09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er byggð á hinum sömu sjónarmiðum og nýju náttúruverndarlögin, sem sett voru hér á hv. Alþ. fyrir skömmu, en hún fjallar um tiltekinn þátt í þessum málum, eins og hv. flm. hafa gert grein fyrir. Mér þykir viðeigandi í þessu sambandi og þá einnig til þess að gefa hv. þm. upplýsingar um viss atriði, sem snerta þann þátt, sem hér er tekinn fyrir, að rifja upp 29. gr. náttúruverndarl. nýju, en hún hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Virkjanir, verksmiðjur og önnur stór mannvirki skulu hönnuð í samráði við náttúruverndarráð. Sama gildir um vegalagningu til slíkra mannvirkja.“

Það var gerð grein fyrir þessu nýstárlega ákvæði í grg. fyrir náttúruverndarlagafrv. m.a. á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Er til þess ætlazt, að haft verði samráð við náttúruverndarráð í tæka tíð, áður en meiri háttar mannvirkjagerð er hafin. Á hönnunarstigi slíkra framkvæmda er oft hægt að taka tillít til náttúruverndarsjónarmiða, og miðar gr. að því að tryggja, að slíkt verði gert, þar sem því verður við komið. Með þessu móti er hægt að koma í veg fyrir mjög alvarleg ágreiningsefni, sem óhjákvæmilega rísa og geta valdíð stórfelldu fjártjóni.“

Það stendur þarna „náttúruverndarsjónarmiða“, en gæti alveg eins staðið „umhverfissjónarmiða“. Nú hefur náttúruverndarráð ekki starfað lengi að framkvæmd þessara laga, eða einvörðungu síðan í aprílmánuði s.l. En það hefur mjög verið til athugunar á vegum ráðsins, hversu framkvæma mætti þessa lagagr. þannig, að hún kæmi að því liði, sem þeir ætluðust til, sem fyrir þessari lagasetningu beittu sér og hv. Alþ. með því að samþykkja lögin. Hér er um mjög örðugt viðfangsefni að ræða og stórkostlegt og í þessari gr. náttúruverndarl. er fólgin, eins og ég raunar gat um, stórfelld stefnubreyting frá því, sem áður var.

Nú fannst okkur ekki í náttúruverndarráði, að við gætum beðið eftir því, að menn kæmu og sýndu okkur áætlanir sínar eða gæfu sig fram við okkur og segðu: Nú ætla ég að fara að láta framkvæma undirbúningsrannsóknir að þessari eða hinni framkvæmdinni og vil hafa samráð við ykkur. — Að vísu er mönnum samkv. náttúruverndarl. skylt að gera þetta svona. En okkur fannst viðurhlutamikið að bíða aðgerðalausir eftir því, að málin kæmu fyrir ráðið á þessa lund, svo að við réðumst í að skrifa mörgum af stærstu framkvæmdastofnunum landsins eftirfarandi bréf, sem ég vil fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta, — og það gerðum við 5. maí í vor:

„Með tilvísun til 29. gr. l. nr. 47 1971, um náttúruvernd, óskar náttúruverndarráð upplýsinga um, hvaða verklegar stórframkvæmdir stofnun yðar hefur í undirbúningi eða á framkvæmdastigi, enn fremur hvaða stórframkvæmdir komist á undirbúningsstig á næstunni. Náttúruverndarráð leggur áherzlu á góða samvinnu um þessi efni og telur í því sambandi afar mikilvægt, að ráðið fái vitneskju um fyrirhugaðar framkvæmdir á frumstigi og áður en lagt er í kostnaðarsamar undirbúningsrannsóknir. Með því móti einu er unnt að tryggja, að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða“ — það er athyglisvert, að þá er farið að nota orðið umhverfissjónarmið, en í grg. fyrir náttúruverndarl. var notað orðið náttúruverndarsjónarmið, og þessi breyting á notkun orða segir kannske sína sögu um þá þróun, sem varð á þeim stutta tíma, sem þarna leið á milli, — „að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða þegar í upphafi hvers máls.“

Þetta bréf var sent æðimörgum stórum stofnunum, einkanlega ríkisstofnunum, en þó öðrum einnig, og hefur síðan verið sent fleiri aðilum, eftir því sem náttúruverndarráði hefur fundizt ástæða til að gera, en auðvitað ekki nærri því öllum, sem hefðu átt að fá slíkt bréf. Ýmsir hafa svarað þessu bréfi, og vegna þess að hér var verið að ræða um orkumál og áætlanir í sambandi við þau, vil ég leyfa mér að lesa hér svarið, sem við fengum frá Orkustofnuninni, og það er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkustofnun þakkar ofangreint bréf yðar og fagnar þeirri áherzlu, sem þér leggið á góða samvinnu. Stofnunin vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að hún megi takast. Stofnunin sendir yður hjálagt yfirlit yfir þær vatnsaflsvirkjanir og jarðhitamannvirki, sem hún hefur haft eða hefur sem stendur með höndum forrannsókn á. Hér er um allmikinn fjölda að ræða, og um þessar rannsóknir eru til margar skýrslur. Ekki eru tök á að senda eintak af þeim öllum. Orkustofnun gerir ráð fyrir því, að ráðið muni óska frekari upplýsinga um mörg þau mannvirki, sem talin eru í yfirlitinu. Sum þeirra eru á algeru frumstigi forrannsókna, önnur lengra komin. Stofnunin telur heppilegast, að viðræður fari fram á milli fulltrúa Orkustofnunar og náttúruverndarráðs um það, hverjar frekari upplýsingar séu æskilegar og unnt að veita.“

Ég skal taka það fram, að hliðstæð bréf fengum við einnig frá ýmsum öðrum stofnunum, og vil ég sérstaklega geta þess, að Vegagerð ríkisins hefur tekið upp allnáið samstarf nú þegar við náttúruverndarráð um þessi efni og sýnt mjög mikinn áhuga í því sambandi.

Þessu bréfi, sem ég las, frá Orkustofnuninni fylgdi listi, eins og getið er um í bréfinu, um 47 hugsanlegar vatnsaflsvirkjanir, 47 talsins. Og eins og getið er um í bréfinu, er listinn yfir þær vatnsaflsvirkjanir eða jarðhitamannvirki, sem stofnunin hefur sem stendur með höndum forrannsókn á eða hefur haft, en það eru 47 vatnsaflsvirkjanir og 6 jarðhitavirkjanir. Nú skal þess getið, að þessi tala gefur kannske ekki alveg rétta hugmynd um áætlanirnar — og raunar þó, því að sumt eru áætlanir um fleiri en einn möguleika til nýtingar á sömu orkunni, en það eru 47+6 áætlanir, sem eru í gangi.

Nú má nærri geta, að það er ekkert auðvelt viðfangsefni fyrir náttúruverndarráð með öllum þeim mýgrút af öðrum málum, sem þar koma til, — því að þótt við höfum haldið æðimarga fundi á þessum fáu mánuðum, sem liðnir eru, þá hafa alltaf verið margir tugir mála til meðferðar á hverjum, — að átta sig á, hvernig hægt er að koma við framkvæmd þessarar lagagr., svo að vel fari, og finna skynsamlegt vinnulag, ef svo mætti segja. Ég held, að okkur í náttúruverndarráði sé ljóst, að þar veltur allt á því, að góð samvinna takist í tæka tíð um hvert stórt viðfangsefni, og mun þó verða fullerfitt að fást við þetta með því afli, sem náttúruverndarráð hefur, þótt slík samvinna takist. Og til þess að hv. alþm. fái hugmynd um, hvernig við höfum hugsað þetta, því að það snertir mjög það, sem hér er verið að fást við, vil ég næst leyfa mér að lesa bréf, sem við í náttúruverndarráði rituðum til svars því, sem ég las áðan frá Orkustofnuninni:

„Náttúruverndarráð þakkar bréf Orkustofnunar frá 31. maí,“ — en þetta bréf, sem ég les, er skrifað 25. sept., — „ásamt yfirliti því um vatnsaflsvirkjanir og jarðhitamannvirki, sem hún hefur með höndum forrannsókn á og bréfinu fylgdi. Náttúruverndarráð er nú að kynna sér einstök atriði yfirlits þessa, en þar sem þau eru allmörg, mun það taka nokkurn tíma. Ráðið vill þó ekki láta hjá líða að leggja áherzlu á það sjónarmið, að vistfræðilegar forsendur séu frá byrjun metnar til jafns við jarðfræðilegar og verkfræðilegar forsendur, þegar gerðar eru áætlanir um virkjunarframkvæmdir og aðra mannvirkjagerð í stærri stíl. Oft á tíðum þarf vistfræðileg athugun að hafa forgang, áður en hafin er umtalsverð vinna vegna verkfræðilegra áætlana. Þetta sjónarmið á sérstaklega við, þegar um er að ræða áætlanir um breytingar á yfirborðshæð eða farvegum vatna. Ljóst er, að náttúruverndarráði er mikill vandi á böndum að fylgjast með viðfengsefnum hinna ýmsu framkvæmdaaðila í landinu og hugsanlegum áhrifum framkvæmda á umhverfið. Í því sambandi hlýtur ráðið að treysta mjög á samstarf við stofnanir, sem standa að undirbúningi og áætlunargerð. Hefur náttúruverndarráð ástæðu til að vonast eftir góðu samstarfi við Orkustofnun um málefni raforkuvæðingar og jarðvarmavirkjana, og er ráðinu kunnugt um viðleitni Orkustofnunar til þess að hefja líffræðilegar athuganir samhliða annarri áætlunargerð. Til þess að auðvelda þetta samstarf í byrjun, leyfir náttúruverndarráð sér að óska eftir því við orkumálastjóra, að hann komi á fund þess í lok okt. og ræði frekar nokkur atriði í áðurnefndu yfirliti og fyrirkomulag samstarfs í framtíðinni.“

Sams konar bréf skrifuðum við iðnrn. og Rafmagnsveitum ríkisins, en ekki fleiri aðilum á því stigi. Síðan komu á okkar fund ráðuneytisstjóri iðnrn. og Jakob Björnsson, væntanlegur orkumálastjóri og framkvæmdastjóri Rafmagnsveitna ríkisins, á síðasta fund náttúruverndarráðsins, og var þar ítarlega rætt um þessi mál, sérstaklega um vinnuaðferðir, því að það, sem ríður á í byrjun, er að koma sér niður á skynsamlegar vinnuaðferðir. Þeir, sem þarna komu frá orkumálastjórninni, tóku mjög vel í að efna til slíks samstarfs og yfirleitt mjög vel undir þau sjónarmið, sem komu fram í okkar bréfi. Í framhaldi af þessum fundi höfum við svo ritað hæstv. iðnrh. eða iðnrn. svo hljóðandi bréf, sem ég leyfi mér einnig að lesa, með leyfi hæstv. forseta, og ritað er 31. okt.:

„Með tilvísun til 1. mgr. 29. gr. l. nr. 47 1971, um náttúruvernd, ákvað náttúruverndarráð á fundi sínum 30. okt. að leita til rn. með ósk um, að stofnuð verði samstarfsnefnd orkumálastjórnar og náttúruverndarráðs. Verkefni n. verði að fjalla um áhrif þróunar orkumála á umhverfið og um vistfræðiþáttinn í frumathugunum vegna hugmynda um framkvæmdir í orkumálum. Í þessu sambandi vill ráðið leggja áherzlu á það sjónarmið sitt, að frá upphafi verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða við undirbúning mannvirkjagerðar. Ráðið leggur til, að hvor aðili skipi hið fyrsta 3 menn í þessa samstarfsnefnd.“

Ég hef fulla ástæðu til að álíta og raunar veit ég, að hæstv. iðnrh. mun taka þessari uppástungu vel og það muni verða af þessu samstarfi um þennan þátt í þessum anda, sem þarna er stungið upp á. Ég vil einnig greina frá því, að við höfum sent frá okkur till. til vegamálastjórnarinnar eða erum að undirbúa hana um nokkuð hliðstætt samstarf varðandi vegamál, þó kannske nokkuð öðruvísi, meira miðað við landshluta.

Ég hygg, að þessar vinnnuaðferðir, sem við höfum þarna ráðgert, séu skynsamlegar. En aðalatriðið verður, hvernig samvinna tekst og hvernig náttúruverndarráði tekst að hafa bolmagn til þess að skapa sér rökstuddar skoðanir á öllum þeim fjölbreytilegu atriðum, sem þarna koma til íhugunar. En í því efni verður ráðið auðvitað að fá stuðning Alþingis til þess að geta leitað til sérfræðinga og haft stuðning af þeim, eins og þarf, því að það er ekkert hægt að komast með framkvæmd náttúruverndarl., hvorki í þessum þætti né öðrum, nema fá hæfilegar fjárveitingar til þess að geta haft það vinnuafl. sem þarf til þess að kryfja þessi mál til mergjar.

Ég sá, að hæstv. iðnrh. er á mælendaskrá, og skal ekki fara að flytja hér neina skýrslu um það, sem kom fram af hálfu orkumálastjórnarinnar á þessum fundum. En það kom þar fram, eins og raunar var drepið á áðan í einhverju bréfanna, að Orkustofnunin hefur nú þegar hafizt banda um umhverfislegar athuganir í vissum greinum, og ég geri mér sterkar vonir um það, að það séu orðin eða séu að verða alger straumhvörf í öllum málum af þessu tagi. Mér virðist, að það megi gera sér vonir um, að það séu að verða alger straumhvörf. En vitaskuld verða alltaf mörg álitamál. sem koma upp í þessu sambandi og margur er oft í vanda að velja á milli þeirra kosta, sem fyrir hendi eru.

Ég vil mjög eindregið mæla með því, að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, verði samþ., vegna þess að ég álít, að hún sé alveg í þeim anda sem náttúruverndarráð hafði hugsað sér, að þyrfti að vinna að þessum málum, og það yrði bolmagn til þess að ná á þeim fullnægjandi tökum, ef þeir, sem fyrir orkumálunum standa, beittu þeim krafti, sem þeir hafa yfir að ráða, til þess að taka þau til endurskoðunar í því nýja ljósi, sem nú er að varpast á öll þessi efni. Þannig þyrfti einnig að taka miklu fleiri þætti.

Við verðum að skoða þessi mál öll í nýju ljósi. Nýtt verðmætamat er komið til, eins og eðlilegt er. Við höfum komið auga á, að það er þáttur í lífskjörum manna að eiga þess kost að lifa í viðkunnanlegu og óspilltu umhverfi. Það er einn liður í þeim lífskjörum, sem menn hljóta að sækjast eftir, þegar þeir hafa náð því marki að hafa til hnífs og skeiðar. Enn fremur hlýtur að gerbreyta öllu verðmætamati sá mikli tími, sem menn hafa afgangs frá sjálfu brauðstritinu, og hlýtur einnig að gerbylta öllum viðhorfum manna.

Við erum farnir að kalla þessi mál eða málaflokka, sem að þessu lýtur, umhverfismál, og það held ég, að sé vel farið og lýsi því vel, hvað við eigum við, og ég tel, að því fleiri þættir í þjóðarbúskapnum sem verða endurskoðaðir frá rótum í þessu nýja ljósi, sem verið er nú að varpa á þessi mál, því betra. Því mæli ég eindregið með þessari þáltill., en ég taldi rétt, að það kæmi fram hér, hvað náttúruverndarráð hefur verið að reyna að gera til þess að framkvæma 29. gr. náttúruverndarl. Það er allt á bernskustigi, en þó er verið að reyna að ýta þar úr vör, ef svo mætti segja.