05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

282. mál, endurskoðun ljósmæðralaga

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Gildandi ljósmæðralög eru að stofni til frá 19. júní 1933, en síðan hafa verið gerðar á þeim fjölmargar breytingar hér á hinu háa Alþ. Hins vegar þótti tímabært að endurskoða lögin í heild, og var skipuð n. í febr. 1971 til að annast það verkefni. Í n. voru skipuð Jóhann Gunnar Ólafsson fyrrv. bæjarfógeti, formaður, Kristín E. Tómasdóttir yfirljósmóðir og Jón Þorgeir Hallgrímsson sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum.

Ef litið er á ljósmæðralög þau, sem nú eru í gildi, er augljóst, að þau eru samin við allt aðrar aðstæður en nú gilda. Þau gera ráð fyrir, að hverri sýslu landsins skuli skipta í ljósmæðraumdæmi, að sýslunefndir geri það, og síðan sé skipuð ein ljósmóðir til að gegna hverju umdæmi. Lögin gera þannig ekki ráð fyrir þeirri þróun, sem hefur orðið á fæðingarhjálp, þ.e.a.s. þan gera ráð fyrir heimafæðingum, en eins og kunnugt er, fer nú um 95% allra fæðinga fram á sjúkrahúsum eða fæðingarheimilum og þar af 73–75% undir eftirliti sérfræðinga í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Eftir því sem vitneskja er um í heilbrn., eru ljósmæðraumdæmin nú 133, en ljósmæður skipaðar til starfa í þessum umdæmum um 55. Hins vegar eru starfandi ljósmæður á fæðingarstofnunum, fæðingarheimilum og sjúkrahúsum um 60 talsins, og vinna langflestar þeirra á fæðingardeild Landsspítalans, fæðingarheimili Reykjavíkur og við önnur sjúkrahús, þar sem sérstakar fæðingardeildir eru starfandi. Það er því augljóst af þeirri skiptingu, sem áður er getið um milli fæðinga á sjúkrahúsum og utan þeirra, að starfinu milli þessara tveggja hópa ljósmæðra, sem eru mjög jafnir að stærð, er afar misskipt. Það var fyrst og fremst af þessum ástæðum, að tímabært þótti að endurskoða ljósmæðralög, þ.e. taka til rækilegrar endurskoðunar núverandi skiptingu í ljósmæðraumdæmi og hver þörf væri í framtíðinni á að hafa ljósmæður starfandi úti á landsbyggðinni utan sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana.

N. sú, sem fyrr getur, óskaði eftir því við heilbrn. síðari hluta árs í fyrra, að rn, hlutaðist til um, að öllum sýslumönnum, bæjarfógetum og héraðslæknum yrði skrifað og spurzt yrði fyrir um, hverjar brtt. þeir hefðu um ljósmæðraumdæmi frá því, sem nú er, eða hvort þeir hefðu aðrar till. um málin. Enn fremur óskaði n. eftir upplýsingum um, hvernig nú er háttað umdæmaskipun og hvort ljósmæður hefðu fengizt í þau umdæmi, sem í héruðunum væru, eða hvort sama ljósmóðir gegndi mörgum umdæmum. Svör við þessum fsp. gengu beint til n., og er þess að vænta, að hún hafi stuðzt við þær upplýsingar um tillögugerð sína.

N. hefur ekki enn skilað till. sínum og meginástæðan mun vera sú, að enda þótt nm. séu sammála um, að mikilla breytinga sé þörf á ljósmæðraumdæmakerfinu, er n. ekki reiðubúinn til að skila till. sínum, fyrr en séð verður, hverja afstöðu Alþ. tekur til frv. til l. um heilbrigðisþjónustu, sem kynnt var hér á síðasta þingi og ég vænti, að fljótlega verði lagt fram á nýjan leik, því að nm. telja, að starfsemi ljósmæðra eigi að tengjast við sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir, eftir því sem við getur átt, en ljósmæðraumdæmi með sérstökum starfandi ljósmæðrum verði einskorðuð við þau landssvæði, þar sem heimafæðingar eru enn tiltölulega tíðar og aðstaða til vistunar í sjúkrahúsi eða fæðingarstofnun er erfið. Ég á því ekki von á því, að brtt. n. liggi fyrir, fyrr en síðar á þessu þingi, þegar umr. og vonandi afgreiðsla frv. til l. um heilbrigðisþjónustu hefur farið fram.

Í sambandi við þessa fsp. um ljósmæðral. er rétt að geta þess, að fyrir forgöngu heilbr. og trmrn. er nú hafin kennsla í hjúkrun fyrir ljósmæður, og er gert ráð fyrir því, að ljósmæður geti lokið hjúkrunarnámi á tveimur árum. Þetta er vonandi upphaf þess, að nám hjúkrunarkvenna og ljósmæðra verði meir sameinað en nú er, og margir telja, að í framtíðinni muni ljósmæðramenntunin verða framhaldsmenntun og sérmenntun hjúkrunarkvenna á sama hátt og sérmenntun þeirra í svæfingum, skurðstofuvinnu, geðhjúkrun og heilsuvernd er nú. Hversu langt þessar breytingar eiga í land, er þó erfitt að segja um á þessu stigi, en við gerum ráð fyrir, að sá hópur, sem nú er að hefja nám og námi lýkur á árinu 1974, muni fyrst og fremst fara til starfa á kvensjúkdóma- og fæðingardeildum, en um það leyti mun hin nýja kvensjúkdómadeild og fæðingardeild Landsspítalans væntanlega standa fullbúin til notkunar.