13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

296. mál, samkeppnishættir erlendra skipasmíðastöðva

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt öðrum hv. þm. till. til þál. um könnun á samkeppnisaðstöðu íslenzka skipasmíðaiðnaðarins við erlendan. Till. fékk ekki afgreiðslu á því þingi, en ég endurflutti hana ásamt öðrum flm. þegar í upphafi þessa þings, á þskj. 12. Hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera könnun á samkeppnisaðstöðu íslenzks skipasmíðaiðnaðar við erlendan, einkum í þeim löndum, sem nú eða í náinni framtíð smíða fiskiskip fyrir Íslendinga. Könnunin skal einkum taka til samanburðar á beinni og óbeinni fyrirgreiðslu viðkomandi ríkisstjórna til skipasmíðaiðnaðarins, samanburði á skattlagningu hans, mismunandi vinnulaunum, vinnutíma svo og þeim þáttum, sem valda mestu um misjafnan beinan og óbeinan launakostnað skipasmíðastöðvanna í hinum ýmsu löndum, og enn fremur skal samanburðurinn ná til misjafnrar aðstöðu til innkaupa á vélum, tækjum og efni til smiðanna. Niðurstaða könnunarinnar verði til leiðbeiningar stefnu Alþ. og stjórnvalda um nauðsynlega fyrirgreiðslu við Íslenzkan skipasmíðaiðnað. “

Þegar ég mælti fyrir till., en það var 26. okt. s. l., sagði ég m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil með einföldu dæmi, leitast við að lýsa því, um hversu óeðlilega samkeppni getur verið að ræða milli erlends skipasmíðaiðnaðar og innlends. Mér hefur verið tjáð af mönnum, sem ættu að þekkja til, að ríkisstyrkir á hvern togara, sem samið var um smíði á suður á Spáni fyrir nokkrum árum á föstu verði, u. þ. b. 150 millj. kr., nemi 45 millj. kr. á skip. Þetta merkir, að upphaflegt tilboð spænsku skipasmíðastöðvanna væri í raun 195 millj. kr. í hvert skip á föstu verði. Nú herma fregnir, að þrátt fyrir þetta tapi stöðvarnar um 20 millj. kr. á hverju skipi og séu fyrir þær sakir að komast í rekstrarþrot. Þetta merkir, að raunverulegt kostnaðarverð hvers skips fyrir Spánverja er 215 millj. kr.:

Einnig segir í framsöguræðu minni með þessari till.: „Spurningin er, hvort hægt sé að hugsa sér, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður geti raðsmíðað skuttogara, þegar slíkir samkeppnishættir ríkja, við þann aðbúnað, sem honum er nú búinn frá hálfu stjórnvalda:

Út af því, sem komið er á daginn í þessum efnum úti á Spáni og hér hefur verið gert að umræðuefni m. a. í fyrri fsp., vil ég enn ítreka þetta mál, því að mér er það næsta óskiljanlegt, hversu treg stjórnvöld eru til að sinna þessu nauðsynjamáli, þrátt fyrir það að vakin hefur verið athygli á því á þingi bæði í fyrra og núna. Eins og ég gat um áðan, hélt ég þessa ræðu 26. okt. hér á hv. Alþ., en á fyrra þingi flutti ég þessa till. einnig með öðrum flm.

Ég held, að ef þessi könnun hefði verið gerð, hefði komið miklu fyrr í ljós, hvað var þarna að gerast, og þá hefði ekki verið við þann vanda að glíma fyrir íslenzk stjórnvöld, sem nú þarf að ráða fram úr. Því leyfi ég mér að bera fram þá fsp. til hæstv. iðnrh., sem er á þskj. 335.