21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

71. mál, kaupábyrgðarsjóður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Svarið við spurningunni: „Hvað líður undirbúningi frv. til l. um kaupábyrgðarsjóð eða hliðstæðrar löggjafar?“ er já. Það er búið að semja frv. um þetta efni. Það verður frv. til l. um ríkisábyrgð á launum vegna gjaldþrota. Þessi lagasmið, sem gengið var frá alveg til fulls í rn. núna í septemberlokin, er byggð nokkuð á sænskum lögum frá árinu 1970, sem tóku þó ekki gildi þar fyrr en á árinu 1971, einnig með hliðsjón af dönskum lögum, sem gengu í gildi á þessu ári, og auk þess höfðum við í höndum uppkast að frv. til slíkra laga frá Noregi, sem var í smíðum þar á þessu ári. Þetta sýnir, að það er í öllum okkar nágrannalöndum verið að fást við lagasmíð um þetta efni alveg fram á þetta ár, engin reynsla komin af löggjöf í neinu þessara landa, ekki einu sinni í Svíþjóð, þar sem lögin tóku gildi í jan. 1971.

Frv., sem samið hefur verið um þetta efni, hefur siðan verið til umsagnar hjá þeim, sem fara með skipti þrotabúa hér á landi, til þess að afhuga, hvort formshlið væri að einhverju leyti ábótavant miðað við íslenzk lög og reglur varðandi skipti búa. Svör eru nú komin, svo að það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að leggja frv. fram hvenær sem væri.