27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Fsp. þessari var beint til Seðlabankans, sem hefur með fyrirgreiðslu í þessum málum að gera, og svar bankans við þessum fsp. er á þessa leið:

„Seðlabankanum hefur borizt bréf yðar dags í dag, varðandi ofangreinda fsp. Í því tilefni vill Seðlabankinn taka eftirfarandi fram að því er varðar spurningu 1:

Eftir að lögum um veðtryggingu iðnrekstrarlána voru sett hinn 13. maí 1972, hóf Seðlabanki Íslands undirbúning að setningu reglna um veitingu slíkra lána. Unnið var að undirbúningnum í samráði við viðskiptabankana, og voru hinn 8. nóv. s. l. settar reglur um endurkaup á víxlum og framleiðslulánum iðnaðarins, sem fylgja hér með í ljósriti.

Eins og segir í fréttatilkynningu frá bankanum sama dag, eru fjármögnunarvandamál iðnaðarins að ýmsu leyti frábrugðin vandamálum sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem um miklu meiri fjölbreytni vörutegunda er að ræða og framleiðslu- og sölutíminn mjög mislangur. Þessi fjölbreytni vörutegunda veldur því, að framleiðslulánakerfið til iðnaðarins verður mun flóknara heldur en lán út á tiltölulega samkynja framleiðslu sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem um fáar vörutegundir er að ræða.

Með tilliti til þeirrar þýðingar, sem örvun útflutningsiðnaðarins hefur, var sú stefna mótuð í upphafi, eins og fram kemur í framangreindri tilkynningu, að leggja megináherzlu fyrst í stað á lán út á iðnaðarvörur til útflutnings. Jafnframt er stefnt að því, að til greina komi endurkaup vegna iðnaðarvara fyrir innlendan markað, þegar um er að ræða mikilvægar framleiðslugreinar og sérstakrar fjármögnunar er þörf, m. a. vegna árstíðabundinnar framleiðslu og sölu, enda sé þar um að ræða lítið tollverndaða framleiðslu.

Eftir að reglur Seðlabankans voru settar hinn 8. nóv. 1972, hófu viðskiptabankarnir undirbúning að þessum lánveitingum. Frá upphafi var af hálfu þeirra stefnt að samræmingu á þessum lánveitingum, og störfuðu nokkrir samstarfshópar að undirbúningi lánanna. Seðlabankinn tók ekki beinan þátt í þessum undirbúningi, en fulltrúar hans fylgdust með störfum hópanna.

Fyrsta fsp. varðandi framleiðslulán barst Seðlabankanum 19. jan. s. l. Síðan hafa bankanum borizt umsóknir og fsp. vegna samtals 17 fyrirtækja frá 4 viðskiptabönkum og einum sparisj. Af þessum umsóknum hefur þegar verið samþykkt lánveiting til 6 aðila, þar af til tveggja að hluta. Af þessum 6 aðilum er þegar hafin lánveiting til tveggja, en upplýsingar vantar enn frá 4 aðilanna, til þess að hægt sé að hefja lánveitingu. Bráðabirgðalán hafa verið veitt til fjögurra aðila, þar sem ýmis tæknileg vandamál gera það erfitt fyrir að taka þessa aðila að sinni inn í hina reglubundnu lánveitingu. Einni umsókn hefur verið synjað, en beðið er eftir viðbótarupplýsingum frá þremur aðilum, og í athugun hjá Seðlabankanum eru 3 umsóknir. Auk þessa hafa frá 8. nóv. s. l., verið veittar fyrirgreiðslur í 10 tilfellum upp í væntanlegar umsóknir, þar sem um er að ræða framleiðslu, sem gera má ráð fyrir, að komi undir lánveitingar þessar, og er það ekki meðtalið hér að framan. Af þeim umsóknum og fsp., sem borizt hafa, voru 5 vegna fyrirtækja með hreina útflutningsframleiðslu, 4 fyrirtæki voru með blandaða framleiðslu, bæði á innlendum og erlendum markaði, og 8 framleiða eingöngu fyrir innlendan markað.

Að því er varðar spurningu 2:

Augljóst var, að það gæti tekið nokkurn tíma að koma föstu skipulagi á lánveitingar sem þessar, og má þá hafa það í huga, að það fyrirkomulag, sem nú er á endurkaupum vegna hana til sjávarútvegs og landbúnaðar, þróaðist um árabil. Því var í upphafi lögð á það megináherzla, að sem fyrst væri unnt að veita útflutningsiðnaði sambærilega fyrirgreiðslu að þessu leyti eins og annarri útflutningsframleiðslu, og hefur útflutningsiðnaðurinn því verið látinn ganga fyrir. Það er þó ætlunin, að framleiðslulánakerfið nái til annars iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað. Enn sem komið er, hefur þó þótt rétt að setja þar þau takmörk, að um lítið tollverndaða framleiðslu sé að ræða.“

Þetta er það svar, sem fyrir liggur frá Seðlabankanum varðandi málið, og ég ætla, að meginatriðunum í fsp. hv. þm. sé þar með svarað á fullnægjandi hátt. Það er sem sagt unnið að því að koma þessum lánum í það horf, sem ætlað hefur verið. Það er vissulega gengið út frá því, að allur útflutningsiðnaður fái sams konar lánafyrirgreiðslu eða jafngildi þess, sem sjávarútvegur og landbúnaður fá. Út frá því er almennt gengið. Og þegar ég hef leitað eftir því í einstökum tilvikum, hvernig þessu væri háttað, hefur greinilega komið í ljós, að svo væri.

Varðandi lánveitingar af þessu tagi út á framleiðslu, sem er hugsuð til sölu á innanlandsmarkaði, þá er ofureðlilegt, að það taki nokkurn tíma að koma reglum um það í framkvæmd. Einnig er það, að það er gefið mál, að þau fyrirtæki, sem sækja um lán samkv. þessum reglum, verða að uppfylla viss fjármálaleg skilyrði, svo að það er ekki þar með sagt, að allir geti fengið þessi lán. Það sama á sér stað um þá, sem eru að framleiða fyrir erlendan markað í sambandi við sjávarútveg. Það er sem sagt stefnt að því að þróa þetta kerfi og auka þessar lánveitingar, bæði varðandi útflutningsiðnað og eins iðnað, sem framleiðir sérstaklega fyrir innlendan markað, og mér sýnist, að unnið sé að þessu á eðlilegan hátt.