06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst svara þeim fsp., sem til mín hefur verið beint, og þá fyrst af hv. 2. þm. Norðurl. e., sem hér var að ljúka máli sínu. Hann spyr um það, í fyrsta lagi, hvort ég telji, að sómasamlega sé séð fyrir fjárhag fiskveiðasjóðs eða möguleikum hans til að standa við skuldbindingar sínar á árinu og standa undir þeim lánveitingum, sem honum er ætlað að standa undir, með því, sem hér er gert ráð fyrir, og því sem er gert ráð fyrir í þeirri áætlun, sem gerð hefur verið um útlán fjárfestingarlánasjóðanna. Það er rétt hjá hv. þm., að nýendurskoðuð áætlun stjórnar fiskveiðasjóðs um útlánaþörf sjóðsins á yfirstandandi ári gerði ráð fyrir því, að sjóðurinn þyrfti að hafa 1.730 millj. kr. til útlána. En samkvæmt þeirri áætlun, sem nú er miðað við, og þeim tekjum, sem hér er gert ráð fyrir, mundi sjóðurinn ekki hafa fjármagn nema sem næmi í kringum 1.600 millj. kr. til útlána. Ég tel fyrir mitt leyti, að mjög sómasamlega sé séð fyrir fjárþörf sjóðsins með þessari áætlun, þótt sé nokkuð undir þeirri áætlun, sem sjóðsstjórnin hafði gert. Slíkt átti sér einnig stað á s.l. ári og hefur alla jafna verið gert. Það verður að hafa í huga, að hér er um að ræða útlánaáætlun, en ekki fyrir fram gerðar skuldbindingar. Mikill meiri hlutinn af þeirri fjárhæð, sem hér er um að ræða, er aðeins áætlun um hugsanleg útlán á árinu. Eins og ég sagði er t.d. gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður geti samkvæmt þessari áætlun lánað til fiskvinnslustöðva, bygginga og framkvæmda á árinu 500 millj. kr. á móti rétt rúmlega 300 millj. kr. til hins sama á s.l. ári. Það er í rauninni ómögulegt að segja um það með neinni nákvæmni í upphafi ársins, hversu mikil þessi lán kunna að verða. Þau fara eftir framkvæmdamagni hinna ýmsu aðila. Hvað komast þeir yfir að gera? Hvað ráða þeir við sjálfir? Sömuleiðis er það, að áætlað er að lána vegna innanlandssmíði skipa 700 millj. kr., en var á s.l. ári um 538 millj. kr. Það er satt að segja mjög vafasamt, að skipasmíðastöðvunum takist að ,skila af sér þetta miklu meira verkefni en var á s.l.. ári. Það getur þá ekki gert annað en það í þeim efnum, ef svo tækist til, að þær kæmust yfir miklu meiri skipasmíðar en árið áður, að eitthvað af þessu kynni að dragast yfir á næsta ár á eftir. Sömuleiðis er það, að hér er gert ráð fyrir ákveðinni fjárhæð til lánveitinga vegna endurbyggingar gamalla skipa og til tækjakaupa. Þar er einnig um talsvert miklu hærri upphæð að ræða en var árið á undan. Hér er því einnig um áætlun að ræða, og ég tel eftir atvikum, að fjárhag sjóðsins sé mjög sæmilega borgið með þeirri áætlun, sem hér er miðað við. Ég er líka á þeirri skoðun, að þarna verði í öllum tilfellum, ekki aðeins hjá fiskveiðasjóði, heldur öðrum stofnlánasjóðum, að setja sér eitthvert mark, það sé ómögulegt að starfa hér þannig, að alltaf verði að liggja fyrir fjármunir til útlána, eftir því sem pantanir berast um lán á hverjum tíma. Þar verða stjórnir allra stofnlánasjóða að setja sér eitthvert mark og sætta sig við að vinna innan þess marks, svo framarlega sem um eðlilega áætlun er að ræða. Ég ætla, að hér sé um að ræða hækkun á útlánum fiskveiðasjóðs úr rúmlega 1.200 millj. kr. upp í 1.600 millj., hér sé um slíka hækkun að ræða, að það verði að telja, að hér sé sæmilega að staðið, þótt ekki sé gert ráð fyrir meiri útlánum.

Þá spurði hv. 2. þm. Norðurl. e., hvað ég segði um hin svonefndu 10% viðaukalán til skipabygginga vegna skipasmíði innanlands. Það er rétt, sem kom fram hjá honum, að þessi mál heyra ekki undir mig í sjálfu sér, ekki nema á þann óbeina hátt, að það er verið að veita þessi lán út á fiskiskip, sem smíðuð eru hér innanlands. Þessi lán eru hreinlega stuðningslán, veitt innlendri skipasmíði. Og það hefur verið afstaða þeirra, sem hafa haft með höndum stjórn á málefnum fiskveiðasjóðs, og ég er á sömu skoðun, að þessi lán eigi ekki að falla undir fiskveiðasjóð sem slíkan. Lög fiskveiðasjóðs gera ráð fyrir því, að veitt sé nokkuð hærra lán, þegar um skipasmíði innanlands er að ræða, þ.e.a.s. að þá sé hámarkslán 75% af kostnaðarverði, en ef um er að ræða fiskiskip, sem smíðað er erlendis, sé hámarkslán 67%, þ.e.a.s. hér er um 8% hærri lán að ræða, þegar smíðað er innanlands. Ég tel fyrir mitt leyti, að ekki komi til mála, að fiskveiðasjóður sem slíkur eigi að veita meiri lánamismun vegna smíði innanlands en sem þessu nemur. Hitt get ég vel viðurkennt, að það geti verið þörf á því að styrkja eða styðja innlendar skipasmíðar, á meðan þær eru að búa betur um sig og verða færari í samkeppni við þær erlendu, með slíkum viðbótarlánum eins og hér hafa verið nú um nokkurt skeið, þar sem veitt hafa verið 10% viðaukalán vegna smíði innanlands. Þetta er því í rauninni hreint iðnaðarmál í sambandi við innlendu skipasmíðarnar. Það er rétt, að það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um það í ríkisstj., hver skuli hafa kvæmdastofnun ríkisins hefur haft með þessar það leiki enginn vafi á því, að það sé ætlunin að halda þessum lánum áfram. Það hefur verið hafður sá háttur á, að byggðasjóður eða framkvæmdastofnun ríkisins hefur haft með þessar lánveitingar að gera og útvegað hefur verið nokkurt fé í þessu skyni, þótt e.t.v. hafi byggðasjóður þurft að leggja eitthvað af sínu fé þarna til viðbótar, það skal ég ekki segja um. En á s.l. ári var útvegað sérstakt viðaukafé fyrir byggðasjóð vegna þessara lánveitinga.

Afstaða mín er sem sagt þessi, að ég tel, að það komi ekki til mála að fara að blanda þessum lánveitingum saman við lán fiskveiðasjóðs. Ég vil fyrir mitt leyti aðgreina lán hans frá þessum lánum algerlega, en tel, að það þurfi að halda áfram þessum lánum, og ég er sammála hv. þm. um, að það þarf að liggja alveg ljóst fyrir, að þeir, sem láta smíða skip sín innanlands, eigi að fá þessi lán. Um það má ekki vera nein óvissa. Menn þurfa að vita það fyrir fram. Þá þarf auðvitað að sjá um fjármagn í þessu skyni, miðað við það, hvað reiknað er með miklum viðbótarlánum af þessu tagi.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist á það, eins og hv. 2. þm. Reykv., að mál þetta kæmi óþægilega seint fram og hefði verið ástæða til að leita eftir samkomulagi um afgreiðslu þessara fjáröflunarmála. Ekki vil ég neita því, að það hefði verið einhver ástæða til þess. En ég vil hins vegar minna þessa hv. þm. á það, að þegar þeir fóru hér með stjórn mála, þótti ekki nauðsynlegt að bera þetta undir okkur í stjórnarandstöðunni og leita eftir samkomulagi við okkur. Við sáum frv. af þessu tagi nokkrum sinnum og ólíkt stærri og meiri mál en þetta koma fram á þingi á síðustu stundu. En ég er hins vegar ekkert að undanþiggja mig því, að það er galli að þurfa að leggja fram stór frv. í þinglok. Það væri líka fyllsta ástæða til þess að reyna að ná samkomulagi um afgreiðslu mjög stórra mála. En hér er ekki um nein ný vinnubrögð að ræða að þessu leyti frá því, sem áður hefur verið.

Ég vil leiða hér algerlega hjá mér almennar umr. um fjáröflun til annarra stofnlánasjóða. Það eru mál, sem ég tel, að liggi ekki hér fyrir til umr. nú, heldur frv. sem er verið að ræða um, þ.e.a.s. um fiskveiðasjóð og málefni hans. Ég vil segja það alveg skýrt, að því fer fjarri, að fjárhag fiskveiðasjóðs hafi verið þannig háttað eða sé þannig háttað nú í dag, að það hafi verið nokkurt vandræðaástand. Fiskveiðasjóður er fjárhagslega mjög öflugur sjóður, einn öflugasti lánasjóður í þessu landi að eigin fé, og hann hefur getað staðið við sínar skuldbindingar á mjög eðlilegan hátt. Það er hins vegar alltaf nokkurt álitamál í sambandi við lánveitingar fiskveiðasjóðs, hvað langt á að ganga á þeirri braut að taka erlend lán til framlána, en það gefur hins vegar auga leið, að við komumst ekki hjá því að taka talsvert mikil erlend lán í sambandi við útlán fiskveiðasjóðs. Það er alveg útilokað að mínum dómi að halda hér uppi miklum skipasmíðum innanlands á þann hátt, að ekki séu tekin einhver erlend lán í sambandi við þær framkvæmdir. Við höfum um mjög langan tíma yfirleitt keypt okkar dýrari fiskiskip með þeim hætti, að við höfum fjármagnað þau kaup með lánum erlendis. Við höfðum í mörg ár þær reglur, að allir, sem keyptu fiskiskip erlendis frá, urðu að semja á þeim grundvelli, að þeir fengju stóran hluta af kaupverðinu lánaðan til minnst 5 ára, síðan 7 ára og nú síðast í 8 ár. Hlutverk fiskveiðasjóðs hefur því um langt árabil verið þannig, að hann hefur fyrst og fremst tekið að sér að lengja þessi lán og tekið sem sagt á sig stofnlánavandann stig af stigi. En um leið og horfið er að því að byggja mikið af skipunum hér innanlands, eykst lánavandinn svo ört, að það eru engar líkur til þess, að hægt sé að standa undir þeim lánum, nema tekin séu erlend lán að meira eða minna leyti, og fiskveiðasjóður fái þau lán. Svipað má segja um framkvæmdir á vegum ýmissa fiskvinnslustöðva. Þar er oft um að ræða vélakaup í stórum stíl, og hefur þótt eðlilegt á undanförnum árum að taka erlent lán í sambandi við slíkar framkvæmdir, og það er gert enn. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að þegar lánveitingar fiskveiðasjóðs vaxa mjög hratt, eins og nú á sér stað, vegna gífurlega mikilla framkvæmda á vegum fiskiðnaðarins í landinu og einnig vegna óvenjumikilla skipasmíða innanlands sé eðlilegt, að tekjur sjóðsins séu auknar. Og þegar það er einnig haft í huga, að gildandi lagareglum um fiskveiðasjóð hafði verið breytt í tíð fyrrv. ríkisstj., fiskveiðasjóði stórlega í óhag, þannig að dregið var úr þeim tekjum, sem fiskveiðasjóður átti að hafa samkvæmt lögum, með því að framlag ríkissjóðs var minnkað á móti öðrum tekjum, sem sjóðurinn hafði, þá er ekki óeðlilegt, að sótt sé eftir því að auka tekjur fiskveiðasjóðs nokkuð, eins og hér er lagt til, að vísu um stuttan tíma eða 21/2 ár, vegna þeirra sérstöku verkefna, sem nú er við að glíma.

Það er ósköp auðvelt að segja, eins og kom hér fram hjá hv. 2. þm. Reykv.: það vantar fé í stofnlánasjóðina, það vantar fé til framkvæmda, en hafa svo engar till. fram að færa sjálfur, heldur bara almennt nudd, tala um það, að ef þetta sé lagt á sjávarútveginn, þá sé það skattur á hann, ef það sé lagt á ríkissjóð, þá sé það skattur á landsmenn. Það er rétt eins og hv. þm. hafi helzt komið það til hugar, að til væri einhver leið, þannig að hægt væri að afla fjárins án þess að nokkur borgaði það. Hér þýðir vitanlega ekkert annað en að horfast í augu við veruleikann. Það er auðvitað hægt að reka fiskveiðasjóð áfram, eins og gert hefur verið, með þeim tekjum, sem hann hefur búið að, og láta hann aðeins taka meira af erlendum lánum og framlána þau. Það er tiltölulega auðvelt. Eða á heldur að fara þá leið, sem upphaflega var mótuð varðandi tekjur fiskveiðasjóðs, að sjávarútvegurinn sem heild leggi fram nokkuð í sjóðinn frá sér og ríkið viðurkenni uppbyggingu sjóðsins með því að leggja fram álíka fjárhæð á móti. Þetta er sú stefna, sem hér hefur verið ríkjandi í þessum málum um margra ára skeið.

till., sem hér er gerð um það að leggja á sjávarútveginn 1% útflutningsgjald á verðmæti sjávarafurða þýðir það, að allir þeir, sem að sjávarútveginum standa, eru hér að leggja á sig nokkurt aukagjald, útvegsmenn og sjómenn, og ég ætla, að þeir muni ekki skorast undan því í sambandi við þær framkvæmdir, sem þeir eiga sjálfir að búa að, þótt þetta sé gert, enda er gengið út frá því, að þessi sjóður veiti þessum aðilum hagkvæmari lán en almennt er hægt að fá í krafti þess, að þessir aðilar hafa sjálfir lagt fé í sjóðinn við að byggja hann upp. (Gripið fram í: Hefur verið haft samráð við þessi samtök?) Já, ég átti eftir að svara því. Ég skal svara því. Það er rétt, það hefur ekki verið haft neitt formlegt samband við samtök sjávarútvegsins um þessi mál, en hins vegar liggja fyrir margar samþykktir um, að það beri að gera útlán fiskveiðasjóðs sem hagkvæmust fyrir sjávarútveginn og efla beri sjóðinn. Þessi till. er við það miðuð, að tekjur sjávarútvegsins af útflutningi fari nú mjög vaxandi. Þegar þær fara vaxandi er auðvitað um það að ræða, að fiskverð geti hækkað, og hægt er þá að ganga út frá betri afkomu í sjávarútvegi en áður hefur verið, eða þá að sú leið er farin, eins og líka hefur verið gert á þessu ári, að taka þó nokkurn hluta af hækkandi verðlagi og leggja í verðjöfnunarsjóð, eins og á sér stað í allríkum mæli á þessu ári. Það er skoðun mín, að það sé eðlilegra að láta þann hluta, sem hér er um að ræða, renna til fiskveiðasjóðs heldur en að auka greiðslur sjávarútvegsins í verðjöfnunarsjóð. Og það er vitanlega það, sem fyrst og fremst mundi gerast í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, að greiðslur sjávarútvegsins í verðjöfnunarsjóð yrðu þetta miklu minni sem nemur því gjaldi, sem hér er um að ræða.

Nei, það er í rauninni ekki hægt að leyfa sér að halda þannig á þessum málum, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði í sinni ræðu, að segja, að fjárþörf sjóðanna sé ótvíræð, þeir þurfi á auknu fé að halda, en geta svo ekki hugsað sér neina leið til þess að leysa þennan ótvíræða vanda. Mér væri mjög kært, ef hv. þm. vildi koma hér með nýjar till. um það, hvernig ætti að leysa þennan vanda.

Hér hefur verið gerð sú athugasemd, að með þessu frv. sé m.a. verið að leggja til, að ríkissjóður taki á sig á þessu ári nýjar fjárskuldbindingar, og það sé rétt að nokkru leyti. Það er gert ráð fyrir því samkvæmt frv., að tekjur fiskveiðasjóðs gætu aukizt á síðari hluta þessa árs um allt að 150 millj. kr. og af því ættu að koma frá ríkissjóði um 75 millj. kr. Þetta framlag ríkissjóðs mundi að venju ekki koma til fiskveiðasjóðs nema að sáralitlu leyti þá á þessu ári, vegna þess að hér er um greiðslu á útflutningsgjaldi að ræða. Sú framleiðsla, sem á sér stað á síðari hluta ársins, er að mjög verulegu leyti flutt út á næsta ári á eftir. Ég held því, að samkvæmt þessu frv. sé ekki um miklar aukagreiðslur að ræða á ríkissjóð á þessu ári, en greiðslan kæmi að sjálfsögðu á næsta ár. Hér er um að ræða fjárskuldbindingu fyrir ríkissjóð fyrir 21/2 árs tímabil, en greiðsluskyldan mundi auðvitað ná yfir nokkuð lengra tímabil en til ársloka 1975, vegna þess að hér er um mótframlag að ræða á móti útflutningsgjaldi.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist hér á ýmis atriði mjög almenn eðlis, sem ég skal ekki fara að eltast við hér, nema aðeins víkja að örfáum atriðum til leiðréttingar. Hann sagði, að ég hefði samið við sjávarútveginn um s.l. áramót, um niðurfellingu á tilteknu gjaldi, sem næmi í útgjöldum fyrir ríkissjóð 160 millj. kr. á ársgrundveili. (Gripið fram í: Tekjumissi.) Já, eða tekjumissi. En þetta er rangt. Þetta nemur ekki, samkvæmt útreikningi, nema á milli 80 og 90 millj. kr., sem koma ekki heldur til greiðslu úr ríkissjóði að öllu leyti á þessu ári, heldur kemur það að eðlilegum hætti, samkv. innheimtureglum. ekki fyrr en á árinu þar á eftir. Ég hef heyrt þessar fullyrðingar nokkrum sinnum áður, en þetta er rangt. Hér er ekki um það að ræða. En það samkomulag varðaði líka allt annað en það, sem hér er um að ræða. Þar var um að ræða samninga, sem snerta rekstrargrundvöll útgerðarinnar miðað við það tímabil, sem var verið að semja fyrir. Hins vegar varðar uppbygging sjóðanna í rauninni allt annað og er líka miðuð við allt annað tímabil. Ég hefði ekki lagt það til um s.l. áramót að leggja á sjávarútveginn 1% viðaukaútflutningsgjald. það hefði mér ekki dottið í hug þá. En það er orðin breytt aðstaða. Og nú tel ég, að það sé ekki óeðlilegt, að lagt sé á þetta gjald, miðað við þær stórkostlegu breytingar, sem orðið hafa á útflutningsverði sjávarafurða síðan. Það verður að sjálfsögðu samið á nýjan leik við sjávarútveginn, bæði sjómenn og útvegsmenn, um nýtt fiskverð nú í júnímánuði n.k., og þá verður auðvitað tekið fullt tillit til þessa nýja gjalds, verði það samþykkt, og samningar allir miðaðir við þessi útgjöld, sem þá eru orðin. En eins og ég hef sagt, þá eru þessar till. miðaðar við það, að nú hafi skapazt aðstæður til þess, að sjávarútvegurinn geti greitt sjálfum sér á þennan hátt þetta framlag og það sé betur komið í fiskveiðasjóði, eins og sakir standa, en leggja það í verðjöfnunarsjóð.

Þá minntist hv. 2. þm. Reykv. á sérstök skilyrði fiskveiðasjóðs í sambandi við lánveitingar hans og komst þá jafnvel upp í það, að vextir af slíkum lánum gætu komizt í 17—18%. Ég þykist sjá, að hv. þm. sé hér að fara með atriði, sem hann veit ekki nægilega um, en ég verð að játa líka, að ég þekki það ekki, að slíkt geti átt sér stað varðandi lán út á skip, því að um það gilda alveg fastar reglur hjá fiskveiðasjóði. Það eru alveg föst fyrirmæli um lánstímann, vextina og almenn skilyrði um það, að taka má allt að 3/5 af gengisáhættu á hverjum tíma. Þetta, sem hann var að greina frá varðandi framlán á spariskírteinalánum, getur verið til allt annarra framkvæmda á vegum fiskveiðasjóðs og úr fiskveiðasjóði til allt annarra framkvæmda. Þá hefur það verið siður í fiskveiðasjóði, föst regla, að hann lánar yfirleitt það fé, sem hann tekur að láni, með sams konar kjörum og hann tekur það. Hann hefur tekið örlitið af þessum spariskírteinalánum og lánað út til alveg sérstakra hluta. En það eru ekki lán, sem ganga til kaupa á skipum eða venjulegra skipalána, sem eru með öðrum kjörum.

Ég held að sjávarútvegsmenn hafi aldrei kvartað undan því, — mér er ekki kunnugt um það, þó að þeir hafi gert það á ýmsum tímum — að greiða nokkurt gjald til fiskveiðasjóðs. En hitt er annað mál, að þeir hafa gert margar samþykktir um að vilja losna undan ýmiss konar öðrum gjöldum, sem lögð hafa verið á þá. Slíkum gjöldum hefur verið létt af í ýmsum greinum. Hv. þm. minntist á, að það hafi verið gert ráð fyrir því að létta slíkum gjöldum af. Ég vil nefna eitt atriði í þeim efnum, sem hefur skipt sjávarútveginn allverulegu máli. Létt var af söluskatti á olíu, einni aðalnauðsynjavöru útgerðarinnar. Þessi skattur var felldur algerlega niður, og það munar að sjálfsögðu allverulega í rekstrinum. Það er hins vegar rétt, að það mætti létta þarna af miklu fleiri gjöldum, og þarf vissulega að vinna að því, að það verði gert, því að það er búið á undanförnum árum að stafla þarna upp margvíslegum útgjaldaliðum. Einn af þessum útgjaldaliðum var sá launaskattur á aflahlut sjómanna, sem lagður var á í tíð fyrrv. ríkisstj. og hv. 2. þm. Reykv. var hér einmitt að minnast á, að ég hefði samið um við útvegsmenn að létta af þeim nú um síðustu áramót. Sá launaskattur var alltaf mjög ósanngjarn, að leggja hann á aflahlutinn, því að aflahluturinn hreyfist ekki eftir vísitöluútreikningi eins og önnur laun. Það er öllum kunnugt, að þessi launaskattur var beinlínis lagður á með þeirri röksemd, að hann kæmi í staðinn fyrir beinar launagreiðslur, sem annars hefðu orðið með hækkandi vísitölu. Útvegsmenn fundu að þessu og gerðu margsinnis kröfu um, að hætt yrði að innheimta þennan launaskatt af aflahlut sjómanna, en útgerðin verður að borga þennan launaskatt af öllum launagreiðslum og í sambandi við allar sínar framkvæmdir verður vitanlega útgerðin og öll fiskvinnslan að borga launaskatt. Hér er aðeins um það að ræða, að það er hinn eiginlegi aflahlutur sjómanna, sem þarna er undanþeginn.

Nú, ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vi1 ætla, að þrátt fyrir þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram og sumpart hafa verið fullkomlega eðlilegar, en aðrar sprottnar af því, að menn hafa afskaplega mikla þörf fyrir að skammast almennt um málið, og við því er í rauninni ekkert að segja, að það geti í rauninni orðið samstaða hér á hv. Alþ. um það, að fiskveiðasjóður fái þær auknu tekjur, sem hér er gert ráð fyrir, og menn viðurkenni, að eins og tekjum sjóðsins er nú orðið háttað og miðað við þær stórkostlegu framkvæmdir, sem hann á að veita lán til og nú ganga yfir í þjóðfélaginu, sé ekki óeðlilegt, að ríkið taki á sig þann hluta, sem hér er gert ráð fyrir, og það þegar atvinnugreinin sjálf leggur á sig jafnmikið og hér er lagt til að hún geri. Þetta er að vísu gert af minni hálfu í fullu trausti þess, að sjávarútvegurinn verði fær um það að standa undir þessu gjaldi áfram. Ég geri mér vonir um það, eins og sakir standa nú. Hvað verður á næstu árum, skal ég ekki um segja, en ég geri mér vonir um, að hann eigi að geta staðið undir þessu gjaldi og þeir, sem eiga að njóta, í þessu tilfelli sjávarútvegsmenn allir, skorizt ekki undan því að taka þetta á sig, ef ríkið vill leggja fram sinn hlut.