07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

262. mál, afkomu skuttogara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Mér sýnist, að hv. fyrirspyrjandi hafi enn ekki gert sér grein fyrir því, hvernig þessi mál eru í raun og veru. Ég fyrir mitt leyti hefði talið það allundarlegt, ef ég hafði verið spurður um það nú, hvort ríkisstj. væri búin að gera rekstraráætlun fyrir þá báta, sem Einar Sigurðsson, nefndur ríki, er að láta smíða norður á Akureyri. Það væri í rauninni nákvæmlega eins spurning og hann kemur fram með hér. Það er ekki beint í verkahring ríkisins að gera rekstraráætlanir fyrir einkaatvinnulífið í landinu, það gera menn sjálfir. Ég hef átt aðild að útgerðarfélagi, sem sótti um það til lánastofnana að kaupa skuttogara, og þetta félag lagði að sjálfsögðu fram sína rekstraráætlun og varð að ræða hana við forustumenn lánasjóðsins og ríkisvaldsins. Þessi rekstraráætlun þeirra, sem eru að kaupa, þarf ekki að vera eins og sú rekstraráætlun, sem ríkið kann að gera sér til glöggvunar. En það er nú svo, að það virðist vera afskaplega erfitt fyrir ýmsa þá, sem sérstaklega prédika það nú mikið, að það eigi að vera einkarekstur í landinu, að gera mun á því, hvað er einkarekstur og hvað er rekstur ríkisins.

Ég álít, að í þessum efnum hafi það verið gert af opinberri hálfu, sem við er að búast. Lánasjóðirnir hafa yfirfarið þær áætlanir, sem borizt hafa frá einstaklingum og útgerðarfélögum, og þeir hafa reynt að gera sínar áætlanir um þennan rekstur, eins og tök hafa verið á og með þær mjög svo breytilegu forsendur, sem hér er um að ræða, og það hafa opinberar stofnanir líka gert, og áætlanirnar hafa verið endurskoðaðar nokkrum sinnum. En hitt má öllum ljóst vera, sem þekkja til þessara mála, að það er erfitt að gera áætlanir af mikilli nákvæmni um rekstur af þessu tagi, á meðan slík óvissa ríkir, sem nú er hjá okkur varðandi líklegt aflamagn, og meðan enn eru ekki til samningar einu sinni um mannafjölda á skipunum, því að það hefur auðvitað úrslitaáhrif á afkomu þessa rekstrar, um hve marga menn er að ræða á hverju skipi. En þrátt fyrir þetta hafa verið gerðar mismunandi áætlanir, sem sýna auðvitað ýmist tap eða gróða.

En svo sagði hv. þm., að samt sem áður, þó að ég hafi haft alla þessa fyrirvara á, þá treysti ráðh. sér, segir hann, að segja, að skipin mundu standa undir fjármagnskostnaði. Það auðvitað sagði ég aldrei. Ég sagði, að miðað við það, að afli hinna stærri skipa væri 4000–4500 tonn á ári og afli minni skipanna um 3000 tonn á ári, miðað við núverandi aðstæður, þá ættu þau að geta staðið undir sínum rekstri. Það var þetta, sem ég sagði. Þetta er sú ályktun, sem ég dreg af þeim áætlunum, sem liggja fyrir. En þó gæti þetta farið á annan veg, ef samningar um mannfjölda yrðu langt frá því, sem ég hef gert mér grein fyrir.

Það er ábyggilegt, að opinberir lánasjóðir fara yfir þessar áætlanir og reyna að glöggva sig á þeim, en það hefur hins vegar ekki verið beint verkefni ríkisstj. til þessa að fara ofan í allar þær áætlanir, sem lánastofnanir fá varðandi þá fyrirgreiðslu, sem lánastofnanir veita. En eins og ég hef sagt hér áður, þá getur hv. fyrirspyrjandi og hvaða þm. sem er fengið að skoða þær áætlanir, gamlar og nýjar, sem fyrir liggja um þessi mál, því að hér vinnst ekki tími til þess að lesa upp þann bunka. En ég þykist hafa svarað þessum fsp. eins og tilefni er til og miðað við aðstæður.