18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

14. mál, fiskeldi í sjó

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég átti nú satt að segja ekki von á því, að þetta frv. til I. um fiskeldi í sjó yrði lagt fram á þessu þingi óbreytt frá frv., sem lagt var fram í fyrra. Það er ekki að neita því, að hér er um mikið merkismál að ræða, og fiskeldi í sjó getur orðið mikið framfaramál. ef rétt er að staðið. Á undanförnum árum hefur komið í ljós, að hægt er að rækta margar fisktegundir, og t.d. er ræktun rækju og humars mjög vel á veg komin í ýmsum löndum. Hér er því nauðsyn að fá löggjöf. Hins vegar virðist svo sem þetta frv. sé ekki nægilega undirbúið, og vil ég þar einkum taka fram, að hér virðist geta verið hætta á ruglingi milli laxveiðilaga og þessa nýja frv., og tel ég, að það gæti verið mjög alvarlegt mál. Þar að auki virðist það vera svo, að þetta takmarki allmikið rétt sjávarbænda yfir sínum jarðeignum.

Bændur eiga, eins og við vitum, flestar jarðir, sem að sjó liggja, og það virðist svo eftir þessu sem þeir þurfi að fá leyfi sjútvrn, og það síðan umsögn fleiri aðila um þá leyfisbeiðni til þess að geta gert hinar minnstu tilraunir með fiskeldi í sjó eða sjávarblöndu. Og einmitt þetta atriði, sjávarblanda, getur verið þýðingarmikið í sambandi við lax- og silungsrækt. Mönnum er heimilt að rækta sinn silung og rækta sinn lax í sínum lækjum og lónum. Og enn fremur er allmikið gert að því að framleiða laxaseiði við ýmsar aðstæður, og til þess þarf ekki neitt sérstakt leyfi. Hins vegar, ef um stórframkvæmdir er að ræða, þannig að aðstoð þurfi til að koma, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að leyfi komi til.

Ég held, að það sé mikil nauðsyn, að þeir aðilar, sem hér eiga mikilla hagsmuna að gæta, svo sem landeigendur í þessu landi, fái tækifæri til þess að vera með í ráðum um endanlegan frágang þessa frv. Ég er líka mjög hræddur um, að hér geti orðið alvarlegur ruglingur á milli laxveiðilaganna og þessara laga, ef frv. verður samþ., og það gæti orðið frekar til þess að hamla á móti þróun þessara mála heldur en hitt.

Þá er eitt atriði í þessu, um eignarnámsheimildina, sem að sjálfsögðu getur undir örfáum kringumstæðum verið nauðsynleg, en ef við tökum þær staðreyndir, sem liggja fyrir gagnvart laxveiðilöggjöfinni, þá hefur þar verið farin sú leið, að aðallega væru mynduð veiðifélög landeigenda og síðan verið hafin starfsemi á þeirra vegum í þessum efnum. Þetta virðist hafa reynzt mjög vel, og tel ég, að það geti verið miklu geðslegri meðferð heldur en eignarnámsframkvæmdin, þótt að sjálfsögðu þær aðstæður geti skapazt, að nauðsynlegt sé að fá eignarnámsheimild.

Ég viðurkenni nauðsyn laga um fiskeldi í sjó. Ég vil hins vegar fyrst og fremst leggja áherzlu á, að mér finnst þarna vera gengið of langt í því að takmarka framkvæmdir aðila á sínum landeignum, og í öðru lagi vil ég leggja áherzlu á, að þess verði gætt, að ekki komi til ruglings á milli laxveiðilaganna og þessa nýja frv., ef að lögum verður.