20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

196. mál, opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 373 hef ég leyft mér að flytja fsp. til hæstv forsrh. varðandi framkvæmd þál. frá 16. maí 1972 um gerð áætlunar um opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi, en ályktunin var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi. Verk þetta skal unnið í samráði við sveitarstjórnir í kjördæminu og byggt m. a. á þeim athugunum, sem unnið hefur verið að á vegum Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi um framtíðarþróun þessa svæðis:

Þáltill. þessi var flutt af fulltrúum allra flokka og samþ. shlj. á hv. Alþ.

Fyrir nokkrum árum var hafinn undirbúningur að áætlanagerð á vegum Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi. Upphaflega var ætlunin að athuga sérstaklega atvinnumálaþáttinn, og tókst strax samstarf við Reykjavíkurborg um þá áætlunargerð. Það kom í ljós, að ekki var unnt að gera atvinnumálaáætlun, sem byrjað var á fyrir Reykjavík, nema líta til alls höfuðborgarsvæðisins. Þegar farið var að skipuleggja þetta samstarf þótti einsýnt, að allt Reykjaneskjördæmi yrði að athuga samtímis. Veruleg vinna hefur þegar verið innt af hendi, gerðar mannaflaspár o. fl. og ályktanir af þeim dregnar.

Framkvæmdir sveitarfélaga og ríkisins eru í svo mörgum atriðum samtvinnaðar, að áætlanir um opinberar framkvæmdir verða ekki gerðar, svo að gagni sé, nema ríkið og sveitarfélögin starfi saman að slíkri áætlanagerð. Sú atvinnumálaáætlun, sem ég gat um áðan, var raunar aðeins fyrsta skrefið í alhliða áætlanagerð fyrir allt kjördæmið. Slík áætlun gat ekki orðið verkefni sveitarfélaganna einna, þar sem hún spannar yfir verkefni, þar sem stefnumörkun er að mestu hjá ríkisvaldinu, auk þeirra verkefna, þar sem sveitarfélögin ráða mestu. Svo að ég nefni dæmi um opinbera þjónustu eða verkefni, þar sem stefnumörkun er að mestu hjá ríkisvaldinu, þá eru það í fyrsta lagi samgöngumál, þar undir vegamál, hafnamál, flugmál og póst- og símaþjónusta. Í öðru lagi fræðslumál, í þriðja lagi heilbrigðismál og í fjórða lagi orkumál, þ. e. raforkumál og hitaveitur. Allt er þetta þó að meira eða minna leyti háð samstarfi ríkisins og sveitarfélaganna.

Með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins var svo ákveðið, að sú stofnun skyldi vinna að áætlanagerð, og fellur það verkefni undir áætlanadeild. Í 8. gr. l. segir, að deildin geri áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land með það fyrir augum að skapa landsmönnum öllum fulla atvinnu og eðlileg lífsskilyrði og stuðla að heilbrigðri byggðaþróun. Í 10. gr. l. er það ákvæði, að byggðaáætlanir skuli gerðar í samráði við sveitarstjórnir og landshlutasamtök sveitarfélaga, svo og landshlutasamtök verklýðsfélaga og atvinnurekenda. Með þessum lögum var Framkvæmdastofnun ríkisins því falið ákveðið frumkvæði í áætlanagerð. Með hliðsjón af því, svo og því, sem ég áður nefndi, að verkefni sveitarfélaga og ríkisins væru í svo mörgum og veigamiklum atriðum samofin, var fyrrgreind þáltill. flutt.

Spurningar mínar til hæstv. forsrh. eru þessar:

„1. Er hafin vinna við gerð áætlunar um opinberar framkvæmdir í Reykjaneskjördæmi, eins og ríkisstj, var falið að láta gera, sbr. þál. frá 16. maí 1972?

2. Ef svo er, hverjir vinna að áætlanagerðinni og í hvaða mæli hefur samstarf verið haft við Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi?“