06.11.1972
Neðri deild: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um þetta mál, sem hér er til umr. Í fyrra, þegar frv. var lagt fram um sama mál, tók ég ekki til máls, en ég fylgdist með því, hvað því frv. var aðallega fundið til foráttu. Og þegar við berum saman það frv. og frv., sem hér liggur nú fyrir, þá er sýnilegt, að flm. hafa viljað taka til greina að verulegu leyti það, sem fundið var að fyrra frv. Ég tel flm. þetta til hróss og að það út af fyrir sig sýni og sanni, að þeir vilja hafa samráð við þá, sem hafa með framkvæmd mjólkursölumálanna að gera.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði frá fundi, sem var haldinn nýlega með stjórnum Mjólkursamsölunnar, Mjólkurbús Flóamanna og Mjólkursamlags Borgfirðinga, og þar hefði verið samþykkt till. um það að lýsa skoðun fundarins á þessu frv. Það út af fyrir sig er ekki nema eðlilegt og ágætt, að fundur eins og þessi lýsi afstöðu sinni til málsins. En það verður að ætla, að fundarmenn hafi athugað það alveg til grunna. Till. endar á því, að það sé alveg fráleitt, að þessu fyrirkomulagi verði breytt án samráðs við þá, sem hafa með þessi mál að gera. Ég hygg nú, að flm. vilji ekkert annað frekar en hafa einmitt samráð við þá menn, sem með stjórn Mjólkursamsölunnar fara, og við framleiðsluráð landbúnaðarins. Mér er kunnugt um það, að í fyrra, eftir að frv. hafði verið rætt hér í þinginu, eftir að það hafði verið til meðferðar í hv. landbn, og framleiðsluráði sent það til umsagnar, gerði framleiðsluráð ályktun um, að skipuð yrði n. til þess að fjalla um þessi mál og hvort æskilegt væri að gera breytingar á fyrirkomulagi Mjólkursamsölunnar og dreifingu mjólkur og hvernig þær breytingar ættu þá að verða. Þetta fannst mér eðlileg afstaða hjá framleiðsluráði. Það var vilji þess, að það yrði skipuð n. til þess að athuga málið. En af hverju var þessi n. ekki skipuð? Þess vegna er það, að þetta frv. er fram komið, án þess að fjallað hafi verið um breytingar, sem margir telja nauðsynlegt, að verði til við framkvæmd á þessum málum. En ég tel líklegt, að úr því að n. var ekki skipuð og úr því að framleiðsluráðið taldi í fyrra sjálfsagt að athuga þessi mál, þá hafi framleiðsluráðsmenn og þá sennilega líka stjórn Mjólkursamsölunnar hugsað um málið og hvaða breytingar væru eðlilegar. Ég geri alveg ráð fyrir því. Og vitanlega hlýtur stjórn Mjólkursamsölunnar og framleiðsluráð að fá þetta frv. sent til umsagnar. það hlýtur hv. landbn. að gera. Og þá hafa þessir aðilar tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, sem ég tel alveg nauðsynlegt og sjálfsagt.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að mjólkurframleiðslan væri í hættu, m.a. vegna styttingar vinnutímans og af fleiri ástæðum. Þetta má vel vera. En ég vil eigi að síður vera það bjartsýnn, að það verði þannig búið að framleiðslunni, að það þyki borga sig að framleiða mjólk, því að án mjólkur getur þjóðin ekki verið. Og eitt er alveg víst, að flutningur þessa frv., hvort sem má finna að því mikið eða lítið, gefur ekki tilefni til þess, að dregið verði úr framleiðslu mjólkur, Það er alveg útilokað. Þetta frv. hefur ekki áhrif á það. Það er ætlazt til þess með flutningi frv., að bændur beri engan kostnað af því eða kjör þeirra rýrni ekki, þótt það yrði að lögum óbreytt og því síður ef það væri lögfest með einhverjum breytingum, sem að vel athuguðu máli teldust vera til bóta. En eigi að síður er eðlilegt, að þeir, sem eru í stjórn Mjólkursamsölunnar, og þeir, sem hafa með þessi mál að gera, séu tregir til þess að samþykkja breytingar, og það er eðlilegt, að þeir vilji, að málin séu skoðuð alveg frá grunni, og þótt ég sé ekki í stjórn samsölunnar, þá vil ég það eigi að síður. Ég vil ekki, að það verði flanað að neinu í þessu efni.

Ég tel, að þetta frv. sé ekki flutt í neinni ádeilu á Mjólkursamsöluna. Ég tel, að Mjólkursamsalan í Reykjavík hafi á margan hátt verið vel rekin. Og ég er sannfærður um það, að stjórnendur hennar hafa viljað gera á hverjum tíma sitt bezta. Og í seinni tíð hefur stjórn samsölunnar, eins og fram hefur komið, veitt mjólkursöluleyfi. Það voru hér áður, eins og menn vita, engar kjörbúðir til, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar á landinu. Þá voru eingöngu mjólkurbúðir til þess að selja mjólk og mjólkurvörur. Þá voru eingöngu kjötbúðir til þess að selja kjöt og kjötvörur. Það má vel vera, að það séu enn til búðir, sem selja eingöngu kjöt og kjötvörur. En fyndist mönnum nú ekki fráleitt að neita kjörbúð um kjöt? Væri það ekki alveg fráleitt, að búð, sem hefur verið innréttuð til að hafa matvörur af öllum tegundum, sé neitað um kjöt, af því að áður fyrr voru margar búðir, sem seldu eingöngu kjöt? Er þetta ekki eitthvað svipað, ef við athugum þetta allt saman öfgalaust og hlutlaust? Nú, þegar kjörbúðirnar eru komnar, er ekki lengur þörf fyrir að hafa mjólkurbúðir eingöngu, eins og var. Og er það ekki alveg fráleitt, að kjörbúð, sem fullnægir öllum settum reglum, heilbrigðisreglum, fái ekki mjólk til sölu? Mér finnst það. En hvort þetta mál verður leyst með því að samþykkja þetta frv. eins og það er eða á annan hátt, það vil ég ekkert full,yrða um í dag. En ég er alveg sannfærður um, að það verður þannig í náinni framtið, að kjörbúðir, sem fullnægja öllum skilyrðum, fá mjólk til sölu. Og það er vitanlega mikið hagræði fyrir neytendurna, en það verður líka talið hagræði fyrir framleiðendurna. Ég er viss um, að það selst meiri mjólk, ef mjólkin fæst í kjörbúðunum. Það eru mörg dæmi um það, að húsmæðurnar hafa keypt gosdrykki til þess að hafa með matnum, af því að mjólkin fékkst ekki, þar sem var verið að kaupa í matinn, og það var þó nokkur spölur í mjólkurbúðina. Þannig hefur þetta verið, og þessu þarf að breyta. En það þarf að breyta því þannig, að það verði borin klæði á vopnin, og þetta þarf að gerast deilulaust, alveg deilulaust, þegar menn hafa komið sér saman og fundið þá leið, sem er hagkvæmust.

Hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að dreifingarkostnaðurinn mundi hækka, ef breyting væri gerð. Ég vil ekki fullyrða um það. En dreifingarkostnaðurinn a.m.k. verður ekki á kostnað framleiðendanna. Það er alveg útilokað. Það er ákveðið, hvernig verðlagningin fer fram, og það getur ekki gengið út yfir hagsmuni bænda, jafnvel þótt dreifingarkostnaðurinn hækki. En hámarksálagning á mjólk getur verið eins og á öðrum vörum, og henni yrðu náttúrlega kaupmenn að hlíta.

Þá held ég, að jafnvel þótt þetta frv. væri samþykkt eða aðrar till., sem hefðu breytingar í för með sér frá því skipulagi, sem núna er, þá þyrfti það ekki að verða til þess að draga úr vöruvöndun. Það er alveg rétt, sem hér kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Sunnl., að það hefur verið kappkostað að vanda mjólkurvöruna, — mjólkina óunna og það, sem úr henni er unnið. Og það er hrósvert, að þetta hefur verið gert. Þannig hafa bændur viljað uppfylla kröfur neytenda. Þeir hafa vitað, að það mundi seljast meira með því, að varan væri góð. Og þeir hafa vitað, að með því að vanda vöruna, eins og gert hefur verið, þá hafa þeir verið að vinna bæði fyrir sjálfa sig og neytendur og fullnægja þeim skyldum, sem því fylgja að framleiða og selja svona þýðingarmikla vöru. En það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Sunnl., þegar hann var að lýsa því, hver væri tilgangur þessa frv. Ég skrifaði það hjá mér. Hann sagði, að frv. virtist aðeins hafa einn tilgang: að verða við kröfum kaupmanna um að fá mjólk. Það er alls ekki. Og það er alveg vist, að það er fjöldi kaupmanna, sem ekki fær mjólk til sölu, þótt þetta frv. yrði að lögum, vegna þess að það er fjöldi matvöruverzlana enn þá, bæði hér í Reykjavík og annars staðar úti um land, sem eru þannig, að þær gætu ekki breytt innréttingunni og komið fyrir þeim tækjum, sem þurfa að vera í nýtízku matvöruverzlun, sem tekur að sér sölu á mjólk, skyri og rjóma. Þess vegna er ekki víst, að breytingin yrði svo ýkjamikil á næstu árum, jafnvel þótt frv. yrði lögfest í þessu skyni. Og með þeim breytingum, sem hafa orðið á samsölusvæðinu hér sunnanlands, þá hefur þar verið sum árin sáralítið af kjörbúðum, sem voru tilbúnar til þess að taka mjólk til sölu. Menn verða að minnast þess, að það er ekki langt síðan kjörbúðirnar urðu almennar hér á landi. Við sjáum það, þegar við göngum hér um Reykjavík og þegar við ferðumst um landið, að matvöruverzlanir eru víða í þannig húsakynnum, að þær geta ekki orðið kjörbúðir í því formi, sem til er ætlazt, og hafa enga aðstöðu til að taka að sér sölu á mjólk, vegna þess að þótt þessum málum verði breytt, verður að halda uppi fullkomnu heilbrigðiseftirliti og þar má ekkert slaka á kröfunum.

Ég held, að frv. hafi aðallega þrennan tilgang. Það er að verða við óskum neytanda og auka þægindi þeirra, bæði með því, að þeir eigi kost á því að ná í mjólk nær sér en áður, og í öðru lagi, að sú verzlun, sem þeir verzla við, geti sent mjólkina heim, ef þess er óskað, með öðrum vörum, sem eru pantaðar hjá kaupmanninum eða kaupfélaginu. Það eru margar verzlanir, sem senda vöruna heim. En þær geta ekki sent mjólkina heim, ef hún er ekki til í verzluninni. Og ef neytandinn vill fá aukin þægindi, verður hann og enginn annar að borga fyrir þau. Eins og ég sagði áðan, er tilgangurinn með þessu frv. eða breytingunni einnig að auka söluna. Og ég trúi því, að það geti átt sér stað, að salan aukist talsvert við það, að útsölustöðum fjölgi. Og þar er ég ekki á sömu skoðun og hv. 2. þm. Sunnl. Hann sagði, að það gæti verið tjón að því að hafa marga útsölustaði. En vitanlega verður Mjólkursamsalan eða samlagið og heildsalan að tryggja það, að þeir, sem fá mjólk, standi í skilum.

Hv. 2. þm. Sunnl. lýsti fyrirkomulaginu í Danmörk og Svíþjóð, því gjaldi, sem hefði verið tekið til þess að takmarka fjölda útsölustaðanna. Þetta gjald var ekki tekið til þess, heldur var það tekið til þess að hafa upp í kostnaðinn við að flytja mjólk á marga staði. Það út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt, vegna þess að bóndinn eða samlagið á ekki að bera uppi aukinn kostnað við breytingar, sem gerðar eru, heldur neytandinn eða kaupmaðurinn, sem vöruna fær. Og eins og það getur verið ágætt, að samsalan eða samlagið flytji mjólkina í smásöluverzlanir, þá mætti það þannig vera þannig, að kaupmaðurinn eða félagið, sem selur í smásölu, gæti farið til Mjólkursamlagsins eða Mjólkursamsölunnar og sótt mjólkina. Þá losna þeir við þetta gjald og annan kostnað.

Það er gert ráð fyrir í þessu frv., sem ég vil alls ekki útiloka, að sé heppilegt að breyta að einhverju leyti, ýmsum atriðum, til þess að breytingin gerist ekki of hratt. Það er gert ráð fyrir, að nefnd mæli með mjólkursöluleyfi, og það er 7 manna nefnd. Hv. 2. þm. Sunnl. fann að því, hvernig hún er skipuð Það hlýtur að vera til athugunar eitthvert annað fyrirkomulag á skipun n. Hvort hún á að vera skipuð 7 mönnum, 5 mönnum eða jafnvel fleiri mönnum, eða 20 mönnum, eins og er í Kaupmannahöfn, það hef ég engar till. um. Það hlýtur allt að vera til athugunar í n. og til umsagnar hjá þeim, sem fá frv. til athugunar. En það er alveg víst, að n., sem þarf að mæla með svona leyfi, verður að taka margt til athugunar, áður en hún mælir með því. Hún verður að kynna sér fjárfestingarkostnað og dreifingarkostnað Mjólkursamsölunnar með það í huga, að bændur verði ekki fyrir tjóni, þótt lögð yrði niður mjólkurbúð, af því að kjörbúð í næsta nágrenni fær mjólk. Þetta verður hún að hafa í huga, og þetta gerist ekki allt með miklum hraða, held ég. Það t.d. yrði haft í huga, hvort Sláturfélag Suðurlands ætti að fá mjólkursöluleyfi inni á Háaleitisbraut, þar sem mjólkurbúð samsölunnar er. Ég geri ráð fyrir, að það væri ekki þörf fyrir að hafa mjólk í mjólkurbúð samsölunnar, eftir að mjólkin væri komin í búð Sláturfélagsins. En sumir mundu ætla, að það ynnist eitthvað við þetta, það yrði sparnaður, það þyrfti kannske ekki að bæta við fólki í kjörbúð Sláturfélagsins, þótt hún hefði mjólk til sölu. En það væri eðlilegt, að Mjólkursamsalan fengi bættan þann kostnað, sem af því leiddi að innrétta þessa búð. Tækin, kælitækin, það er enginn vandi að koma þeim í verð, geri ég ráð fyrir. Það er verra með búðarinnréttinguna sjálfa. Búðin er sennilega öll flísalögð, bæði á veggjum og gólfi, og ef hún á að notast til annars, þá er slíkt sennilega alveg verðlaust. Og n. yrði að taka margt til athugunar, áður en hún mælir með leyfi, og svo er það stjórn Mjólkursamsölunnar, sem á að gefa út leyfið. Og það gerir hún e.t.v. alls ekki, nema hún sé örugglega skaðlaus, a.m.k. hefði hún rétt til þess að láta athuga það nánar, ef deilt væri um það.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú að vekja athygli á því, að þetta kerfi, sem hefur staðið síðan 1935 og e.t.v. var heppilegt á sínum tíma, hefur nú gengið sér til húðar. Það er eðlilegt, að það þurfi að endurskoðast nú. Eins og ég sagði áðan, voru kjörbúðirnar ekki til, það voru sérverzlanir, mjólkurbúðirnar og kjötbúðirnar. En nú er öll matvara, af hvaða gerð sem er, komin á einn atað, þar sem fyrirkomulagið er bezt. Fyrir 37–38 árum var heilbrigðiseftirlitið ekki jafnsterkt og það er nú eða aðstaðan til hreinlætis. Þá var mjólkin flutt í brúsum, og þá voru ekki kælitæki í búðunum. Þá var þetta allt saman miklu frekar á frumstigi. En nú höfum við tileinkað okkur það, sem bezt er í þessu efni, og á því á vitanlega alls ekki að slaka, ekki á neinn hátt.

Ég held, að ég hafi nú komið inn á flest þau atriði, sem hv. 2. þm. Sunnl. var að benda á áðan. Ég vil segja það, að það er eðlilegt, að bæði hann og aðrir, sem í stjórn Mjólkursamsölunnar eru, vilji athuga þessi mál vel, einnig framleiðsluráðsmenn. En ég er alveg sannfærður um, að það verður ekki til lengdar komizt upp með það að vera aðeins á móti breytingum. Það verður spurt að því, bæði framleiðsluráð og stjórn Mjólkursamsölunnar, hverjar séu þeirra till. til fyrirkomulagsbreytinga og hvort þeir séu virkilega á móti því, að kjörbúð, sem uppfylli allar kröfur, fái mjólk til sölu, hvort það eigi að reyna að telja bændum trú um, að það geti verið þeim í óhag, að kjörbúðir í kaupstöðum og kauptúnum landsins selji mjólk, hvort það geti haft áhrif til hins verra um afkomumöguleika bænda eða leitt til þess, að þeir fái minna fyrir mjólkina og mjólkurafurðirnar, að gera umræddar breytingar.

Það má vel vera, að þetta frv. sé ekki fullkomið að öllu leyti og það vanti í það eitthvað, sem tryggir betur hag framleiðandans. Ég er þó ekki sannfærður um, að það vanti mikið í það. En mér finnst, að það eigi að athuga það. Og áreiðanlega fær hv. 2. þm. Sunnl. tækifæri til þess að gera nánari grein fyrir því, ef honum finnst það vera. En það, sem hann bar hér fram áðan, var ekki rökrétt í þessu tilfelli. Bændur eiga að fá samkv. lögum grundvallarverð fyrir framleiðsluna, og þeir eiga ekki að bera tjón af dreifingunni á neinn hátt. Og áreiðanlega hefur það hvarflað að sumum í stjórn Mjólkursamsölunnar hér í Reykjavík, hvort það væri ástæða fyrir Mjólkursamsöluna og fyrir bændur að annast smásöludreifingu á mjólkinni. Það hefur hvarflað að þeim, — mér er kunnugt um það, — hvort það væri ekki heppilegast, að mjólkin og mjólkurvörurnar væru seldar í heildsölu til kaupmanna og verzlana og hvort hagur bænda gæti ekki verið alveg eins tryggður með því. Þetta hafa þeir ekki gert till. um enn, en um þetta hafa þeir hugsað. Og mér finnst eðlilegt, að þetta mál verði athugað til grunna. Ef n. hefði verið skipuð í fyrra, eins og framleiðsluráð lagði til, þá mætti vera, að hér lægi fyrir nál. með rökstuddum till. um það, hvernig breytingar mættu á þessum málum gera, sem menn væru sammála um. Og ég harma, að þetta var ekki gert. Þess vegna er það, að ég óska eftir því, að þetta mál verði skoðað af raunsæi og velvilja. Hv. 2. þm. Sunnl. sagðist eiga von á grg. frá Svíþjóð og Danmörku um dreifingu á mjólk í þeim löndum, um hvernig þar hefði gengið eftir þær skipulagsbreytingar, sem gerðar voru. Það er út af fyrir sig ágætt og getur verið lærdómsríkt að kynna sér það og sjálfsagt að lesa þær skýrslur, þegar þær koma. Ég held, að það væri einnig fróðlegt að fá slíka skýrslu frá Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi og jafnvel Hollandi. Mér er kunnugt um, að þar ríkir frelsi í þessu efni og mjólk fæst í kjörbúðum í þessum löndum. Þetta þurfum við að athuga.

Ég hygg, að það beri ákaflega fátt á milli í reynd, þegar við förum að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Það vill enginn okkar, hvort sem við teljumst vera fulltrúar bænda eða annarra, að þessum málum verði þannig breytt, að það geti orðið framleiðendum til tjóns. Það er alveg öruggt, við skulum alveg bóka það. Ég held, að það vilji heldur enginn, að þessum málum verði þannig fyrir komið, að neytendur geti ekki notið réttmætra þæginda og óska, sem þeir bera fram. Og vissulega hlýtur það að vera hagur þjóðarinnar í heild, að við notum sem mest af þessari vöru og seljum sem mest af henni, mjólkinni, óunnið, því að þá þurfum við að flytja minna út af mjólkurdufti og ostum. Þetta hlýtur okkur öllum að vera efst í huga. Þess vegna er það, að við eigum að ræða þessi mál öfgalaust og við eigum að finna það bezta, sem hægt er að fá út úr breytingunum.

Þetta frv. hefur nú verið lagt hér fram sem umræðugrundvöllur. Það fer til hv. landbn. Landbn. sendir frv. mörgum aðilum, býst ég við, til umsagnar, og það verður vitanlega fróðlegt að fylgjast með þeim till., sem fram koma í þessum málum. Og eins og ég sagði áðan, þá trúi ég því, að framleiðsluráð og stjórn Mjólkursamsölunnar hafi hugsað málið ýtarlega frá því í fyrra. Þar sem framleiðsluráð óskaði eftir því að skipa n. í málið, þá hefur því fundizt, að það gæti komið til greina einhver breyting frá því skipulagi, sem nú er ríkjandi. Það út af fyrir sig hlýtur að vera tímabært að gera breytingu í þá átt, að mjólkin fáist í þeim kjörbúðum, sem uppfylla allar kröfur, en hvernig á að framkvæma það, hvaða ákvæði þarf að setja, til þess að við höfum aðeins af því hagræði, en ekkert ógagn, það skulum við athuga og reyna að fá þær beztu till. fram, sem hugsanlegar eru í því efni.