07.11.1972
Sameinað þing: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

57. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 7. þm. Reykv. á þskj. 61 er á þessa leið: „Hver er orsök þess, að enn hefur engin úthlutun haustlána úr Lánasjóði íslenzkra námsmanna farið fram?“ Svar við fsp. er þetta:

Haustið 1969 var í fyrsta skipti tekinn upp sá háttur að veita námsmönnum, sem rétt áttu til námslána úr Lánasjóði ísl. námsmanna, kost á að fá hluta lánsins greiddan að haustinu, þ.e.a.s. snemma á háskólaárinu, í stað þess að áður hafði öll úthlutun námslána farið fram eftir áramót. Þessi svokölluðu haustlán eru m.ö.o. fyrirframgreiðsla upp í lán samkv. aðalúthlutun, og eru eftirstöðvarnar greiddar í jan. eða febr. í fyrstu tóku haustlánin eingöngu til námsmanna erlendis. Haustið 1971 féllst menntmrn. á tilmæli stjórnar lánasjóðsins um, að hliðstæða fyrirgreiðslu mætti einnig veita námsmönnum við Háskóla Íslands, sem sérstaklega stæði á fyrir. Var sjóðsstjórninni heimilað að lána einnig þeim stúdentum við háskólann hér, sem gengju undir embættispróf að hausti, svo og þeim, sem þá tækju áfangapróf, og þá miðað við, að þessir stúdentar notuðu sumarleyfi sitt að langmestu leyti til próflesturs. Jók þetta verulega á fjárþörf sjóðsins til að standa straum af haustlánum. Á þessu hausti samþykkti ríkisstj. fyrir sitt leyti till. stjórnar lánasjóðsins um, að reglur um veitingu haustlána yrðu enn rýmkaðar á þá lund, að ekki einungis þeir stúdentar við Háskóla Íslands, sem verið hefðu í haustprófum, ættu kost á láni, heldur og aðrir námsmenn, sem rétt ættu til lána úr sjóðnum og gætu fært sönnur á, að afkoma þeirra frá lokum síðasta skólaárs væri með þeim hætti, að þeim væri brýn þörf á haustláni. Var þá jafnframt gert ráð fyrir því, að fjárhæð haustláns færi í hverju tilviki eftir raunverulegri fjárþörf viðkomandi námsmanns, en miðaðist ekki við ákveðið hlutfall af væntanlegu heildarláni til hans. Enda þótt skilyrðin til að fá haustlán væru þannig með nokkrum hætti þrengd að því er hvern einstakan námsmann varðar, stækkaði við þetta að mun sá hópur, sem kom til greina við veitingu haustlána, og mátti gera ráð fyrir talsvert aukinni fjárþörf til þeirra af þessum sökum.

Eins og þeim er kunnugt, sem nærri þessum málum koma, hefur fjárþörfinni til haustlána jafnan verið fullnægt með þeim hætti, að til þeirra hafa runnið þau bankalán, sem lánasjóðnum var heimilt að taka, en ríkisframlaginu til sjóðsins hefur þá að meginhluta verið varið til að standa straum af lánum og styrkjum við aðalúthlutun. Vegna aukinnar fjárþarfar til haustlána af þeim ástæðum, sem raktar voru hér að framan, hefur fjármagnsútvegun til þeirra að þessu sinni verið enn umfangsmeira verkefni en áður, og er enn þá verið að vinna að henni. Þessi fjármagnsútvegun er þó komin það vel á veg, að stjórn lánasjóðsins hefur tjáð rn., að greiðsla haustlána geti hafizt nú þegar. Þess ber þó að geta, að umsóknarfresti um lán úr lánasjóðnum og þar með haustlán lauk ekki fyrr en 1. nóv. s.l., og er þess því ekki að vænta, að meðferð umsókna sé lokið.

Út af því, sem fyrirspyrjandi nefndi um aðdraganda þessarar fsp. og fund, sem ég hefði haldið með bankastjórum tveggja viðskiptabanka, vil ég taka það fram, að sá fundur var ekki haldinn að mínu frumkvæði, heldur að beiðni þessara bankastjóra, og sú beiðni var komin fram, áður en fyrirspyrjandi skýrði mér frá, að þessi fsp. væri á leiðinni. Gangur málsins hefur verið sá, að lánastofnunum var með bréfi frá 21. sept. skýrt frá lánsbeiðni fyrir hönd lánasjóðsins.

Síðan hélt ég fund 20. okt. með forsvarsmönnum allra þeirra banka og lánastofnana, sem veitt hafa Lánasjóði íslenzkra námsmanna fyrirgreiðslu á undanförnum árum. Koma tveggja bankastjóra á minn fund í síðustu viku að þeirra eigin frumkvæði var til þess gerð að færa svör lánastofnana þeirra við þeirri málaleitan, sem upp var borin á fundinum 20. okt.