03.04.1973
Sameinað þing: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

213. mál, loðna til manneldis

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Hv. varaþm. Bragi Sigurjónsson og ég höfum leyft okkur að flytja á þskj. 433 till. til þál. um þurrkun loðnu til manneldis. Hugmyndin að þessari till. er komin norðan úr Mývatnssveit. Þar höfðu áhugamenn tekið sér fyrir hendur í síðasta mánuði eða á síðustu vikum að gera nokkra tilraun til þess að þurrka loðnu við jarðvarma. Nú er það ljóst, að loðnan er mikilvægt hráefni, og þegar þau ósköp sem nú veiðast hér við land, þá er þýðingarmikið, að reynt sé að gera sem allra verðmætasta vöru úr loðnunni.

Fyrir nokkrum árum var byrjað að frysta loðnu, og sú framleiðsla hefur aukizt mjög verulega á síðustu árum og varan fyrst og fremst veri seld til Japans. Nú á allra síðustu vikum hefur verið farið að sjóða niður loðnu, og enn eru Japanir kaupendur, og mér er sagt, að Sölustofnun lagmetis og sjávarafurðadeild SÍS hafi selt nú þegar til Japans niðursoðna loðnu fyrir um 20 millj. kr., algerar reynslusendingar. Það er mikill áhugi á þessari vöru, og þarna er loðnan orðin verðmest. Það er því alveg vafalaust, að þennan iðnað þarf að efla mjög sterklega á næstunni. Nú þegar eru til nokkrar verksmiðjur í landinu, sem geta soðið niður loðnu, svo að dæmi séu nefnd: í Hafnarfirði, Akureyri, Neskaupstað og kannske víðar. Ef eftirspurnin er jafnmikil og framkvæmdarstjóri Sölustofnunar lagmetis hefur sagt okkur, er hér um mjög verulega möguleika að ræða.

Þessi till. er um það að fela hæstv. ríkisstj. að gera á því alvarlega athugun, hvort ekki sé enn hægt að fá meiri fjölbreytni út úr þessu mikilsverða hráefni, nefnilega að þurrka loðnuna. Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir, að stofnun eins og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins muni vinna að þessu máli, og það getur vel verið, að það hafi þegar farið fram einhverjar tilraunir í þessu efni, þó að okkur sé ekki kunnugt um það. En það er auk þess mikilsvert, ef það er rétt, sem áhugamennirnir við Mývatn hafa fullyrt, að hægt sé að nota jarðvarmann til þessarar þurrkunar.

Markaðsmálin í þessum efnum eru auðvitað stór þáttur, en hér kemur Sölustofnun lagmetis enn til skjalanna, sem ætti að geta gert á því ítarlegar athuganir, hvort slík vara eins og þurrkuð loðna kynni að vera markaðsvara á japönskum markaði eða annars staðar.

Það, sem fyrir okkur vakir, er fyrst og fremst að leggja áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því, að viðeigandi tæknilegar rannsóknir verði gerðar á því sviði að gera þetta hráefni, sem er svo gífurlega mikið af, að sem verðmætastri útflutningsvöru fyrir okkur Íslendinga. Mér finnst dæmið um niðursoðnu loðnuna, vera mjög sláandi um það, að það er ýmislegt hægt að gera í þessum efnum. Ég held, að menn hafi ekki átt von á þessum markaði fyrir niðursoðna loðnu. En reynslan sýnir, að áhuginn er svo mikill að það ganga skeytasendingar og símtöl heimshlutanna á milli til þess að ganga úr skugga um það, að við Íslendingar getum framleitt upp í þær fyrirspurnir og beinu pantanir, sem hafa verið að berast. Þó hefur ekki verið mjög mikið að þessum málum í raun og veru unnið enn þá einfaldlega vegna þess, að það er svo stuttur tími, síðan þessi markaður var uppgötvaður.

Þetta mál um þurrkun á loðnu þarf auðvitað mikillar athugunar. Okkar till. er, að ríkisstj. beiti sér fyrir þessu og geri það sem fyrst.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. atvmn.