27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég held ég hafi ekki gefið tilefni til þess með þeim orðum, sem ég sagði hér áðan og algerlega voru bundin við þetta mál, að fara að ræða marga þætti byggðamálanna, fara að ræða um höft og þess háttar, og þá væntanlega, hverjir stóðu að því að koma þeim á á sínum tíma o. s. frv., en þeir voru margir, sem áttu þar hlut að. Hitt er svo annað mál, að það er ekki nokkurt viðlit, hvorki fyrir 1. flm. þessarar till. né aðra flokksbræður hans að koma sér fram hjá þeim staðreyndum, að það sem gerðist í sambandi við við vöruflutningana á 12 ára stjórnartímabili þeirra, var, að gegnumgangandi vöruflutningagjöld voru afnumin, voru lögð niður, og annað hitt, sem hafði ekki lítil áhrif á þróun vöruflutninganna í þá átt að beina þeim yfir á dýrari leiðir en þurft hefði, hvernig búið var að Skipaútgerðinni á þesssum 12 árum, eftir að sú, ég vil segja: bylting hafði orðið í samgöngumálum þjóðarinnar, sem kom með fluginu og gerði óhjákvæmilegt, ef halda átti í horfinu hvað snerti vöruflutningana, að hafizt væri handa um skipulag þeirra. Ef ég hef sýnt einhver geðvonzkueinkenni, meðan ég rifjaði upp þessa sögu, verður það að afsakast með því, að þetta er búið að koma við landsbyggðina. Við vitum af þessu á Austfjörðum, og vafalaust vita þeir af því líka á Vestfjörðum, hvað það hefur kostað á þessum 5–10 árum, sem liðin eru, síðan farið var að afnema þessi gegnumgangandi vörufarmgjöld, og hvað meðferðin á Skipaútgerðinni hefur kostað okkur, eins og hún var á þessum tíma, svo að það verða menn þá að virða mér til vorkunnar, ef móti vilja mínum hefur gætt einhverrar geðvonzku, þegar ég var að rifja upp þessa sögu, sem ómögulegt er annað en rifja upp í sambandi við mál eins og þetta.

Ég hélt a. m. k., að ég hefði tekið skýrt fram, — og ég get þá endurtekið það nú, — að höfuðatriðið nú í dag er auðvitað að snúa sér að verkefninu. Og ég fagna því, að álagahamirnir hafa fallið af hv. þm., flm þessarar till., og þeir eru komnir hér nýir og betri menn í þessum efnum. Ég fagna þessari liðveizlu. Ég get líka bætt því við, því að ég vil gjarnan láta það koma hér fram, að ég tel, að allur efnislegur undirbúningur þessarar till. og sú gagnasöfnun, sem hv. flm. hefur unnið að í sambandi við undirbúning till., sé mjög til fyrirmyndar. Ég held ég hafi ekki tekið það fram áður, en vil gjarnan láta það koma fram. Hitt er svo annað mál, eins og ég gat um, að á einstaka stað í grg. er orðalag varðandi liðna tímann í hæpnasta lagi að mínum dómi, það er svo annað mál. En aðalatriðið er, að till. er vel undirbúin, og þær ábendingar, sem þar eru settar fram, tel ég allar næsta skynsamlegar.

Ég sé ekki neina ástæðu til að vera að taka upp neitt pex um þetta. Hv. 1. flm. afsakar þá breytingu, sem varð á flutningakjörunum á viðreisnarárunum, með því, að þau hafi ekki verið bundin í lögum. En það var verðlagseftirlit öll þessi ár, og ég held það sé engin afsökun fyrir hví að hafa látið þetta fara svona eins og það fór. Ég held, að stjórnarvöld hafi haft alla burði til þess að koma í veg fyrir þessa þróun, sem varð varðandi flutningakjörin innanlands, ef vilji hefði verið fyrir hendi.