16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

48. mál, fiskiðnskóli í Siglufirði

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 9 öðrum hv. þm. úr Norðlendingafjórðungi að flytja till. til þál. um fiskiðnskóla í Siglufirði. Till. er á þskj. 50 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hefja undirbúning að því, að settur verði á stofn fiskiðnskóli í Siglufirði.“

Það mun hafa verið á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem haldin var 2. okt. s.l., að samþykkt var shlj. till. þess efnis, að skorað var á okkur þm. beggja Norðurlandskjördæmanna að flytja frv. eða þáltill. á þessu þingi um stofnun slíks skóla í Siglufirði. Í þessari samþykkt bæjarstjórnar er vitnað til samþykktar, sem gerð var á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem haldið var á Akureyri í sept. í haust, þar sem einróma var mælt með því, að stofnaður yrði fiskiðnskóli í Norðlendingafjórðungi og honum þá helzt valinn staður í Siglufirði. Við flm. þessarar till. teljum marga kosti því samfara, að slíkum skóla verði valinn staður þar. Siglufjörður hefur verið og er mikill útgerðarbær, — þó að hann sé það e.t.v. ekki nú í sama mæli og hann var áður, meðan síldin veiddist, — og ég hygg, að svo muni verða áfram, að þar verði ávallt um mikinn útgerðarrekstur að ræða. Þar eru fiskiðjuver, sem vinna að fjölbreyttri fiskvinnslu, og má þar fyrst til nefna lagmetisiðju ríkisins, sem stofnuð var með lögum frá síðasta þingi, Lagmetisiðjuna Siglósíld, sem er á okkar mælikvarða mikið fyrirtæki og mikilsvert. Í Siglufirði starfa einnig tvö frystihús og þar starfa einnig ýmsar minni fiskverkunarstöðvar, og þar er enn fremur niðurlagningarverksmiðja, sem hefur starfað þar í mörg ár og býr yfir staðgóðri reynslu og kunnáttu í sínum verkum. Enn má á það benda, að nú er að því unnið að koma upp í Siglufirði miklu fiskiðjuveri sem hlutafélagið Þormóður rammi vinnur að. Og það er einmitt mikils virði, þegar unnið er að uppbyggingu þess fiskiðjuvers, að tillit verði tekið til þess, að þar megi koma að kennslu í fiskiðnaði, og sú aðstaða, sem þar myndast, verði einmitt notuð í sambandi við fiskiðnskólann.

Ég minntist á lagmetisiðjuna. Hlutverk hennar er býsna mikið. Það segir t.d. í lögunum um hana, að henni sé ætlað að vinna að niðurlagninu og niðursuðu og hvers kyns fullvinnslu matarréttar úr sjávarafurðum og öðrum íslenzkum hráefnum.

Það, sem einnig mælir með því að okkar dómi, að þessum skóla verði komið upp í Siglufirði, er, að við gerum ráð fyrir, að þar muni ekki fyrst um sinn þurfa að leggja í mikinn stofnkostnað við slíkan skóla. Húsnæði til kennslu er fyrir hendi, það mun vera hægt að fá í gagnfræðaskóla staðarins, sem engan veginn er fullnýttur nú sem stendur, og í Siglufirði er einnig góð aðstaða til heimavistar. Er vitanlega auðvelt að fá aðstöðu til heimavistar í þeim tveimur hótelum, sem eru á staðnum og lítið eru notuð að vetri til.

Ég vil taka það fram, að með flutningi þessarar till. okkar er engan veginn ætlað spilla fyrir því, að upp rísi fiskiðnskólar eða fiskvinnsluskólar á öðrum stöðum í landinu, þar sem það þykir henta og þurfa þykir. En fiskiðnaðurinn er svo mikilsverður þáttur í atvinnulífi okkar Íslendinga, að vart verður talið of í lagt, þó að á stofn verði settur a.m.k. einn slíkur skóli í hverjum landsfjórðungi, — skóli, sem hefur því hlutverki að gegna að sérmennta starfsfólk í hinum margvíslegu og þýðingarmiklu störfum við fiskiðnaðinn og fiskvinnsluna og við framleiðslu þeirra eftirsóknarverðu matvæla, sem sjávarafurðir okkar eru.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða frekar um þessa till., vitna til grg. og legg til. að nú, þegar fyrri hluta umr. verður frestað, verði till. vísað til hv. allshn.