02.04.1973
Neðri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. og dómsmrh., er þetta frv., sem hér liggur fyrir, flutt af ríkisstj. samkv. þáltill. sem samþ. var á síðasta þingi, en þá flutt af öllum þm. Reykn. Það höfðu verið uppi óskir um það hjá ýmsum forustumönnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, að gerð yrði breyting á skipan sýslumarka, sem auðveldað gæti Suðurnesjamönnum ýmislegt varðandi opinberan málarekstur. Þáltill. gerði ekki ráð fyrir neinni ákveðinni breytingu, en í þessu frv. er lagt til, að Garða- og Bessastaðahreppar flytjist úr Gullbringusýslu í Kjósarsýslu, þannig að hægt verði með þessari breytingu að koma fram þeirri hagræðingu, sem óskað hafði verið eftir af hálfu þeirra Suðurnesjamanna. Ég geri ráð fyrir því, að það sé ósk allra okkar þm. úr Reykn., að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi, og ég vonast til þess. að sú n., sem fær mál þetta til meðferðar, fái tækifæri til þess að afgreiða það hið fyrsta.