09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

237. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja hér umr., enda ástæðulaust. Ástæðan til, að ég stend hér upp, er eingöngu sú, að ég hef áður gert þetta mál að umtalsefni og lýst sömu skoðun og hv. 10. landsk. þm. varðandi fjölgun dómara í hæstarétti, að það væri ekki hægt að una þeirri fjölgun, nema sú breyting yrði gerð, sem nú hefur verið lagt til, að gerð verði, með því frv., sem hæstv. fjmrh. hefur lagt hér fram. Eins og hv. 10. landsk. þm. sagði, reyndist þetta vera mjög einfalt mál og hefði því ekki þurft að velta fyrir sér þessu frv. í allan vetur í hv. allshn., því að þetta mál varðandi eftirlaunaréttinn er auðvitað alveg sérstaks eðlis og á ekkert skylt við spurninguna um það, hvaða eftirlaun menn kunni að fá vegna lífeyris, sem þeir hafa tryggt sér úr ýmsum sjóðum. Það mál er allt annars eðlis og er ekki á neinn hátt sambærilegt við þetta mál, sem hér liggur fyrir. Það mál liggur ekki hér fyrir, þannig að það er ástæðulaust að vera að gera það að umtalsefni. En ég vil aðeins taka það fram, að ég er algerlega samþykkur þessu frv., sem hæstv. fjmrh. hefur lagt hér fram, og hef því ekki uppi neinar frekari mótbárur gegn því, að frv. um hæstarétt verði afgr. í trausti þess, að þetta frv. verði einnig afgreitt sem lög á þessu þingi.