13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

193. mál, endurvarpsstöðin á Gagnheiði

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um bætta þjónustu sjónvarps á Austurlandi.

Eftir að ég lagði hér inn fsp. mína, hefur ýmislegt komið fram varðandi mál þetta í sjónvarpsviðtali við yfirverkfræðing Landssímans, og er það sannarlega að vonum, að ástandið í sjónvarpsmálum eystra sé gert að umtalsefni. Austfirðingar greiða afnotagjald af sjónvarpi eins og aðrir landsmenn, og það hlýtur að vera krafa þeirra að fá eins jafna aðstöðu við aðra til að njóta sjónvarpsefnis og mögulegt er. Það er því ekki aðeins spurning mín, heldur og Austfirðinga yfirleitt, sem hér er fram borin. Hér er hún fram borin vegna óvenjuslæms ástands í vetur, eins og glögglega kom fram í nefndu sjónvarpsviðtali, þar sem upplýst var, að í Neskaupsstað t. d. hefðu 12 útsendingardagar fallið brott frá miðjum des. Hér um hafa illviðri að nokkru valdið, og skal það viðurkennt. En þeir eru líka töluvert margir, dagarnir, sem falla brott um sumartímann, og manni býður í grun, að ekki sé alltaf brugðið svo fljótt við sem vera ætti til viðgerða.

Í öðru lagi og ekki síður eru það svo myndgæðin, sem oft eru vægast sagt léleg. Ég hef orðið þess var í vetur, að ef myndin á skerminum er örlítið óskýrari en venjulega, þ. e. a. s. hér í Reykjavík, er beðizt auðmjúklega afsökunar af hálfu sjónvarpsins. Ef fyllsta jafnréttis væri gætt í þessum efnum, er ég hræddur um, að afsökunarbeiðni til Austfirðinga yrðu nokkru rúmfrekari í dagskránni, en þar munu gilda aðrar reglur og óæðri hjá þessari ágætu stofnun.

Vegna hvors tveggja: tíðra og langvarandi bilana á Gagnheiðarstöðinni og eins hinnar óskýru myndar, sem við Austfirðingar þurfum oft að búa við, er þessi fsp. fram borin.