28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

84. mál, Sigölduvirkjun

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Af umr., sem fram hafa farið hér á Alþ. fyrir skömmu, sem og fréttum um forútboð á Sigölduvirkjun, er ljóst, að iðnrn. hefur fullráðið að hefjast þar banda innan tíðar. Meðal almennings gengur þó þrálátur orðrómur um, að enn hafi ríkisvaldið ekki tryggt sér fé til þessara framkvæmda. Ekki er ljóst, hve mikill markaður er fyrir hendi, strax og virkjunin kemst í gagnið, en á því veltur að sjálfsögðu, hve viturleg og hagkvæm þessi virkjun er, og ekki heldur, hvað hún muni kosta samkv. nýjustu áætlun, en svo sem vitað er, er allur fram kvæmdakostnaður á fleygiferð upp.

Allur þorri landsmanna fylgist af áhuga með öllum virkjunarframkvæmdum og virkjunarfyrirætlunum, og er ljóst, hve miklu þær varða framtíð þjóðarinnar. Því hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. iðnrh.:

„1. Hefur ríkisstj. tryggt sér lán til Sigölduvirkjunar, og ef svo er, þá hvar og hve há? 2. Hvað er áætlað nú, að Sigölduvirkjun muni kosta?

3. Fyrir hve mikinn hluta orkuframleiðslunnar er þegar tryggður markaður, og hver er hann?“