08.11.1972
Efri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

59. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Frv. um veitingu ríkisborgararéttar er árvisst, hefðbundið frv., sem kemur fyrir hvert Alþ. Upp í þetta frv. hafa verið teknir 10 útlendingar, sem lagt er til, að veittur verði ríkisborgararéttur. Þeir fullnægja allir þeim skilyrðum, sem áður hafa verið sett í ályktunum Alþ. og af allshn., sem um þetta hafa fjallað. Venju samkvæmt má gera ráð fyrir því, að það bætist einhverjir hér við á þeim tíma, sem Alþ. hefur málið til meðferðar, og verða þeir þá sjálfsagt teknir upp í þetta frv.

Viðvíkjandi þeirri kröfu, sem hér hefur verið til nafnbreytingar, þegar menn hafa öðlazt íslenzkt ríkisfang, þá er fylgt í 2. gr. þessa frv. þeirri reglu þar um, sem samþ. var á síðasta Alþ. Rn. hefur talið rétt að láta Alþ. um það, ef því sýndist að hverfa til fyrra forms í þessum efnum. Niður er svo felld sú heimild, sem veitt var dómsmrh. til að gera undanþágu. Hennar sýnist ekki þörf, ef fylgt er þeirri reglu, sem er nú í 2. gr. frv.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.