31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

267. mál, ölvun á almannafæri

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er altalað hér í Reykjavík og raunar kunnugt veafarendum öllum, sérstaklega í miðbænum, að á götum þar eru vanheilir menn, sem komast hvað eftir annað í kast við lögregluna, eða lögreglan sér sig tilneydda til þess að handtaka, þó að hún hafi lítil skilyrði til þess að verða þeim til hjálpar, því miður. En menn, sem hafa afskipti og náinn kunnugleika af málefnum ofdrykkjumanna, telja, að það tíðkist óeðlilega mikið, að menn séu handteknir, haldið skamma stund í varðhaldi og síðan sleppt aftur lausum, síðan séu þeir handteknir aftur, jafnvel næsta dag, kannske eftir viku, kannske eftir 10 daga, þannig að það gerist, að maður sé handtekinn oft í sama mánuðinum, alla vega mjög oft á sama árinu. Ef þetta er svo, þá hygg ég, að það væri gott fyrir þá, sem vilja þessu vanheila fólki vel, að fá staðfest, að svo sé, vegna þess að það mundi vekja almennari áhuga en nú virðist fyrir hendi. á því að rétta þessu fólki þá hjálparhönd, sem það á skilið og mundi eflaust hafa mjög gott af.

Þessi fsp. er eingöngu borin fram til þess að fá það opinberlega staðfest, hvort það sé rétt, að sömu sjúklingarnir séu hvað eftir annað fangelsaðir, oft á ári, oft á mánuði, jafnvel oft í viku, án þess að hægt sé að rétta þeim nokkra varanlega hjálparhönd. Ég ætlast einungis til staðfestingar á þessu eða að fram komi, að þetta sé ekki staðreynd, og vona síðan, ef það kemur í ljós, að þessi fsp. á við rök að styðjast, að það verði til þess að hvetja bæði löggjafa og yfirvöld til þess að rétta því fólki, sem hér er um að ræða, betri hjálparhönd en nú á sér stað.