31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

40. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessar fsp. skýra sig sjálfar og þeim er hægt að svara í mjög stuttu máli. Spurt er um það, hvað rúm sé fyrir marga fanga í íslenzkum fangelsum og til hve margra daga fangelsisvistar menn hafi verið dæmdir á ári s.l. 3 ár. Enn fremur, hversu margir menn eiga óafplánaða fangelsisdóma og í hversu marga daga. Og í síðasta lagi, hversu margir þeirra manna, sem hlotið hafa dóm, hafi brotið af sér á ný, meðan þeir bíða þess að afplána dóm sinn.

Í örfáum setningum skal ég skýra, hvers vegna þessi fsp. er fram borin. Mér hefur verið tjáð, án þess að ég hafi fengið um það nákvæmar tölur, sem ég nú spyrzt fyrir um, að ekki sé hægt að framfylgja öllum þeim fangelsisdómum, sem dæmdir hafi verið á undanförnum árum, vegna skorts á húsrými. Og þá er eðlilegt, að það sé upplýst, hversu margir menn eiga óafplánaða fangelsisdóma vegna skorts á fangelsishúsnæði, og þá í hversu marga daga. Enn fremur hefur mér verið tjáð, að fyrir hafi komið, að menn hafi endurbrotið af sér á þeim tíma, þegar ekki hefur verið hægt að láta þá afplána dóm vegna skorts á fangelsishúsnæði. Ef þetta er rétt, er það að sjálfsögðu mjög alvarlegt ástand að menn, sem hafa dóm á sér, skuli ekki vera látnir afplána hann, en halda áfram afbrotaferli sínum. Frekari skýringar þarf ég ekki að gefa á fsp. og vænti þess að fá svar hjá hæstv. dómsmrh.