim fyrirvara, að vörur til þessara tilteknu hafna væru lestaðar í ákveðnum höfnum erlendis og í fyrir fram ákveðið skip. Slíkum tilfæringum fylgir í mörgum tilfellum verulegur kostnaður við flutning varningsins frá seljendum til hinna tilskildu útflutningshafna, svo að ávinningur verður minni en ella og í sumum tilvikum enginn, og leiðir auk þess til óþarfa gjaldeyriseyðslu. Þó munu skipafélögin yfirleitt vera fús til þess að sigla skipum sínum til hafna úti um land án aukagjalds, sé lestunar- eða losunarmagn a. m. k. 50 tonn í hverri viðkomu. Þessi tilslökun nýtist þó ekki nema að takmörkuðu leyti, þar sem lágmarksmagnið, 50 tonn, er ofviða hinum smærri sveitarfélögum, sem hafa ekki bolmagn til að flytja svo mikið vörumagn inn erlendis frá í einu.

Ég fullyrði, að fyrir síðustu heimsstyrjöld voru vöruflutningar til landsbyggðarinnar frá viðskiptaborgum Íslendinga erlendis mun betri en þeir eru nú í dag, og að þessu leyti hefur orðið gífurleg afturför í samgöngum til landsbyggðarinnar. Hins vegar má segja, að ferðunum í heild hafi verulega fjölgað, vegna þess að frystiskipin og önnur verzlunarskip sækja umyrðalaust útflutningsvörur landsmanna á hinar ýmsu hafnir, eftir því sem þörf krefur. En á sama tíma og það gerist, er þeim, sem vilja flytja inn vörur með þessum skipum, ekki gefinn kostur á því, því að þau sigla ekki eftir áætlun, heldur eftir því, hvaða ákvarðanir eru teknar um flutning á útflutningsvörunum hverju sinni. Það má líka benda á í þessu sambandi, að hinar strjálu ferðir gera þjónustu verzlunar- og viðskiptafyrirtækja út um landið miklu dýrari og erfiðari í framkvæmd heldur en ef ferðir væru örari, og má t. d. nefna það, að verzlanir úti um landið verða að kaupa mun meira magn inn í einu, á sama tíma og verzlanir hér í þéttbýlinu geta birgt sig upp aðeins til nokkurra daga, því að þær geta sótt vörur í heildsölu nokkurn veginn eftir því sem þær seljast. Þessu er allt öðruvísi varið víða úti um land. Þar verður því aðstaða til verzlunar og viðskipta mun erfiðari og mun dýrari. Þetta hefur farið versnandi á síðustu árum og þó alveg sérstaklega s. l. ár. Þá virðist mér, að ferðir með vörur séu alltaf að verða strjálli, vegna þess að ekkert er gert til þess að beita hagkvæmni í vöruflutningum. Og ég vil ekki láta hjá líða að nefna, að skipafyrirtæki, sem landsbyggðin á mest undir og er auðvitað til vegna landsbyggðarinnar. Skipaútgerð ríkisins, heldur uppi ákaflega óhagkvæmum ferðum, hinum svokölluðu hringferðum. Flutningar Skipaútgerðarinnar á vörum eru fyrst og fremst til Austfjarða, Vestfjarða og Norðausturlands. En þar er haldið uppi hringferðum árið um kring, sem ég tel, að sé mjög til óhagræðis fyrir þessa landshluta og ætti fyrir löngu að vera horfið frá, því að Norðurland skiptir svo sáralítið við Skipaútgerðina á síðustu árum, vegna þess að vöruflutningar til Norðurlands eru að verulegu leyti með bifreiðum, að nokkru leyti í lofti, og heztu ferðir frá útlöndum eða viðskiptaborgum okkar erlendis út á landsbyggðina eru eðlilega til Akureyrar, sem er stærsti kaupstaðurinn úti á landsbyggðinni.

Mér þykir rétt að geta þess einnig, að fyrir það, hvað ferðir erlendis frá eru strjálar, verður sífellt meiri flutningur, sem er skipað upp hér í Reykjavík og fluttur þaðan út um landið. Til þess að gefa þm. nokkurt yfirlit yfir, hvað þetta er gífurlegur kostnaður, hefur verið tekinn hér upp og við flm. létum prenta með þessu þskj. til upplýsinga kostnað við flutninga á hveiti, rúgmjöli og strásykri til Ísafjarðar, og sést þar t. d., að kostnaður við að flytja eitt tonn af strásykri frá Reykjavík til Ísafjarðar er kr. 2545.80. Þetta er margbreytilegur kostnaður, margir liðir. Það er útskipun í Reykjavík, vörugjöld í Reykjavík, flutningsgjöld Reykjavík–Ísafjörður uppskipun á Ísafirði vörugjöld á Ísafirði, heimflutningur á Ísafirði, vátryggingarkostnaður. Síðan þessi tafla er gerð, hafa hækkanir orðið á flutningsgjöldum um því sem næst 20%, svo að þessi upphæð, sem ég nefndi, er nú komin í 3000 kr., á tonn. Má því segja, að hér sé um verulega háan og mikinn skatt að ræða. Þá skulum við snúa okkur að því, hvaða áhrif þetta hefur á söluverð vöru, miðað við sama tíma eða um það bil, sem við lögðum þessa þáltill. fram. Þá var verð á strásykri 30% hærra úti á landi heldur en hér í Reykjavík, miðað við heildsöluverð. Á hveiti, rúgmjöli, hafragrjónum voru það einnig um 30%. Á ýmsum öðrum vörum, eins og niðursoðnum og þurrkuðum ávöxtum, var það allt upp í 42.9% miðað við heildsöluverð þessarar vöru. Aðrar flutningsleiðir eru með bifreiðum allt árið um kring hér í nágrenni Reykjavíkur og um Suðurland og svo til Akureyrar, þegar vegir eru færir, en hins vegar má segja, að flutningar á bifreiðum til meginhluta Vestfjarða og Austfjarða séu ekki nema yfir sumarmánuðina. Samkv. þeim töxtum, sem í gildi voru á s. l. sumri, kostaði 4500 kr. að flytja tonn af vöru á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, 2900 kr. á milli Reykjavíkur og Akureyrar, 5500 kr. á milli Reykjavíkur og Egilsstaða og 2208 kr. á milli Reykjavíkur og Víkur í Mýrdal. Flutningstaxtar Flugfélags Íslands eru líka háir. Þeir voru á s. l. ári 5 þús. kr. á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og Reykjavíkur og Akureyrar, en 6500 kr. á milli Reykjavíkur og Egilsstaða og 4 þús. kr. á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. En í þessum tölum eru ekki talin með afgreiðslugjöld, en þau námu 500 kr. á tonn. Af þessu er mjög vel ljóst, að aðstöðumunur strjálbýlis og þéttbýlis er mjög mikill, og úr þessu þarf að bæta.

Nú skulum við ekki loka augunum fyrir því, að nokkuð hefur áunnizt í þessum efnum á liðnum árum, og stærsti sigurinn, sem vannst í þessu, var, þegar lögfest var verðjöfnun á benzíni og olíu á árinu 1953, en það hafði verið baráttumál landsbyggðarmanna í mörg ár, sem Alþ. loks viðurkenndi 1953 með setningu þeirra laga. Það má líka benda á það, að áfengi, sem ríkið selur, er selt á sama verði frá útsölu, hvar sem er á landinu. Á árinu 1950 var ákveðið, að hámarksverð á tóbaki í smásölu skuli vera sama, hvar sem var á landinu. Þá hefur einnig verið tekið upp verðjöfnunargjald á áburði og sementi, en þetta hefur auðvitað haft mikið gildi til að jafna aðstöðumuninn, en við teljum, að lengra þurfi að ganga.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan minna á það, að verð á velflestum landbúnaðarafurðum er það sama, hvar sem er á landinu, og ég veit ekki betur en bændasamtökin eða framleiðsluráð landbúnaðarins hafi viðurkennt það, reiknað með því í landbúnaðarverðinu og tekið á sig nokkuð, og neytendur auðvitað að stórum hluta, þannig að vörur, sem eru fluttar úr strjálbýli í þéttbýli, eru seldar á sama verði, hvar sem er á landinu, eins og mjólkin, sem er stór liður. Því spyr ég: Hvers vegna á þá ekki að gilda það sama um vörur, sem eru fluttar úr þéttbýlinu og út í strjálbýlið? Hvers vegna á strjálbýlið eitt að standa undir þeim kostnaði, og hversu lengi á þetta þannig að vera?

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að þetta yrðu ekki alltaf með stofnun verðjöfnunarsjóðs greiðslur til strjálbýlisins. Við höfum lesið það nú á þessum vetri í öllum blöðum hér í Reykjavík, að Reykvíkingar hafa verið í mikilli þörf fyrir fisk og hér hefur ekki fengizt fiskur, nema með höppum og glöppum. Það hefur komið í ljós, að fiskur hefur verið fluttur með bifreiðum norðan úr landi, og hefur verið gífurlegur kostnaður við það fyrir neytendur hér í Reykjavík og gert þessum atvinnurekstri mjög erfitt fyrir. Stofnun verðjöfnunarsjóðs sem þessa verður alveg jafnt til hagsbóta fyrir Reykvíkinga og þéttbýlið hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þegar á það er hallað, fær það auðvitað bætur úr þessum væntanlega verðjöfnunarsjóði, eins og hugsað er, að landsbyggðin fái fyrir allar þær vörur, sem eru fluttar úr þéttbýlinu út um hinar dreifðu byggðir landsins.

Við flm. þessa máls teljum, að hér sé hreyft mjög sanngjörnu máli, og við vonum, að það komi skriður á það. Ég get ekki látið hjá líða, að geta þess, sem við raunar gerum í grg. fyrir till., að í apríl 1971 var samþ. hér á Alþ. ályktun um að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á vöruflutningum landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra til jöfnunar á flutningskostnaði, eftir því sem við yrði komið. Á s. l. hausti lagði ég fram 4 fsp. til ráðh., hvað liði framkvæmd tilgreindrar ályktunar, og í svörum ráðh. kom fram, að lítið sem ekkert hafði verið gert til þess að undirbúa málið. Ég harma það mjög, að það var ekki gert. En það þýðir ekki að tala um það frekar. Að fengnum þessum upplýsingum töldum við flm. málsins rétt og eðlilegt að flytja málið að nýju og þá nokkuð ákveðnar en áður var, sérstaklega vegna þess, að það hafði verið látið undir höfuð leggjast að undirbúa málið.

Ég taldi það eðlilegt, þegar þessi ályktun var samþykkt, að fela ríkisstj, að gera þessa athugun. Að þessari athugun lokinni átti auðvitað að semja frv. til l. um verðjöfnunarsjóð. Þetta er í raun og veru ákaflega einföld lagasmíð. En það, sem skiptir mestu máli og getur haft mjög mikið að segja, til þess að þessi verðjöfnunarsjóður verði ekki að stórfelldu bákni, þannig að hann íþyngi mjög landsmönnum almennt, er auðvitað, að jafnhliða sé gerbreytt flutningum til landsins frá því, sem nú er. Með því að breyta þeim flutningum á þann veg að flytja alla þungavöru frá útlöndum beint á hinar ýmsu hafnir á landinu þarf ekki að leggja neitt gjald í þennan verðjöfnunarsjóð á þær vörur. Á þetta þarf auðvitað að leggja gífurlega mikla áherzlu í sambandi við undirbúning málsins. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að í fyrsta lagi er í raun og veru ótækt fyrirkomulag í sambandi við áætlunarferðir kaupskipa erlendis frá til hafna úti um land. Það er mjög ófullnægjandi ástand í sambandi við samgöngur á sjó til hinna stjálbýlli héraða, það er sömuleiðis algerlega óviðeigandi ástand, sá flugfloti, sem Flugfélag Íslands hefur til þess að annast vöruflutninga. Við vitum það í landi eins og okkar, þar sem veðrátta er misjöfn, að margir dagar líða svo, að ekki sé hægt að fljúga. En þegar flogið er daglega, á það að vera alger fjármarkskrafa, að flutningsaðili hafi þann flugflota, að hann anni þeim vöruflutningum, sem til hans koma. En jafnvel þótt flogið sé á hverjum degi, tekur 4–5 daga og oft miklu lengri tíma að koma smápakka á milli landsfjórðunga með þeim flugflota, sem nú er. Ég tel því, að það sé fullkomin ástæða til að kanna til hlítar þessi mál og gera þar breytingar á til þess að greiða fyrir vöruflutningum, því að það ástand, sem nú er ríkjandi í öllum greinum vöruflutninganna, er gersamlega óviðunandi.

Það er fróðlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir þeirri miklu breytingu, sem orðið hefur á íbúafjölda í hinum ýmsu byggðarlögum á landinu, og það er eftirtektarvert, þegar maður vinnur úr manntölum allt frá árinu 1910 á þann veg að fá samanburð eftir núverandi kjördæmaskipun, að 1910 var fjölmennasta kjördæmið á landinu Vestfjarðakjördæmi með 15.71% íbúa. Þá voru Íslendingar 85183 og 13386 voru í Vestfjarðakjördæmi. Annað fjölmennasta kjördæmið var Suðurlandskjördæmi, sem var örlítið fámennara, með 15.56%, og þriðja fjölmennasta kjördæmið var Norðurl. e. með 14.81%. Næst kom þá Reykjavík með 13.62%. En fámennasta kjördæmið var Reykjaneskjördæmið með 7.04%. Þetta var 1910. M. ö. o.: 1910 bjuggu 20.66% Íslendinga í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, eins og það er nú. En í árslok 1971 búa í þessum tveim kjördæmum 58.95% allra Íslendinga, svo að þar er orðin mjög mikil breyting á. Fjölmennasta kjördæmið 1910 er þá orðið ásamt Norðurl. v. fámennasta kjördæmið eða með 4.79% þjóðarinnar. M. ö. o.: fjölmennasta kjördæmið, sem var með 13 386 íbúa, þegar þjóðin var ekki nema rúm 85 þús. er árið 1971 með 9 927 íbúa, þegar íbúatalan er rúmar 207 þús.

Það sjá allir á þessum tölum og auðvitað mörgu öðru, að hér hefur átt sér stað mikil öfugþróun á öllu þessu tímabili, og er tími til þess kominn að taka raunverulega á strjálbýlis- og byggðavandamálunum. Þau verða ekki leyst á einni svipstundu með miklum áætlunargerðum. Það verður að taka þau stig af stigi, taka fyrir ákveðin verkefni hverju sinni. Hér er ekki verið að tala um að stofna til nýrrar skattlagningar, sem ríkissjóður eigi að afla til, heldur aðeins að dreifa þeim kostnaði, sem er fyrir hendi, á alla landsmenn, í staðinn fyrir að láta tiltölulega fáa þjóðfélagsþegna bera þennan kostnað.

Ég vænti þess, að þm. taki þessu máli vel og sú n., sem fær það til meðferðar, afgreiði það á sem skemmstum tíma, það fari að styttast í það, að þetta réttlætismál nái fram að ganga.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að þessari till. verði vísað að lokinni þessari umr. til síðari umr. og hv. fjvn.