20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

8. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Allshn. hefur íhugað þessa till., sem er á þskj. 8, og vil ég leyfa mér fyrst alls að lesa upp till. sjálfa. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. til breytinga á kosningalögum með það fyrir augum að auðvelda utankjörfundaatkvgr.“ Eins og fram kemur í grg. fyrir þessari till., er hún í raun og veru bundin við tvö meginatriði :

Í fyrra lagi á að auðvelda utankjörstaðaatkvgr. þeim kjósendum, sem erlendis dveljast, þegar kosningar nálgast. Sá hópur er nokkuð stór og hefur farið vaxandi á liðnum árum, að sjálfsögðu er einkum um að ræða námsfólk, sem sækir skóla víða um lönd, enn fremur ýmsa aðra þegna. Það eru mörg dæmi þess, hversu þessu fólki hefur oft og tíðum verið gert erfitt fyrir um að neyta atkvæðisréttar síns. Jafnvel hefur það oftlega komið fyrir, að það hefur verið því algerlega ókleift, svo þröngar eru þær lagareglur, sem gilda um utankjörfundakjör. Það er óþarft að víkja nánar að þeim reglum, sem um slíkt kjör fjalla, þær eru öllum hv. þm. kunnar. Einnig er þeim lýst í grg. að nokkru og þó fremur í ræðu frsm. um till.

Það er flestra mál, sem hafa hugsað og fjallað um þetta efni, að full þörf væri á því að freista þess að breyta þessum þröngu lagaákvæðum, þannig að það yrði til rýmkunar og auðveldunar kjósendum að neyta réttar síns. Sýnist með öllu ótækt að viðhalda reglum, sem svipta fólk í mjög ríkum mæli þessum mjög dýrmæta, en þó torsótta rétti, ef nokkur kostur er að bæta úr því. Það er skoðun mín og okkar nm. allra, að þar hljóti að vera unnt að koma hæfara lagi á. Frá utanrrn. hefur n. t. d. borizt hugmynd, sem okkur í n. finnst athyglisverð, þess verð, að hún sé skoðuð mjög nákvæmlega. Ég leyfi mér að víkja aðeins að henni í örfáum orðum, þ. e. a. s. að meginatriðum hugmyndarinnar.

1) Kjósandi erlendis óskar þess með bréfi eða í símskeyti til kjörstjórnar sinnar, að hún sendi honum kjörseðil. 2) Þá athugar kjörstjórnin, hvort viðkomandi aðili sé á kjörskrá. Ef svo er, sendir kjörstjórn viðkomanda kjörseðil í ábyrgðarpósti ásamt nauðsynlegum leiðbeiningum. 3) Kjósandi útfyllir kjörseðilinn, er þar að kemur, lokar honum og fer með hann til íslenzks ræðismanns, og um leið á hann að sanna með vegabréfi eða á einhvern annan tryggilegan hátt, hver hann sé. Við seðilinn er svo fest skjal með sams konar eða líkum texta og fylgir að jafnaði utankjörfundarseðli. En neðst á þessu viðfesta skjali komi svo tilheyrandi og textabundin yfirlýsing viðkomandi ræðismanns eða þess, sem kjósandinn leitar til, að viðkomandi hafi undirritað skjalið, sem fest er við kjörseðilinn. Þarna er ekki gert ráð fyrir vitundarvottum, eins og annars er venja, og engar innfærslur í bækur af hálfu ræðismanns. Síðan er búið vel um kjörseðil og hann ásamt viðfestu skjali fenginn í hendur kjósandans, sem síðar sér um sendinguna til kjörstjórnar.

Þessi er hugmyndin, sem hefur komið fram hjá utanrrn. En á sínum tíma sendi kosningalaganefnd, sem var sett á laggirnar og í starfi, að ég hygg, á árinu 1971, beiðni um, að ráðuneytið líti á þetta mál og kæmi með hugmyndir um, hvernig bezt væri að leysa það og tryggilegast, en þó um leið, að reglur yrðu ekki eins strangar og þær eru í lögum. Þetta verður að sjálfsögðu allt að vega og meta, og það verður gert í sambandi við þáltill., sem hér er til umræðu, þegar og ef hún verður samþykkt. En hvað sem öllu öðru líður, þá er alveg ljóst, að það verður að færa lagaákvæði að þessu leyti til rýmra og réttlátara forms, svo sem nokkur kostur er.

Þá kem ég lítillega að hinu atriðinu, sem í raun og veru þarf að fjalla jafnframt um og er vikið að í grg. fyrir till., nefnilega því, að eðlilegt sé, um leið og ráðin er bót á aðstöðu kjósenda erlendis að neyta réttar síns, að taka til endurskoðunar ákvæði um utankjörfundakjör, að því er snertir þá, sem vegna heilsubrests komast ekki til kjörstjóra. Margt af því fólki hefur að sjálfsögðu áhuga og í raun og veru getu og fullan vilja á að taka afstöðu til kosninga. En í þessu efni er væntanlega nokkru erfiðara um vik til úrbóta. Heimakosningar svokallaðar hafa jafnan verið nokkur þyrnir í augum margra á liðnum tíma, og hefur jafnan þótt rétt að hafa nokkuð strangar reglur að því er þær varðar. Það er mikill vandi á höndum að sjálfsögðu, að semja í þessu efni reglur, svo að ekki sé slakað á nauðsynlegum kröfum um, að frá öllu sé tryggilega gengið. Við nm. höfum ekki tekið þetta atriði nema aðeins til orðræðu okkar á milli, en ekki tekið beina afstöðu til þess og sízt, hvernig leysa skuli þetta eða hvaða reglur eigi upp að taka. Ekki hafa heldur legið neinar sérstakar hugmyndir fyrir n. um það, hvað til bragðs skyldi taka, að því er þetta mál varðar. Við teljum samt eðlilegt og líkur fyrir því, að leiðir finnist til að rýmka nokkuð um gildandi lagaákvæði, og að það sé nauðsynlegt að finna einhvern hæfilegan flöt, sem mætti verða til þess að byggja á og bæta um í, þessu efni.

Við höfum fengið umsögn frá Dómarafélagi Íslands, og ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér meginefni þeirrar umsagnar, sem er á þessa leið:

„Stjórn félagsins er sammála þeirri meginstefnu, sem kemur fram í till., að þeim, sem kosningarrétt hafa, sé auðveldað að neyta hans, en leggur jafnframt áherzlu á, að ekki sé slakað á þeim kröfum um tryggilegan umbúnað við utankjörfundakosningar, sem almennt koma fram í IX kafla núgildandi laga um kosningar til Alþingis.“

Aðrar umsagnir hafa ekki borizt, en frá fleiri aðilum var óskað umsagna, og verður við svo búið að standa.

Að lokum, eins og segir í nál. frá allshn., mælir n. einróma með samþykkt till., en hins vegar hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að hafa frjálsar hendur um að bera fram brtt. eða fylgja slíkum.