07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

262. mál, afkomu skuttogara

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég verð að játa, að mér fannst þau nú heldur óákveðin öllsömul, og ég gat ekki fundið annað, og ég býst við, að hv. þm. séu sammála mér um það, að það sé því miður svo, að það hafi mátt lesa það út úr ræðu hæstv. ráðh., að það hafi of litlar áætlanir verið gerðar um, hvernig eigi að fara að því að ná endum saman við rekstur þess mikla skipaflota, sem við erum nú að kaupa.

Hæstv. ráðh. sagði í upphafi ræðu sinnar og vildi eiginlega afsaka það, að það hafi ekki verið gerðar meiri áætlanir um þetta en raun hæri vitni, af því að ríkið ætlaði sér ekki að reka þessi skip, það ætlaði sér að lána til þeirra, en ekki reka þau, það væru einkaaðilar, sem ætluðu að reka þau. Ég held, að allir hv. þm. hafi vitað um þetta, en jafnt þá líka, að það væri yfirleitt gerð sú krafa, þegar lánað er til fyrirtækja úr opinberum sjóðum, að það sé gert ráð fyrir því og það sé hægt að sýna fram á það með áætlunum, að viðkomandi fyrirtæki beri sig. Mér virtist á öllu máli hæstv. ráðh., að það væru ekki til greinargóðar áætlanir um þetta efni. Hann talaði mikið um óvisst aflamagn. Það er alveg hárrétt, að gera þarf ráð fyrir ýmsum forsendum í slíkum áætlunum, og þær geta aldrei verið þannig, að það sé hægt 100% að fullyrða um neitt í sambandi við þetta, en þær geta verið mjög mikilvægur leiðbeinandi þrátt fyrir það. En þrátt fyrir þessa óvíssu og það, að ekki hafa verið gerðar meiri áætlanir um þetta hjá opinberum aðilum en raun ber vitni, þá treysti hæstv. ráðh. sér til að segja það statt og stöðugt, að skipin mundu standa undir fjármagnskostnaði. Ég vona, að það reynist rétt, að skipin standi undir því, en ég gat ekki með neinu móti komið því dæmi heim og saman, hvernig hæstv. ráðh. gat fullyrt þetta, miðað við það, sem hann sagði hér. Ég vil benda á, að á tíma fyrrv. ríkisstj. voru gerðar eins góðar áætlanir og hægt var að gera um það, hver yrði afkoma bæði stærri og minni skuttogara miðað við þáverandi verðlag, og þær áætlanir lágu fyrir og sú reynsla, sem af því var hægt að draga, þannig að ég held, að hér hafi verið slaklega að unnið.