09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

52. mál, kavíarverksmiðja á Norðausturlandi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá fyrri flm. þessarar till., er atvinnuástand á sumum stöðum á Norðurlandi oft og tíðum mjög lélegt, sérstaklega að vetrinum. Þess vegna hafa verið þar viða uppi athuganir á t.d. slíkri framleiðslu, sem hér um ræðir. Það er lítils háttar kavíarframleiðsla á þremur stöðum á Norðurlandi, þ.e. á Húsavík, á Akureyri og það mun vera líka á Siglufirði. Á undanförnum árum hefur verið undirbúningur að slíkri verksmiðju á Dalvík. Það er Söltunarstöð Dalvíkur, sem hefur haft þetta mál í undirbúningi og hefur mjög leitað til stjórnarvalda og lánasjóða til að fá stuðning til slíkrar verksmiðjubyggingar, og er raunar hafin slík bygging á Dalvík. Söltunarfélag Dalvíkur var stofnað 1945, og aðalstarfræksla þess félagsskapar var síldarsöltun, en svo þegar síldin hvarf, þá voru þar byggingar og eignir, en möguleika vantaði til þess að halda þarna áfram einhverri starfrækslu. Og þar sem á Dalvík er fyrst og fremst byggt á sjósókn og svo lítils háttar þjónustuiðnaði við nærliggjandi sveitir, var fyrst og fremst að huga að því, hvort ekki væri hægt að vinna eitthvað úr sjávaraflanum, eins og er byrjað á Húsavík og viðar. En þar sem þessi mál öll eru nú í athugun, hefur Söltunarfélaginu ekki enn þá tekizt að fá ákveðin svör, en þó hefur máli þess verið mjög vel tekið af stjórnarvöldum. Niðursuðunefndin, sem var sett á laggirnar, segir, að 1970 hafi salan ekki verið nema 66.7 tonn af grásleppukavíar, og fyrir þær 6 verksmiðjur, sem nú vinna að þessari framleiðslu, — og að vísu vinna að margs konar annarri niðurlagningu og framleiðslu, — sé þetta 28 daga framleiðsla. Ef þær ynnu ekki annað, sem er óhugsandi, þá sjá menn, að þetta er auðvitað lítið. En fyrir, að ég held tveimur árum, var í sambandi við byggingar og eignir Söltunarfélagsins á Dalvík byrjað á byggingu og er búið að byggja þar fyrir, held ég, 900 þús. kr. Töluvert af þessari byggingu mundi ekki nýtast við slíka framleiðslu, sem þarna er fyrirhuguð.

Ég er einmitt með hér í höndum bréf frá iðnrn., þar sem gert er ráð fyrir því, að á næstunni muni þessi mál þróast þannig, — og þeir eru það bjartsýnir og telja sig geta mælt með því, — að Söltunarfélagið fái fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum til þess að halda áfram framkvæmdum á Dalvík í þessu skyni. Ég vil upplýsa það hér í sambandi við þessa till., að þetta er komið af stað. Ég er hér með fyrir framan mig álitsgerð frá Páli Péturssyni niðursuðutæknifræðingi, bar sem hann hefur gert áætlun um uppbyggingu og rekstur á svona verksmiðju, sem mundi vinna úr um þúsund tunnum á ári, og hann gerir ráð fyrir líka, að það mundi verða ýmisleg annars konar framleiðsla, jafnvel niðursuða á rauðkáli, en hann hefur komizt að raun um, að sé flutt inn niðursoðið rauðkál fyrir 20 millj. kr. á ári. Og niðurstaða hans, þó að stærðin sé ekki meiri en þetta, er sú, að þessi verksmiðja, sem mundi veita nokkuð mörgu fólki þarna atvinnu, mundi vel bera sig, eftir að fyrsta árið er liðið.

Það er auðvitað mjög gott, að svona till. kemur hér fram, og vonandi tekst, miðað við hina nýju skipan þessara mála, að fá markað fyrir ýmsa vöru erlendis. Það eru nú litlir sölumöguleikar, nema helzt í Austur-Þýzkalandi, Frakklandi og Ameríku, og ekki fyrir meira magn en um 66–70 tonn. En þeir, sem eru kunnugir þessum málum, telja, að með því að auglýsa þetta nógu vel og kynna erlendis, séu miklir möguleikar í þessari framleiðslu, og vonandi verður hægt að setja upp svona verksmiðjur viðar á Norðurlandi en nú er. En þar sem undirbúningur er hafinn að þessari verksmiðju, sem er að rísa á Dalvík, finnst mér einsýnt, að hún eigi að sitja fyrir stuðningi hins opinbera til að ljúka því verki, sem þar er hafið.