22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

160. mál, löndun loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Hér er um lítið frv. að ræða, sem þegar hefur farið í gegnum Ed. og hlotið afgreiðslu þar. Gert ráð fyrir í þessu frv. að gera nokkra breytingu á tiltölulega nýsettum lögum um skipulag á löndun á loðnu til bræðslu. Er gert ráð fyrir í frv., að upp verði komið sérstökum flutningasjóði og greiðslum í hann, eins og segir í 1. gr., og að loðnulöndunarnefnd, sem lögin gera ráð fyrir, stjórni greiðslum úr þessum sjóði. Eftir þessari breyt. er óskað að samkomulagi þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, þ. e. a. s. útvegsmanna, sjómanna og verksmiðjueigenda. Hér er því um fullkomið samkomulagsmál að ræða, og í rauninni hefur þetta verið í framkvæmd að undanförnu. Vil ég því vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar hér í deildinni, afgreiði það fljótlega, enda er hér um mjög einfalt mál að ræða og ólíklegt, að hér sé um nokkurn ágreining að ræða.

Ég vil, herra forseti, óska eftir því, að þessu frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. sjútvn.