14.03.1973
Efri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

160. mál, löndun loðnu til bræðslu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en mig langaði aðeins til að drepa á eitt eða tvö atriði í sambandi við loðnuna og þá alveg sérstaklega drepa á það fyrst, hversu stór þáttur loðnan er að verða í okkar atvinnulífi og þjóðarbúskap. Ég hef látið gera smáyfirlit yfir þau verðmæti, sem ætla má, að sköpuð verði eða unnin verði til útflutnings úr því loðnumagni, sem þegar hefur borizt á lund á þessari vertíð. Það eru um 330 þús. smálestir af loðnu, sem þegar hafa veiðzt, og talið, að úr þessu magni megi vinna frysta loðnu, sem nemur 17 þús. smálestum, loðnumjöl 46 950 smálestir og loðnulýsi 9400 smálestir. Áætlað fob-verðmæti þessara sjávarafurða eru: loðnan 470 millj. kr., loðnumjölið 1560 millj. kr. og loðnulýsið 170 millj., eða samtals 2200 millj. eða 2.2 milljarðar kr. Það er ástæða til að ætla, að á þessari loðnuvertíð muni aflast, eins og horfir, a. m. k. 400 þús. smál. af loðnu, e. t. v. meira. Ef 400 þús. smál. berast á land, mundi verðmætið í útflutningi nema um 2.6 milljörðum kr.

Þegar gerðar voru áætlanir um loðnuvertíðina í vetur, sem birtust í „Úr þjóðarbúskapnum“ á s. l. hausti, var gert ráð fyrir því, að um 380 þús. lestir af loðnu mundu veiðast. Í millitíðinni gerðist það svo, að langsamlega stærsta og öflugasta verstöðin, Vestmannaeyjar, hefur orðið nær því að öllu leyti úr leik, en í Vestmannaeyjum er hægt að vinna á hverjum sólarhring í tveimur fiskimjölsverksmiðjum úr 2 þús. tonnum af loðnu, og það er þróarrými í Vestmannaeyjum fyrir um 25 þús. smál. af loðnu. Ef við berum þetta saman við helztu loðnugöngusvæðin, þá eru Austfirðir frá Vopnafirði suður til Hornafjarðar með afkastagetu, sem nemur tæplega 4 þús. smál. á sólarhring og þróarrými um 53 þús. smál. Ef Vestmannaeyjar eru bornar saman við allt þetta svæði, lætur nærri, að þær séu með afköst og þróarrými, sem nemur um helmingi af öllu Austfjarðasvæðinu. Reykjanessvæðið mundi svo koma með um 2500 smál. afköst, þar af Reykjavík ca. 1000 smál., og um 35 þús. smál. þróarrými, þannig að allt Reykjanesið er litlu stærra en Vestmannaeyjar einar. Þrátt fyrir þetta hefur það gerzt, að þær áætlanir, bjartsýnar áætlanir, sem gerðar voru um loðnuvertíðina, virðast ætla að standast og fullkomlega það.

Það, sem ég vildi undirstrika í þessum fáu orðum, er, hversu mikill þáttur loðnuveiðarnar eru nú í þjóðarbúskapnum. Það er áætlað, að á þessu ári muni útfluttar sjávarafurðir nema um 15500 millj., miðað við loðnuafurðir 2200 millj. kr. Ef hlutur loðnunnar verður 2.6 milljarðar, þá er hér um að ræða um 17% af heildarútflutningi sjávarafurða á öllu árinu. En þetta leiðir aftur hugann að því, hvort hægt sé með sæmilegu móti og án þess að festa mjög mikið fjármagn að auka þessi afköst frá því, sem nú er. Nú er það á almannavitorði, að þrátt fyrir meiri skipulagningu í loðnulöndun og meiri flutninga frá einu svæði til annars, þá er það samt svo, að veiðiskipin liggja sólarhringum saman án þess að geta losnað við aflann. Þess vegna hlýtur það að vekja menn til umhugsunar um nauðsyn þess að athuga möguleika á aukningu móttökuskilyrða, þróarrýmis fyrir loðnuna, og einnig afkastagetuna.

Það hefur á undanförnum árum verið uppi mikil gagnrýni í sambandi við uppbyggingu síldarverksmiðjanna víðs vegar um landið, og margir hafa talið, að það hafi verið fest of mikið fjármagn í síldarverksmiðjunum. Þetta er alveg rétt, ef miðað er við árin, þegar síldin gengur ekki að landinu og loðnan ekki heldur. En í ár er augljóst mál, að hundruð millj. fara forgörðum, vegna þess, að við höfum ekki aðstöðu til þess að vinna þennan afla, sennilega meira en hundruð millj., kannske milljarður eða meira. Þetta vekur upp hugleiðingar um okkar land og okkar auðlindir, sérstaklega við sjávarsíðuna, sem eru þannig, að fiskigöngurnar ganga misjafnlega að landinu, á misjöfnum tímum og með misjöfnum hætti. Þetta eru okkar mestu auðlindir, og þess vegna er nauðsynlegt að fjárfesta í vinnslustöðvum, bæði í fiskimjölsverksmiðjum eða síldarverksmiðjum og hraðfrystihúsum, miklu meira fjármagn en nauðsynlegt er til þess að vinna allan aflann. Aflinn berst að í toppum, aflatoppum, og þá verður að grípa aflann, hráefnið, og gera úr honum sem mest verðmæti. Það er deilt um þetta, eins og kunnugt er. Sumir telja, að það sé sóun að festa of mikið fé t. d. í hraðfrystihúsum og í síldarverksmiðjum og miða þar mjög við aflatoppana. Ég er á þeirri skoðun og vil leggja áherzlu á það sjónarmið, að miða eigi fjárfestinguna að mjög verulegu leyti við það, að við getum hagnýtt það hráefni, sem að berst og gert úr því verðmæta vöru, þó að því miður hagi svo til, að á milli standi þessar vinnslustöðvar stundum auðar. En svona er okkar land, og svona eru okkar auðlindir.

Ég vildi aðeins vekja máls á þessu í sambandi við þetta mál. Um þetta mætti tala langt mál, en ég vildi nota tækifærið og koma þessum hugleiðingum á framfæri í sambandi við þetta sjálfsagða mál, sem hér er til meðferðar.